Trúlegt eða hitt þó heldur

Hið ómögulega getur vel gerst. Atburðir eins og þeir sem áttu sér stað í New Orleans sýna það og sanna. Þrátt fyrir það er alltaf ákveðin tregða til að skipuleggja viðbrögð við harmleikjum sem þessum. Tregða sem spyr ekki að þróunar- og vísindastigi þjóða.

Síðustu vikurnar hafa dunið yfir mann myndir frá flóðunum í New Orleans fyrir tveimur vikum og árásinni á World Trade Center í New York fyrir fjórum árum. Um síðustu áramót dundu á manni myndir frá harmleiknum við Indlandshaf. Í hvert sinn getur maður aldrei annað en hrist hausinn lítillega og hugsað með sjálfum sér „ótrúlegt”.

Það er þó ekki svo að atburðir sem þessir þurfi að koma fólki alveg í opna skjöldu. Í flestum þessum tilfellum voru unnar skýrslur sem spáðu fyrir þessum „ótrúlegu” harmleikjum, þótt ekki sé hægt að útiloka einhverja misbresti í gagnavinnslu og rangtúlkanir. Þeir ættu því í raun ekki að flokkast sem ótrúlegir. Í báðum tilfellum voru sérfræðingar búnir að spá fyrir um þá og möguleikana á að þeir gerðust í raun og veru. Af einhverjum ástæðum skirrast stjórnvöld þó til að bregðast við í tíma. Æ ofan í æ og draga þau það að skipuleggja sig m.t.t. þess að þeir gerist í raun og veru. Engu virðist skipta hvar í heiminum gripið er niður.

Á Íslandi var svipað uppi á tengingunum þegar snjóflóðin féllu á Súðavík og Flateyri fyrir um 10 árum síðan. Það var ekki fyrr en í kjölfar þessara harmleikja að samþykkt voru lög um varnir gegn snjóflóðum sem ráðist var kerfisbundið í uppbyggingu öflugra snjóflóðavarnargarða til að verja byggðir á hættusvæðum. Voru menn virkilega búnir að afskrifa snjóflóð í byggð sem mögulegan atburð á þessum tíma? Var ekki búið að vara við afleiðingum þungra snjóflóða á þessar byggðir áður en þessir atburðir áttu sér stað?

En það er nánast sama hvað. Því miður virðist alltaf þurfa harmleik til að vekja okkur af værum blundi, hvort sem þeir eru af náttúrunnar eða mannanna völdum. Jafnvel með aukinni auðlegð og vísindaþekkingu virðast þjóðir heimsins alltaf ná að sofna á verðinum að þessu leyti.

Hvernig stendur á því að við getum svona illa ímyndað okkur hið „ótrúlega” og undirbúið okkur kerfisbundið til að lágmarka skaðann af harmleikjum sem þessum? Svörin eru sennilega mörg og margslungin. Hluti svarsins liggur e.t.v í því að það eru einfaldlega of margar „ótrúlegar” framtíðarmyndir til að kerfið geti annað eftirspurn eftir viðbragðsáætlunum. En er vandamálið þá kannski tengt óskýrri forgangsröðun og ófullkomnum líkindaútreikningum?

Liggur ábyrgðin hjá sérfræðingunum? Geta þeir ekki metið og selt líkurnar stjórnvöldum nægilega sannfærandi? Eða vilja stjórnvöld ekki hlusta?

Meginhluti ástæðunnar virðist þó liggja í hinni þrautseigu áráttu mannsins til að afneita hættunni. George W. Bush sagði m.a. að „ég held að enginn hafi séð fyrir að varnargarðarnir myndu bresta“ þrátt fyrir að skýrsla þarlendra almannavarna frá árinu 2001 hafi lýst atburðarásinni í ágætu samræmi við það sem síðan gerðist.

Við virðumst vera í stöðugri afneitun gagnvart hættum í umhverfi okkar. Dæmi úr umferðinni virðast skjóta stoðum undir það. Við trúum t.d. aldrei að við sjálf eða einhver nákominn okkur geti dáið eða örkumlast í bílslysi. Það þarf alltaf harmleik til að vekja okkur upp af þyrnirósasvefninum og kasta okkur inn í blákaldan raunveruleikann.

Þetta er þó eiginleiki sem ábyrg stjórnvöld mega ekki láta ná tökum á sér. Þeim ber að hlusta á ráðleggingar ráðgjafa sinna og bregðast við með þeim hætti sem á endanum leiðir til þess að unnt er að bregðast kerfisbundið og yfirvegað við ákveðinni hættu sem yfir vofir. Þetta virðist ekki hafa verið gert í Bandaríkjunum áður en fellibylurinn reið yfir New Orleans. Vonum að þetta kenni þarlendum sem stjórnvöldum annars staðar í heiminum ákveðna lexíu og að vinna út frá þeirri forsendu að hið „ótrúlega” geti í raun og veru gerst. Og auðvitað helst að fyrirbyggja að það gerist.

Lauslega byggt á umfjöllun í

San Fransisco Chronicle

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.