Til hamingju með afmælið UN!

Sierra Leone

Í tilefni 60 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna í gær er ekki úr vegi að rifja upp lexíuna frá borgarastríðinu í Sierra Leone. Í fyrsta lagi má það ekki gerast aftur að hinn siðmenntaði heimur setjist að samningaborði með morðóðum brjálæðing og komi honum til valda. Í öðru lagi sýndi Sierra Leone hversu lélegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna getur oft verið.

Sierra Leone

Í tilefni 60 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna í gær er ekki úr vegi að rifja upp lærdóminn frá borgarastríðinu í vestur afríska ríkinu Sierra Leone. Þegar ríkið fékk sjálfstæði frá Bretum árið 1961 þá hafði ríkt þar friður og velsæld í töluvert langan tíma, aðallega vegna auðugra demantanáma sem finnast í landinu. Spilling fór hins vegar fljótt að gera vart við sig eftir sjálfstæðið og ofan á það braust út uppreisn í hernum undir forystu herforingjans Foday Sanok. Uppreisn hans hafði ekkert pólitískt markmið að gera heldur var markmiðið að ræna demantanámur landsins. Samanstóð uppreisnarher hans aðallega af unglingum sem hann sendi út af örkinni til að nauðga, myrða og stela demöntum. Hefur hreyfing hans gerst sek um ótrúlegan fjölda grimmdarverka eins og t.d. kemur fram í fjölmörgum skýrslum mannréttindasamtaka um ástandið í landinu. Naut hann stuðnings hins alræmda stríðsherra Líberíu Charles Taylor og gerði hreyfing hans RUF (Revolutionary United Front) út frá Líberíu.

Árið 1995, eftir margra ára borgarastríð, voru sveitir RUF farnar að nálgast Freetown, höfuðborg Sierra Leone. Gripu stjórnvöld Sierra Leone þá til þess ráðs að ráða Suður-Afríska málaliðafyrirtækið “Executive Outcome” til að verja höfuðborgina og endurþjálfa herinn. Tókst fyrirtækinu vel upp, náði að koma á friði í stórum hluta landsins og gera þannig kleift að halda lýðræðislegar kosningar árið 1996 undir handleiðslu Sameinuðu þjóðanna.

Foday Sanok var á móti kosningunum og brást við þeim með andkosningaherferðinni “Ekki kjósa eða ekki skrifa” sem gekk út á það að höggva hendur af þeim sem tóku þátt í kosningunum. Þessi herferð virkaði svo vel hjá RUF til að hræða líftóruna úr íbúum landsins að þeir útfærðu hana enn frekar eftir kosningar og tóku upp á að höggva kerfisbundið af aðra limi, sauma fyrir leggöng eða sauma saman varir á fólki.

Í kjölfar kosninganna árið 1996 var Ahmed Kabbah, fyrrverandi starfsmaður Sameinuðu þjóðanna, kosinn leiðtogi landsins. Kosningarnar voru hins vegar skammgóður vermir því árið 1998 var gerð önnur uppreisn í hernum af foringjum sem tilheyrðu RUF. Komu þeir hinni nýju lýðræðislegu stjórn frá völdum. Ahmed Kabbah greip þá til þess ráðs að ráða Sandline, annað Suður-Afrískt málaliðafyrirtæki til að koma stjórninni aftur til valda. Tókst málaliðafyritækinu ásamt nígerískum hersveitum að koma uppreisnarmönnunum frá. Var Foday Sanok handtekinn og dæmdur til dauða fyrir landráð. Beið hann eftir fullnustu refsingar.

Þrátt fyrir þetta þá héldu bardagar áfram á milli RUF og stjórnarhersins. Af þeim sökum sendu Sameinuðu þjóðirnar sveitir á svæðið í júní 1998. Bill Clinton gerði gott betur og sendi séra Jesse Jackson á svæðið til að hjálpa Sameinuðu þjóðunum að ná fram friði. Leiddi þetta til Lomé friðarsamkomulagsins á milli stríðandi fylkinga. Gerði samkomulagið ráð fyrir því að hinn lýðræðislega kjörna stjórn landsins myndi deila völdum sínum með Foday Sanok og RUF. Fengi Foday Sanok bæði sakaruppgjöf og fulla stjórn yfir demantanámum landsins! Verður þetta samkomulag að teljast einn af svörtustu blettum síðustu ára á Sameinuðu þjóðunum (og er af mörgu að taka).

Ástæðan fyrir þessari uppákomu er víst mest ótrúlegri vanþekkingu séra Jesse Jackson að þakka. Hann varð strax mikill félagi stríðsherrans Charles Taylor og lýsti yfir mikilli aðdáum á hinum fangelsaða Foday Sanok og lýkti honum meðal annars við Nelson Mandela. Hins vegar vissu samningamenn Sameinuðu þjóðanna fullvel hvaða mann Foday Sanok hefði að geyma. Samkomulagið var undirritað í júlí 1999 en full stjórn yfir einu auðlind landsins virtist ekki ná að svala Foday Sanok. RUF hélt eftir sem áður áfram að ræna, nauðga og drepa í sveitum landsins.

Sameinuðu þjóðirnar gripu þá til þess ráðs að senda hálfgert sjoppulið inn í landið til friðargæslu. Samanstóð liðið af Zambíumönnum (mættu á svæðið án nokkurs útbúnaðar!), merkilega óhlýðnum Jórdaníumönnum og afar óskipulögðum Kenýamönnum. Voru þeir undir stjórn óvinsæls inversks foringja og var óhlýðni við skipanir hans regla frekar en undantekning. Hafði þetta sjoppulið enga stjórn á RUF. Færðust uppreisnarmennirnir þvert á móti allir í aukana, tóku alla vega 500 Zambíska friðargæsluliða í gíslingu og hófu allsherjar sókn í áttina að Freetown.

Á endanum þá var það Bretland sem bjargaði deginum. Þeir sendu herlið inn án samráðs við Sameinuðu Þjóðirnar, fældu RUF í burtu og komu á ró í landinu. Var greinilegt frá fyrsta degi að þarna væri annað hugarfar í gangi heldur en hjá friðargæsluliðunum. Sem dæmi má nefna að þegar RUF rændi einum breskum hermanni þá voru breskar sérsveitir (SAS) tafarlaust sendar á vettvang sem frelsuðu hermanninn og drápu 24 meðlimi RUF. Var Foday Sanok aftur handtekinn og fangelsaður. Endaði þannig meira en 10 ára borgarastríð í landinu.

Það er hægt að læra ansi margt af borgarastríðinu í Sierra Leone. Í fyrsta lagi má það ekki gerast aftur að hinn siðmenntaði heimur setjist að samningaborði með morðóðum brjálæðing og komi honum til valda. Í öðru lagi hefur Sierra Leone sýnt hversu lélegt friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna getur oft verið, sérstaklega miðað við málaliðaheri eða heri stóru vesturveldanna.

Þetta voru hins vegar afar dýrkeyptar lexíur sem kostuðu tugþúsundir mannslífa.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.