Ísland best í heimi (?)

Á Íslandi hefur umræða í dagblöðum undanfarin misseri verið gríðarlega neikvæð. Raunar svo neikvæð að manni hættir til að gruna að stórfellt þunglyndi herji á blaðamannastéttina í heild sinni og stórfelldir skammtar af prósaki séu nauðsynlegir til að vinna á þessu meini.

Auk þess að vera þekkt fyrir Lunda og Víkinga er Ísland einnig þekkt fyrir að vera eitt besta land í heimi. Mynd: www.viclindal.com/iceland_trip.htm

Það eru nokkrar meinlokur í hverju þjóðfélagi sem eru þannig eðlislægir að þeir verða ávallt að sjá skrattann í hverju horni. Á síðasta ári þá var Fréttablaðið áberandi verustaður þessarra skoðanna, í ár er DV krossfari neikvæðninnar undir forystuorðunum: „þorir þar sem aðrir þegja“.

Ef Sagnfræðingur myndi eftir 50 ár taka upp nokkur eintök af DV á þessu ári og ætla að meta ástandið á Íslandi eftir því er hætt við því að hann teldi að landið væri að hruni komið.

Undirritaður hefur búið í þremur erlendum löndum á síðustu tveimur árum, Frakklandi, Danmörk og Bandaríkjunum og haft því gott tækifæri til að bera saman venjulegt líf í löndunum.

Samanburður þessarra landa við Ísland hefur yfirleitt fallið Íslandi í hag. Þó það séu ýmis atriði sem eru góð í þessum samanburðarlöndum þá er athafnafrelsið og öryggið á Íslandi svo miklu meira að fólk á ekki að láta úrtölumenn landsins telja sér trú um að hér sé allt að fara til andskotans.

Hvað segja staðreyndir okkur um ástandið á Íslandi í dag?

Í Morgunblaðinu í gær birtist til dæmis frétt sem sagði að Íslenskir karlmenn lifðu öðrum evrópskum karlmönnum lengur.

Í grein á Deiglunni nýverið ræddi greinarhöfundur um kenningar Richards Florida um þekkingarhagkerfi framtíðarinnar. Samkvæmt dr. Florida þá er Ísland í sjöunda sæti hvað varðar sköpunarkraft hagkerfis. Hið títtnefnda Economist gerði lista yfir bestu þjóðir heims í byrjun þessa árs og var Ísland sömuleiðis í sjöunda sæti hjá þeim.

Í hinni eiginlegu heimsmeistarakeppni þjóða, hinni árlegu IMD könnun á samkeppnishæfi þjóða þá eru Íslendingar núverandi Evrópumeistarar bæði fyrir árið 2004 og 2005 (lítið heyrst um þetta í fréttum) og í fjórða sæti á heimsvísu.

Á Íslandi er mikill hagvöxtur, lágt atvinnuleysi, lækkandi skattar og gott aðgengi að menntun og heilbrigðisgæslu.

Svo maður endurorði fræga setningu: „Það er gott að búa á Íslandi“

Það er kannski við hæfi að benda ungu fólki á, að það er ekkert sjálfgefið að Ísland sé í toppbaráttunni í meistaradeildinni. Þetta gerist vegna þess að við erum að spila með okkar bestu menn í bæði sókn og vörn, það er að segja Sjálfstæðisflokkinn.

Fljótasta leiðin til þess að koma Íslandi úr toppbaráttunni niður í botnbaráttuna (þeas í Evrópudeild) er að kjósa til vinstri. Ungt fólk ber þá skyldu gagnvart framtíðinni að horfa ekki framhjá þessu.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.