Óafsakanlegt aðgerðaleysi

sdfdAfleiðingar fellibylsins Katrínar eru skelfilegar og verri en nokkurn óraði fyrir en þær afsaka þó alls ekki vítavert aðgerðaleysi bandaríkjaforseta og stjórnvalda í landinu.

Fellibylur í nánd.

Fréttir af hamfarasvæðunum í suðurríkjum Bandaríkjanna nísta inn að beini. Þrátt fyrir að afleiðingar fellibylsins séu víðtækari en flesta óri fyrir afsaka þær ekki vítavert aðgerðarleysi Bandaríkjastjórnar sem virðist algert. Fregnir herma að hundruð manns hafi þegar látist og fyrir mörgum á ástandið í ríkinu meira skylt við aðstæður sem þekkjast í þróunarlöndum en ekki í Bandaríkjunum. Fréttir af gripdeildum, árásum og nauðgunum fyrir allra augum eru daglegt brauð og bandaríkjastjórn virðist draga lappirnar í baráttunni og tekst ekki að hemja vandann. Eftir sitja fátæklingar og aðrir ógæfumenn sem lepja dauðan úr skel og fátt virðist koma í veg fyrir meira mannfall.

Það stendur skrifað að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. Hins vegar hugsar maður til þessa spakmælis þegar maður les grein sem birtist í vikublaðinu Time árið 2000 sem birtist undir fyrirsögninni: The Big Easy on the Brink, If it doesn’t act fast, the city could become the next Atlantis. Eins og nafn greinarinnar gefur til kynna varar höfundur hennar við hugsanlegum afleiðingum fellibylja fyrir New Orleans – og hvetur stjórnvöld til að setja saman aðgerðaáætlun ef allt færi á versta veg.

Nú er allt farið á versta veg og Bandaríkjastjórn situr með hendur í skauti.

Upplausn samfélags og mannlegra gilda í New Orleans á meira skylt við lélega bíómynd en þann veruleika sem flestir taka gefnum. Fregnir herma að lögregulmenn hafi lagt inn skyldi sína og hafi gefist upp gagnvart vandanum: sjái hreinlega enga ástæðu til að halda lengur uppi lögum og reglu. Lái þeim hver sem vill: þegar allar eigur þínar eru ónýtar og fjölskyldan hungurmorða – þá breytist forgangsröðun manna furðufljótt.

Gagnrýnendur byssuvæðingar Bandaríkjanna hafa sannarlega fengið byr undir báða vængi á síðustu dögum, enda eru skotbardagar og morð um hábjartan dag daglegt brauð á götum New Orleans. Auðvitað er það svo að í venjulegu árferði eru minni líkur en meiri að venjulegt fólk grípi til skotvopna á ástæðulausu – en þegar samfélagið hrynur – þá grípa fleiri en ella til vopna til að verja sig og sína gagnvart ágangi annarra.

Skotvopn í hverju húsi leysir lítinn vanda, sama hversu hátt Heston og félagar í NRA predika gildi byssueignar.

Mest er þó skömm Bandaríkjaforseta sem stendur algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum. Manni finnst eiginlega eins og hann átti sig ekki á að það er almenningur í borginni sem er að ganga í gegnum þessar hörmungar – það stimplist hreinlega ekki inn hjá honum sá ærni vandi sem myndast þegar fólk verður fyrir áföllum af þessum toga. Þegar fólk deyr unnvörpum duga blaðamannafundir skammt.

Aðgerða er þörf.

Arfleið manna markast af athöfnum þeirra á ögurstund. Flest virðist stefna í að ævarandi skömm muni fylgja George W. Bush vegna viðbragða hans á flóðasvæðunum.

Með réttu: hann ætti að skammast sín.

Ef einhver efast um vandann þá læt ég fylgja með hluta úr yfirlýsingu ríkisstjórans Kathleen Blanco um ástandið og viðbrögð Bandaríkjastjórnar:

„They have M-16s and they’re locked and loaded,“ sagði hún. „These troops know how to shoot and kill, and they are more than willing to do so, and I expect they will.“

Þarf fleiri vitnana við?

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)