Hin hliðin : George Michael

Í tilefni af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem haldin var dagana 29. september til 9. október er tilvalið að fjalla um eina af þeim myndum sem undirrituð sá. Different story er heimildarmynd um söngvarann heimsþekkta George Michael en í henni opnar þessi heimsþekkti söngvari sig í fyrsta sinn um feril sinn og erilsamt einkalíf.

Í tilefni af Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem haldin var dagana 29. september til 9. október er tilvalið að fjalla um eina af þeim myndum sem undirrituð sá. Different story er heimildarmynd um söngvarann heimsþekkta George Michael. Myndin er leikstýrð af Southan Morris og framleidd af Andy Stephens og Caroline True.

Í heimildarmyndinni George Michael: A Different Story opnar þessi heimsþekkti söngvari sig í fyrsta sinn um feril sinn og erilsamt einkalíf. Hann sagði meðal annars frá því þegar hann gerði sér grein fyrir að hann væri samkynhneigður. Hann leyndi fjölskyldu sína mjög lengi þeirri staðreynd. Ferill hans spannar fjölda ára og hann á að baki margar metsöluplötur.

George eða Georgios Kyriacos Panayiotou eins og hann heitir í rauninni, er sonur grískra innflytjenda, fæddist 1963 og ólst upp í norður- London. Hann sló fyrst í gegn með hljómsveitinni Wham! árið 1986. En hann og félagi hans Andrew Ridgeley voru búnir að spila saman frá 1982. En í myndinni hittast þeir félagar og tala um gömlu tímana og þann misskilning sem var í gangi á sínum tíma um að þeir væru par. George ákvað síðan að hefja sólóferil sinn árið 1987 og hóf að semja plötuna Faith sem sló svo eftirminnilega í gegn, þó aðallega í Bandaríkjunum. George segir hinsvegar í myndinni að hann hafi aldrei í rauninni skilið hversu mikilla vinsælda platan naut. Hann skaust hátt á stjörnuhimininn með Faith plötunni og vann fjölda verðlauna fyrir hana.

Í byrjun níunda áratugarins þegar stjarna hans skein sem skærast varð hann ástfanginn. Hann lýsir því á kíminn hátt hversu erfitt það hafi verið að vera svona vinsæll og vera samkynhneigður og þurfa að halda því leyndu. En hamingja hans endist ekki lengi því hann missti ástvin sinn úr alnæmi. Svo virtist sem að nokkrir í salnum hafi fengið sandkorn í augað þegar hann sagði frá þessu. Þegar hann söng eins og frægt er á minningartónleikum um Freddy Mercury sagðist hann hafa sungið með miklum tilfinningaákafa vegna veikinda Anselmo Feleppa ástvinar síns. George Michael fór í mál við útgáfurisann Sony í byrjun níunda áratugarins vegna útgáfusamnings sem hann hafði skrifað undir í byrjun ferils síns. En hann var mjög ósáttur við að vera bundinn þeim í 18 ár og fá takmarkað út úr þeim samningi miðað við hvað hann hafði náð langt og þénaði mikið frá þeim tíma sem hann skrifaði undir samninginn. Hann vildi fá samningnum rift.

Í myndinni kemur fram að George hafði verið yfirbugaður af reið og sorg vegna veikinda Anselmo og látið það bitna á málinu gegn Sony. Málið fór svo þannig að Sony vann málið en sættust við hann og buðu honum 10 milljónir punda ásamt því að Virgin útgáfan gæfi út næstu plötu hans, Older. Sú plata var ekki einungis metsöluplata heldur einnig nokkurs konar yfirlýsing hans um kynhneigð sína. George Michael sagði það samt aldrei beinum orðum að hann væri samkynhneigður fyrr en honum var beinlínis fleygt út úr skápnum eins og hann orðar það í myndinni. En margir muna eftir þegar hann var handtekinn á almenningssalerni í Beverly Hills árið 1998 vegna óspekta á almannafæri ásamt kærasta sínum til tveggja ára Kenny Gross. George gerði óspart grín af þessu í myndinni og einnig Kenny. Engum hefur dulist það að George Michael sé illa við stjórnmálamenn og kemur hann því á framfæri í lagi sínu Shoot the dog þegar hann gerir lítið úr George Bush og Tony Blair vegna Íraksstríðsins. Lagið var mjög umdeilt í Bandaríkjunum og bannað var að spila það í bandarísku sjónvarpi og útvarpi um tíma. Plata hans Patience sem kom út á síðasta ári er talin vera besta plata hans til þessa og var í fyrsta sæti allra vinsældalista í Evrópu mánuðum saman það árið.

Allt í allt er myndin mjög beinskeytt og hreinskilin. Það var margt sem kom á óvart jafnvel fyrir jafn mikinn aðdáanda og undirrituð er. Kom t.d. í ljós að George Michael er mjög feiminn og hefur það alltaf háð honum, en það er meðal annars ástæða þess að hann er alltaf með sólgleraugu. Ef eitthvað væri hægt að setja út á við myndina er kannski hægt að nefna viðtöl við aðrar stjörnur, sem voru oft á ekki beinlínis í takt við myndina sjálfa. Kannski hefðu líka mátt vera fleiri innslög og viðtöl við aðrar stjörnur en þær sem voru í myndinni. Þetta er mynd sem hiklaust er hægt að mæla með fyrir alla aðdáendur heimildamynda og ekki síst tónlistaáhugamenn og aðdáendur goðsins.

Latest posts by Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir (see all)