Lengra til hægri

Þá hefur loksins litið dagsins ljós pólitískt afl sem staðsetur sig hægra megin við Sjálfstæðisflokkinnn.

Þá hefur loksins litið dagsins ljós pólitískt afl sem staðsetur sig hægra megin við Sjálfstæðisflokkinnn. Þessi stjórnmálahreyfing nefnist Frjálshyggjufélagið og var stofnuð á laugardaginn síðasta af tylft ungra Heimdellinga, eða fyrrverandi Heimdellinga réttara sagt því stofnmeðlimir standa ekki lengur í skilum við Sjálfstæðisflokkinn.

Frjálshyggjufélagið er reyndar ekki það fyrsta sinnar tegundar því 1979 stofnuðu nokkrir ungir menn í Sjálfstæðisflokknum félagskap sem bar heitið Félag frjálshyggjumanna. Hefur það félag staðið fyrir öflugri útgáfustarfsemi og eftir því sem næst verður komist hefur starfsemi þess ekki verið formlega hætt. Því eru til staðar tvö félög frjálshyggjumanna á Ísland. Eini sjáanlegi munurinn á þessum félögum er sá, að Frjálshyggjufélagið nýstofnaða hefur í hyggju að bjóða fram í alþingiskosningum og meðlimir þess eru ekki félagar í Sjálfstæðisflokknum, eins og raunin var um flesta ef ekki alla meðlimi í Félagi frjálshyggjumanna. Pistlahöfundi þykir reyndar miður að Frjálshyggjufélaginu takist ekki að bjóða fram fyrir næstu kosningar því framboð þessa félags mun hleypa af stað hollri umræðu innan Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn þarf aðhald frá hægri og framboð Frjálshyggjufélagsins mun bjóða mönnum skýra valkosti.

Stefna Fjrálshyggjuflokksins er vönduð og skýr, enda um hæfileikaríka einstaklinga að ræða. Félagið tekur líka upp á sína arma mörg mál sem flestir Sjálfstæðismenn virðast sammála en ekki hefur tekist að hrinda í framkvæmd einhverra hluta vegna. Án efa munu því margir Sjálfstæðismenn geta fundið samsvörun með framboði félagsins. Það er hins vegar miður að stofnmeðlimir skyldu ekki vera fleiri því hætt er við því að félagið lognist út af fyrir þarnæstu kosningar. Félagið þarf að nota næstu árin í að stækka fylkinguna og sennilega einnig að fá til liðs við sig eldra fólk og breiðari hóp því hætt er við því að kjósendur dæmi félagið sem barnaskap þeirra er þekkja ekki.

Pistlahöfundur óskar stofnmeðlimum til hamingju með nýstofnað félag og nýjan valkost.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)