Afvopnun Norður-Kóreu

Í gær kunngerðu stjórnvöld í Norður-Kóreu þá ákvörðun sína að hætta með öllu við kjarnorkuáætlun sína, eyða þeim kjarnavopnum sem landið hefur yfir að ráða og leyfa í kjölfarið alþjóðlegt eftirlit í landinu.

Í gær kunngerðu stjórnvöld í Norður-Kóreu þá ákvörðun sína að hætta með öllu við kjarnorkuáætlun sína, eyða þeim kjarnavopnum sem landið hefur yfir að ráða og leyfa í kjölfarið alþjóðlegt eftirlit í landinu.

Þetta verða að teljast mikil tíðindi, sem þó fóru ekki hátt í innlendum fjölmiðlum, enda af nógu öðru að taka. Þessi tilkynning stjórnvalda Norður-Kóreu er niðurstaða samninga og samvinnu sex þjóða sem hófst fyrir tveimur árum. Ríkin sem tóku þátt í viðræðunum voru Norður- og Suður-Kórea, Kína, Japan, Rússland og Bandaríkin, en ríkinn fimm fyrir utan Norður-Kóreu samþykktu að veita aðstoð í efnahags- og orkumálum gegn því að Norður-Kórea legði niður kjarnavopn með öllu.

Þetta hljómar vel og eru vissulega jákvæðar fréttir, en hins vegar lítur út fyrir að björninn sé ekki unninn, jafnvel ekki einu sinni að hálfu leyti. Í gær hófust strax vangaveltur í erlendum fréttamiðlum um það hvort hér væri aðeins um að ræða innantóma yfirlýsingu af hálfu stjórnvalda Norður-Kóreu og sömuleiðis kom fram að enn væri mikil vinna fyrir höndum.

Þessar efasemdir voru staðfestar í dag þegar stjórnvöld Norður-Kóreu sendu frá sér aðra yfirlýsingu. Þar kom fram að ekki yrði fallið frá kjarnorkuáætlunum nema að Bandaríkin myndu leggja landinu til kjarnorkuver til framleiðslu rafmagns og auk þess mátti skilja yfirlýsinguna þannig að stjórnvöld landsins hefðu lítinn áhuga á því að hreyfa sig hratt í þessu máli.

Þau svör bárust frá Washington að ekki kæmi til greina að ræða neina aðstoð fyrr en Norður-Kórea hefði lagt niður alla kjarnorkuvinnslu og gengið aftur inn í alþjóðlega samninga um stjórnun og eftirlit með vopnaframleiðslu. Jafnramt kom fram að jafnvel þá myndu stjórnvöld í Bandaríkjunum ekki leggja fé í það að reisa kjarnorkuver í Norður-Kóreu. Það virðist því vera nokkur hætta á áframhaldandi pattstöðu, en vonandi kemur annað á daginn.

Þrátt fyrir þessi vandræði er það skoðun höfundar að þetta skref sé stórt og afar mikilvægt, ekki síst vegna þeirra áhrifa sem það hefur bæði í Norður-Kóreu og eins hugsanlega á stöðu mála annars staðar í heiminum. Stjórnvöldum í Norður-Kóreu virðist lengi hafa staðið á sama um þær þúsundir manna, kvenna og barna sem þurfa að líða skort í landinu og jafnvel svelta, en loforð um efnahagsaðstoð munu tvímælalaust bæta ástandið og ljóst er að ekki veitir af. Þessi samningur gæti einnig haft áhrif á stöðu Írans gagnvart alþjóðasamfélaginu, en bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa viljað að kjarnorkuáætlun Írans upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna með hugsanlega refsingu í huga.

Þessi samningur markar einnig nokkra stefnubreytingu hjá ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta, sem hingað til hefur þverneitað að gefa Norður-Kóreu nokkuð eftir. Þetta má líklega að mestu þakka utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleezu Rice og fulltrúa Bandaríkjanna í samningaviðræðunum, Christopher Hill. Þau lögðu sig bæði fram við að koma til móts við stjórnvöld Norður-Kóreu og leysa málið án þess að til átaka þyrfti að koma.

Hvað sem úr verður á endanum er ljóst að þetta er stórt skref, bæði í átt að bættum hag íbúa Norður-Kóreu og eins kemur þetta líklega í veg fyrir að Bandaríkjamenn „neyðist“ til þess að gera innrás í landið.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)