Fækkun ráðuneyta

Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku hefur farið fram umræða í ríkisstjórninni um breytingar á stjórnsýslunni og fækkun ráðuneyta. Of snemmt er að segja til um hvort nokkuð komi út úr þeim viðræðum en engu að síður er ástæða til að fagna því að þetta hefur verið tekið til skoðunar.

Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku hefur farið fram umræða í ríkisstjórninni um breytingar á stjórnsýslunni og fækkun ráðuneyta. Of snemmt er að segja til um hvort nokkuð komi út úr þeim viðræðum en engu að síður er ástæða til að fagna því að þetta hefur verið tekið til skoðunar.

Ríkjandi ráðamenn hafa tilhneigingu til að þess að auka umfang stjórnsýslunnar í landinu frekar en að draga úr því. Ráðuneytum var t.a.m. fjölgað síðast árið 1990, væntanlega til að koma öllum þeim að sem „áttu“ tilkall til ráðherrastóls. Allavega er erfitt að sjá að þörfin hafi verið mikil á því að fjölga ráðuneytunum t.a.m. með stofnun umhverfisráðuneytisins sem eflaust er mesta puntráðuneyti Íslands í dag. Ekki ber að skilja svo að hér sé verið að gera lítið úr mikilvægi umhverfismála, síður en svo, en líklega var engin ástæða til að búa til nýtt ráðuneyti fyrir verkefni á því sviði.

Líklega mætti fækka ráðuneytunum töluvert. Gömlu atvinnuvegaráðuneytin eru barn síns tíma þar sem skipting þeirra endurspeglaði höfuðatvinnuvegi landsins snemma á síðustu öld. Tímarnir hafa breyst og í dag er erfitt að sjá réttlætingu þess að t.a.m. landbúnaður fái sér ráðuneyti þar sem greinin býr til lítið brot af þjóðartekjum Íslendinga. Sömuleiðis er vægi fiskveiða sífellt að minnka og ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að sameina atvinnuvegaráðuneytin undir einn hatt. Að mati pistlahöfundar mætti þannig sjá fyrir sér t.a.m. eftirfarandi ráðuneyti:

Forsætisráðuneyti

Fjármálaráðuneyti

Utanríkisráðuneyti

Innanríkisráðuneyti (t.a.m. umhverfis- og samgöngumál)

Heilbrigðisráðuneyti

Atvinnuvegaráðuneyti (viðskipta-, iðnaðar-, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál)

Félagsmálaráðuneyti (t.a.m. félags-, dóms- og kirkjumál)

Menntamálaráðuneyti

Við þessar breytingar myndi ráðuneytunum fækka um fjögur. Heilbrigðis- og menntamálaráðuneyti myndu standa óbreytt enda menntun og heilbrigðisþjónusta langstærstu þjónustuþættir ríkisins í dag. Það mætti leika sér með breytingar endalaust og rök sem hníga að því að mörg ráðuneytanna þurfi að vera sjálfstæð en einhvers staðar þarf að draga mörkin. Annars er um að ræða grófa verkaskiptingu eftir heitum ráðuneytanna í dag, nánari verkaskiptingu yrði að skilgreina betur. Þó svo vissulega mætti ganga enn lengra í fækkun ráðuneyta er kannski engin ástæða til þess að svo stöddu.

Það verður þó að lýsa yfir vonbrigðum með að tilgangur breytinganna, samkvæmt forsætisráðherra, er ekki endilega sá að skera niður kostnað heldur frekar að efla skilvirkni innan stjórnsýslunnar. Meðal annars setur forsætisráðherra fram hugmyndir um aðstoðarráðherra án þess að skilgreina hvort um væri að ræða menn ráðna pólitískt eða á faglegum forsendum. Pólitískt ráðnir aðstoðarráðherrar, sem er líklega það sem Halldór á við í þessu samhengi, myndu einfaldlega verða til þess að samhliða fækkun ráðuneyta, væri um að ræða fjölgun pólitískt valinna embættismanna.

Það kann ekki góðru lukku að stýra og þýðir aukin útgjöld. Skilvirkni kerfisins þyrfti að aukast talsvert til að réttlæta þessar breytingar en erfitt er að sjá að það myndi ganga eftir því að skilvirkni og kostnaður opinbera kerfisins er yfirleitt í öfugu hlutfalli við fjölda starfsmanna. Besta leiðin til að skera niður kostnað í stjórnkerfinu að einhverju marki er með því að fækka opinberum starfsmönnum, ekki fjölga þeim. En fyrir því verður væntanlega seint pólitískur viji.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)