Hin nýja Perla Reykjavíkur

Bygging nýs tónlistarhúss við gömlu höfnina er vissulega mjög metnaðarfullt og dýrt verkefni. Um það má vafalaust deila hvort peningunum væri betur varið annars staðar. Hins vegar verður ekki hjá því litið að bygging hússins mun gjörbreyta ásýnd miðborgarinnar.

Þann 21. september var tilkynnt hvaða tillaga hefði hlotið náð fyrir augum dómnefndar um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss við gömlu höfnina í Reykjavík. Af myndum af vinningstillögunni að dæma er ljóst að um er að ræða í það minnsta óhemju sérstakt hús en auk þess hefur það alla burði til að verða stórglæsilegt. Kostnaðurinn við byggingu hússins er áætlaður tólf milljarðar króna og greiðist að mestu leyti af fyrirtækinu Austurhöfn ehf. sem er í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Þar sem um einkaframkvæmd er að ræða verður bygging hússins á svipuðum forsendum og borun Hvalfjarðarganga þ.e. opinberir aðilar leggja til visst fjármagn en öll áhætta af byggingu og rekstri fasteignarinnar er á höndum einkaaðila.

Ríki og borg sameinuðust um stofnun einkahlutafélagsins Austurhafnar ehf. sem ber ábyrgð á verkinu gagnvart verktaka. Ríkið á 54% í félaginu en borgin hin 46%. Framlag fyrirtækisins var ákveðið fyrirfram kr. 600 milljónir á ári í 35 ár eða alls um 21 milljarður króna. Til samanburðar þá leggur Reykjavíkurborg 600 milljónir á ári í tónlistarskóla í borginni og um 400 milljónir í Borgarleikhúsið. Þetta eru vissulega miklir peningar en taka verður tillit til þess að núvirði slíks greiðsluflæðis er áætlað um 8,5 milljarðar miðað við þær forsendur sem voru í útboðinu en ekki 12 milljarðar eins og kostnaður hússins er áætlaður. Mismuninn tekur verktakinn á sig. Sem dæmi má auk þess nefna að væri miðað við 5% ávöxtunarkröfu væri núvirðið tæpir 10 milljarðar og sé litið til svipaðrar ávöxtunarkröfu og á hlutabréfamarkaði, þ.e. um 12%, að þá væri núvirðið tæpir fimm milljarðar. Miðað við kostnaðaráætlun verktaka má segja að hann sætti sig við 3,5% ávöxtunarkröfu sem er vissulega ekki ýkja mikið.

Þar sem að þessu sinni var valin sú leið að fara í alútboð er öll áhætta á verkinu hjá verktaka. Alútboð þýðir einfaldlega að sá sem leitar tilboða fær tilboð í heildarverkið. Ýmsir aðilar s.s. arkitektar, verkfræðistofur, verktakafyrirtæki og aðrir hönnuðir sameinast þá undir einum hatti og bjóða eina fasta tölu í verkið. Fari kostnaður úr böndunum er það verktakans að bera hann. Af fréttum að dæma er þetta aðeins eitt af fáum alútboðum sem farið hafa fram af vegum hins opinbera og er það óskiljanlegt í ljósi þess að kostnaðaráætlanir fara nánast alltaf úr böndunum. Slík alútboð henta því einstaklega vel í opinbera geiranum þar sem eftirlit sem og hvati allra sem koma að verkinu eftir útboð til að lágmarka kostnað er ákaflega lítill.

Bygging nýs tónlistarhúss við gömlu höfnina er vissulega mjög metnaðarfullt og dýrt verkefni. Um það má vafalaust deila hvort peningunum væri betur varið annars staðar. Hins vegar verður ekki hjá því litið að bygging hússins mun gjörbreyta ásýnd miðborgarinnar. Í stað hins ljóta og græna Faxaskála mun rísa hús sem mun vonandi vekja athygli langt út fyrir landsteinana og loks munum við Reykvíkingar hafa aðra byggingu en Perluna til að sýna erlendum gestum. Við hlið hússins mun svo rísa glæsihótel og milli þess og tónlistarhússins verður Reykjatorg sem verður tengt Lækjargötu með upplýstum göngustíg. Framkvæmdirnar kalla enn fremur á breytingar á Geirsgötu og Lækjargötu.

Þetta verkefni hefur við fyrstu sýn alla burði til að vekja heimsathygli, sér í lagi þar sem hinn frægi listamaður (a.m.k. höldum við Íslendingar að hann sé heimsfrægur) Ólafur Elíasson kemur að hönnun ytra byrðis hússins. Það er vonandi úr verði stórglæsilegt hús sem mun auka hróður borgarinnar og draga hingað fleiri erlenda ferðamenn. Því þegar öllu er á botninn hvolft geta allir þessir milljarðar sem fara í byggingu hússins skilað sér til baka með auknum ferðamannastraumi, og betri samkeppnishæfni Reykjavíkur í alþjóðlegu samhengi, ef rétt er staðið að málunum og húsið verður eins athyglivert og teikningar lofa.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)