Um vænisýki og vegna áhættu

sdfdLandbúnaðarráðherra synjaði nýlega beiðni um innflutning á nautakjöti frá Argentínu því hann taldi of mikla hættu á gin- og klaufaveiki, þrátt fyrir að yfirdýralæknir hafi gefið nautakjötinu heilbrigðisvottorð og talið það eiga greiða leið á matardiska landsmanna.

Hversu langt í burtu er nógu langt í burtu?

Landbúnaðarráðherra synjaði nýlega beiðni fyrirtækis um innflutning á nautakjöti frá Argentínu. Fregnir herma að landbúnaðarráðherra hafi ákvörðunarrétt um hvort veita eigi innflutningsleyfi að gefnu áliti yfirdýralæknis. Það sem er sérstakt við þetta mál er að fagmenntaður álitsgjafi telur innflutning í góðu lagi – en ráðherrann stoppar málið vegna öryggissjónarmiða og vegna þess að: „ … Íslendingar og íslenskt búfé verði að njóta vafans“ og þar sem „ … þessir sjúkdómar [eru] grafalvarlegir og menn vilja hafa varann á og þetta var mín niðurstaða við þessar aðstæður.“ Rökin: jú, gin- og klaufaveiki greindist í landinu árið 2003 fyrir norðan 42. breiddargráðu en svæðið sunnan breiddargráðuna var hins vegar laust við veikina án bólusetningar. Aðalatriðið er að veikin hefur ekki greinst í landinu í tvö ár.

Vissulega er það rétt hjá ráðherranum að það er alltaf hætta til staðar. Ekkert í lífinu er öruggt – nema auðvitað dauðinn og skattar eins Benjamin Franklin orðaði það. Allt kjöt getur verið smitað og það er göfug hugsjón að vilja halda búfé í landinu smitsjúkdómalausu. Um það verður ekki deilt, það er letrað svart á hvítu í þjóðarsáttmála.

Tilveran er hins vegar grá. Menn þurfa í sífellu að gera upp við sig hvort ávinningur í lífinu sé áhættu virði. Við ferðumst með bifreiðum til vinnu þótt svo möguleiki sé á að við lendum í slysi og þegar sá gállinn er okkur borðum við jafnvel innflutt grænmeti frá vondum löndum, þrátt fyrir að t.a.m. salmonella geti leynst í innfluttu grænmeti. Áhættan sem við tökum er vegin á móti ábatanum og við ákveðum að leggja á vaðið. Hvers vegna? Jú, við metum ábatann meiri en hugsanlegt tap okkar.

Hljómar skynsamlega, ekki satt?

Yfirdýralæknir var ekki fæddur í gær og áttar sig á þessu og veit að alls staðar greinast einhverjir sjúkdómar í skepnum. Hann bendir samt á að samkvæmt alþjóðlegum samþykktum geti enginn þeirra sjúkdóma sem greinast í argentínskum nautum borist með úrbeinuðum nautalundum til Íslands.

Enginn þeirra!

Argentínskur nautgripaiðnaður er í mikilli sókn. Tölur benda til að útflutningur landsins á nautakjöti hafi aukist um ríflega þriðjung árið 2003, en tölur fyrir 2004 liggja ekki fyrir. Ef útflutningur eykst þá þurfa aðrar þjóðir að flytja inn kjötið: milliríkjaviðskipti 101. Og hverjir skyldu það vera? Það eru sko engar afgangsþjóðir sem kaupa kjöt af Argentínumönnum – maður lifandi! – t.a.m. Bandaríkjamenn, sem kalla nú ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að setja reglur og hömlur á innfluttar afurðir.

Argentína er víðfeðmt land. Þetta áttar yfirdýralæknir sig fullkomlega á og áréttar að erfitt sé að meta eitt land með tilliti til slíkra sjúkdóma – enda sé það viðurkennt að lönd geti verið fleiri en eitt svæði í skilningi sjúkdómavarna.

Hvað þýðir það á mannamáli? Jú, ef sjúkdómur greinist í víðfeðmu landi er ekki sjálfgefið að það eigi að loka á allan matvælainnflutning frá landinu – en ef sjúkdómur greinist í mjög litlu landi er hins vegar hugsanlegt að loka verði á innflutning frá landinu og smáum nágrannaríkjum þess.

Eru lesendur nokkuð farnir að hugsa um skútur?

Hvað þýðir þetta? Tökum fram landabréfabók: Argentína er rétt um 2.767.000 ferkílómetrar eða um það bil 27 sinnum víðfeðmara en Ísland sem er um 103.000 ferkílómetrar. Frá nyrsta til syðsta odda Argentínu eru 3.330 km og landið teygir sig mest frá austri til vesturs um 1.384 km. Ummál landsins er 24.319 km – sem þýðir að ef einhver klæddi sig í gönguskóna og gengi strandlengju landsins hvíldarlaust á röskum hraða myndi það taka þann hinn sama tæp þrjú ár að ljúka verkinu!

Reynir Pétur hvað?

Mynd segir meira en þúsund orð. Fjarlægðin frá nyrsta odda Argentínu til þess syðsta er álíka löng og loftleiðin frá Svíþjóð til Sýrlands (blá lína), frá Egyptalandi til Danmerkur (svört lína) eða frá nyrsta odda Portúgals alla leið norðaustur til Eistlands (rauð lína).

Jafnvel þótt svo litið sé til öryggismarka við 42. breiddargráðu, sem nefnd hefur verið í umræðunni, eru fjarlægðirnar svimandi. Með smá einföldun þýðir þetta að miðað við málflutning landbúnaðarráðherra ætti að fara hrollur um stjórnvöld í Portúgal, Danmörku og Svíþjóð ef gin- og klaufaveikisfaraldur myndi koma upp í Eistlandi, Egyptalandi eða Sýrlandi!

Sannfærandi málflutningur?

Dæmi hver fyrir sig og muuuuuuunið eftir mjólkinni.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)