Vatnaskil í Sjálfstæðisflokknum

Glæsilegum stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar lauk á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Geir H. Haarde fékk afgerandi umboð til að taka við forystuhlutverkinu af Davíð. Vatnaskil hafa orðið í Sjálfstæðisflokknum og um leið í íslenskum stjórnmálum.

Um helgina fór fram 36. landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll. Þau tímamót urðu í stjórnmálum á Íslandi að Davíð Oddsson lét af formennsku eftir ríflega fjórtán ára farsælt starf. Við formennsku tók utanríkisráðherra og áður varaformaður flokksins, Geir H. Haarde. Nýr formaður gengur sterkur af þessu landsfundi með afgerandi umboð sinna flokksmanna, en tæplega 95% landsfundarfulltrúa greiddu Geir atkvæði sitt. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra var kjörin varaformaður flokksins með góðum stuðningi og er hún fyrsta konan til að gegna því embætti innan Sjálfstæðisflokksins. Kristján Þór Júlíusson stimplaði sig rækilega inn sem framtíðarforystumaður flokksins á landsbyggðinni með vasklegri framgöngu á landsfundinum, þótt hann hafi þurft að lúta í lægra haldi fyrir Þorgerði í kosningu til varaformanns.

Óhætt er að segja að valdatímabil Davíð Oddssonar hafi verið glæsilegt. Lengst af því tímabili sem hann gegndi formennsku var hann forsætisráðherra þjóðarinnar og stýrði henni í gegnum eitt mesta uppgangstímabil í sögunni. Verulegar framfarir hafa átt sér stað í þjóðfélaginu á þessum fjórtán árum. Kaupmáttur almennings hefur sem dæmi aukist um 50% og fjármál ríkisins verið tekin föstum tökum. Skuldir hafa verið greiddar niður og ríkisfyrirtæki einkavædd. Er staðan þannig í dag að á næsta ári er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu útlit fyrir að vaxtatekjur ríkisins verði meiri en vaxtagjöld í fyrsta sinn. Grundvöllur hinna miklu kjarabóta hefur verið skýr stefna Sjálfstæðisflokksins varðandi skattalækkanir, aukið frelsi í viðskiptum og einkavæðingu opinberra fyrirtækja.

Þó svo að góðum árangri hafi verið náð eru mýmörg verkefni sem nýr formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins þurfa að berjast fyrir. Mikilvægt er að hvika hvergi frá þeirri stefnu að minnka umsvif hins opinbera með áframhaldandi einkavæðingu ríkisfyritækja. Augljóst verkefni á því sviði er einkavæðing Landsvirkjunar eins og Geir H. Haarde vék að í ræðu sinni á landsfundinum í gær. Sömuleiðis ber að stefna að áframhaldandi lækkun skatta. En það er ekki síst á öðrum sviðum sem Sjálfstæðisflokkurin þarf að láta meira að sér kveða. Með nýjum formanni verða vatnaskil og ákveðinna breytinga er þörf.

Það þarf t.a.m. að ganga enn lengra í því að minnka afskipti hins opinbera af einstaklingum í landinu og viðskiptalífinu. Leikreglur á markaði þurfa að vera skýrar en um leið óheftandi. Það gengur ekki að breyta reglunum eftir á eins og gert var með Sparisjóðafrumvarpinu. Sömuleiðis er vonandi að barist verði fyrir því að frelsi einstaklinganna verði ekki heft enn frekar eins og var t.a.m. gert með breytingum á fjarskiptalögum sem dómsmálaráðherra stóð fyrir.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf einnig að láta að sér kveða í málaflokkum sem hann hefur ekki haft embætti yfir í langan tíma. Grundvallarbreytingar þurfa að eiga sér stað í landbúnaðarmálum. Afnám tolla á innfluttar landbúnaðarvörur yrði líklega ein mesta kjarabót sem fólkið í landinu gæti fengið. Ennfremur á Ísland að berjast fyrir því að sem mest frelsi náist í heimsviðskiptum, eins og Geir kom að í ræðu sinni í gær. Ljóst er að slíkt kæmi öllum til góða og ekki síst þeim sem minnst mega sín. Fátækustu ríki heims búa nefnilega við þær aðstæður að háir tollar vestrænna ríkja á innfluttum afurðum, sérstaklega landbúnaðarafurðum, gera það að verkum að afurðir þeirra verða ekki samkeppnishæfar í samanburði við ríkisstyrkta innlenda framleiðslu.

Í heilbrigðismálum, langstærsta einstaka útgjaldalið ríkisins, þarf að skoða breytt fyrirkomulag. Aukin einkarekstur hlýtur að vera það sem koma skal en þó verður að gæta þess að réttur allra til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu verði ekki skertur umfram það sem nú er. Sú áhersla sem nýr formaður lagði á einkarekstur og nýjar lausnir í þessum málaflokki í ræðu sinni á landsfundinum gefur góð fyrirheit.

En það er líka þörf á ákveðnum breytingum hjá Sjálfstæðisflokknum sjálfum. Til að tryggja góðan árangur í næstu Alþingiskosningum þarf að vinna betur með ímynd Sjálfstæðisflokksins. Það þarf að láta af þeirri stefnu að fólkið í landinu fái á tilfinninguna að ákveðnir aðilar séu stjórnvöldum lítt þóknanlegir. Það þarf að auka trú kjósenda á því að stjórnmálamenn láti einstaklinga og fyrirtæki afskipt jafnvel þó gjörðir þeirra séu ekki til fyrirmyndar að mati ráðamanna. Við höfum dómsstóla til að skera endanlega úr um þær gjörðir sem orka tvímælis og við þurfum að geta treyst því að dómsstólarnir starfi óháð stjórnmálamönnum og með fullu trausti almennings.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf enn fremur að stefna að því að auka hlut kvenna í starfsemi flokksins. Fylgi flokksins meðal kvenna, sérstaklega ungra kvenna, hefur ekki verið viðunandi. Ef flokkurinn á að ná betur til kvenna en hann hefur gert er mikilvægt að hvetja konur í Sjálfstæðisflokknum til góðra verka og vera sýnilegri í ræðu og verki. Konur þurfa að vera fleiri í framboði en nú er og til að þær fari fleiri í framboð þarf að flokkurinn að sýna að hann taki þeim opnum örmum og að þær eigi jafngreiða leið til metorða og karlar. Fyrsta skrefið í þessa átt var vonandi stigið um helgina þegar Þorgerður Katrín var kjörin varaformaður flokksins.

Hátt ber að stefna voru einkunnarorð landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Þessi orð eiga vel við enda hafa Íslendingar alla burði til að stefna á toppinn og ná þangað sé litið til flestra þátta lífskjara. Við eigum tök á því að búa til frjálst land þar sem virðing fyrir skoðunum og vali einstaklingsins er í hávegum höfð. Við getum búið til samkeppnishæfasta land heims þar sem íbúar þess eru þeir tekjuhæstu í heimi og búa við besta menntunar- og heilbrigðiskerfi sem völ er á. En ætlum við okkur að ná þessum markmiðum þurfum við kjósendur þessa lands líka að tryggja það að Sjálfstæðisflokkurinn leiði ríkisstjórn eftir næstu kosningar undir stjórn nýrrar forystu.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)