Símspam

Flestir kannast við spam það sem fyllir innhólfið í tölvupósti landsmanna. En á Íslandi hefur sem betur fer ekki enn hafið innreið sína svokallað símspam. Símspam er tækni sem ekki ber að rugla saman við hefðbundna happdrættismiðasölu, enda allt annar hlutur á ferðinni.

Flestir kannast við spam það sem fyllir innhólfið í tölvupósti landsmanna. En á Íslandi hefur sem betur fer ekki enn hafið innreið sína svokallað símspam. Símspam er tækni sem ekki ber að rugla saman við hefðbundna happdrættismiðasölu, enda allt annar hlutur á ferðinni.

Í Bandaríkjunum hefur um nokkurt skeið verið í notkun mun fullkomnari og meira pirrandi tækni. Þessi tækni gengur út á að þjónustufulltrúar sitja við sjálfvirkar úthringivélar og bíða eftir því að þeim sé gefið samband við saklaus fórnarlömbin (væntan kúnna). Þegar kúnninn svarar upphefst mikil söluræða um það hversu heppilegt sé að gerast áskrifandi að einu blaðinu eða öðru, endurfjármagna húsnæðislán eða kaupa tryggingar.

Það er ekki sérstaklega ánægjulegt að fá slík símtöl, enda eru þjónustufulltrúarnir þaulæfðir í því að láta líta út fyrir að þeir þurfi nauðsynlega að ná í viðkomandi og reyna að halda kúnnanum í símanum eins lengi og hægt er áður en hann áttar sig á því að um sölumann sé að ræða. Það er þó ein setning sem kemur algerlega upp um slíka aðila, en það er frasinn „I’m not a salesman“, sem ótrúlegt nokk virðist vera í þónokkurri notkun.

En að fá á sig sölumann sem heldur því fram að hann sé ekki sölumaður er þó himnaríki miðað við að fá á sig sölumann sem er ekki sölumaður – heldur söluvélmenni. Og ef það er eitthvað meira pirrandi en að hringja í fyrirtæki og fá bara símsvara, þá er það þegar símsvarinn hringir í mann af fyrra bragði.

Þannig virkar símspamið nefnilega. Til að hámarka nýtingu símsölufólksins er hringt í marga (vænta) viðskiptavini í einu, og símtölin deilast svo á marga sölumenn. Tölfræðilega ætti oftast að vera sölumaður tilbúinn þegar viðskiptavinurinn svarar, en það gerist þó að svo er ekki. Þá er einfaldlega settur í gang símsvari sem romsar upp úr sér söluræðunni og biður mann um að ýta á einn ef maður vill kaupa tryggingar, tvo ef maður vill endurnýja tryggingar og svo framvegis. Ljósið í myrkrinu er að maður er jafnvel enn fljótari að skella á símsvarann en sölumanninn.

Hagræn ástæða þessa er sú að í Bandaríkjunum eru innanbæjarsímtöl ókeypis – svo kostnaðurinn við að láta símsvara hringja í viðskiptavini er nánast núll. Á Íslandi er þessu ekki svo farið – það felst í því kostnaður fyrir söluaðilann að hringja símtöl sem nánast engar líkur eru á að endi í sölu. Það er kannski rétt, næst þegar símreikningurinn kemur í hús, að horfa á björtu hliðarnar og hugsa til þess að símreikningurinn er það eina sem stendur á milli manns og símspammaranna.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)