Týnda fólkið

Því hefur verið fleygt að mikil dýrkun á ungu fólki ríki í þjóðfélaginu í dag og reynsla sé lítils metin. Í morgunpistli dagsins er rætt um elstu borgarana.

Á meðan fólk milli tvítugs og sextugs og rétt rúmlega það eru virkir þátttakendur í þjóðfélaginu bíða börnin og eldra fólkið á hliðarlínunni. Börnin eru geymd í dagvistun og síðar skólum þar til röðin kemur að þeim og hinir eldri víkja fyrir hinum yngri þegar ekki er talin lengur þörf á þekkingu þeirra og reynslu.

Því hefur verið fleygt að mikil dýrkun ríki á ungu fólki og reynsla sé lítils metin í dag. Menntun, djörfung, hraði og ungur aldur sé það sem gildi. Því hlýtur að vera erfitt að kyngja fyrir marga sem enn eru í fullu fjöri og alls ekki tilbúnir til að draga sig í hlé – fólk á besta aldri.

Húsasmiðjan auglýsti um daginn eftir fólki til starfa sem komið væri af léttasta skeiði. Viðbrögðin létu víst ekki á sér standa og sóttu margir um, ekki síst ellilífeyrisþegar. Í boði var allavega vinnutími, til dæmis aðeins örfáir dagar í mánuði. Ber að fagna þessu framtaki enda eflaust margir sem vilja komast út á meðal fólks og vinna einn og einn dag.

En svo eru það þeir sem eru jafnvel enn eldri – elsta kynslóðin. Fólkið sem hefur lifað tímana tvenna og þekkir kreppu, höft og stríð. Svo virðist sem þetta fólk sé týnda fólkið á Íslandi í dag. Alltaf skal traðkað á gamla fólkinu.

Fjölmörg eru dæmin. Einna dýrustu íbúðir sem hægt er að kaupa eru þjónustuíbúðir eldri borgara. Þá heyrðust í vikunni þær fréttir að brunavörnum væri almennt mjög ábótavant á elliheimilium landsins. Og ekki má gleyma umræðunni um umönnun eldra fólks. Fólk sem njóti aðstoðar við böðun hafi til dæmis ekkert um það að segja hvenær það fari í bað. Ég man ég heyrði viðtal við konu sem spilaði félagsvist á fimmtudögum og hafði óskað eftir því að fara í bað á miðvikudögum til þess að vera fín fyrir spilamennskuna. Slíkt þótti víst með öllu óframkvæmanlegt og því hélt konan áfram að fara í bað á föstudögum. Er það orðið svo slæmt að þegar fólk nær ákveðnum aldri þá sýni þjóðfélagið því þakklæti sitt og virðingu með því að taka af þeim mörg réttindi sem okkur hinum finnast svo sjálfsögð?

Sjónvarpið sýndi í gærkvöldi nokkuð áhugaverða heimildarmynd þar sem barnabörn konu einnar sögðu frá því hvernig ömmu þeirra var rænt. Gömlu konunni var haldið á heimili dóttur sinnar og fékk hún ekki að hafa samskipti við aðra fjölskyldumeðlimi og ættingja. Þótt tilfelli sem þetta sé vonandi einstakt í íslensku samfélagi þá vakti myndin engu að síður upp spurningar. Stendur enginn vörð um hagsmuni elstu kynslóðarinnar í samfélaginu? Og líkt og sonarsonur konunnar benti á þá hafa börn sinn talsmann og einnig íslenski hesturinn! Er ekki kominn tími til að gamla fólkið eignist sinn málsvara?

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)