Móðurlandið mikla?

Í Sovétríkjunum sálugu fór lítið fyrir einstaklingsfrelsi og almenningur hafði jafnan lítið milli handanna. Það sem almenningur virtist þó hafa nóg af var þjóðarstolt sem tuggið var ofan í rússneskan almúga í gríð og erg af áróðursvélinni í Kreml. Áratugum saman var einn sjötti af jarðkringlunni skrýddur með hamri og sigð, brjóstmyndir af Lenín blöstu við hvarvetna og ómur af glæstum hersýningum á Rauða torginu barst um alla heimsbyggðina.

Í Sovétríkjunum sálugu fór lítið fyrir einstaklingsfrelsi og almenningur hafði jafnan lítið milli handanna. Það sem almenningur virtist þó hafa nóg af var þjóðarstolt sem tuggið var ofan í rússneskan almúga í gríð og erg af áróðursvélinni í Kreml. Áratugum saman var einn sjötti af jarðkringlunni skrýddur með hamri og sigð, brjóstmyndir af Lenín blöstu við hvarvetna og ómur af glæstum hersýningum á Rauða torginu barst um alla heimsbyggðina. Allt var þetta gert til þess að sauðsvartur almúginn gleymdi eigin volæði, brauðröðum, ryðguðum Lada-bifreiðum og sannfærðist um að það væru hluti af stórveldi. Allt gekk þetta vel þangað til Sovétríkin liðuðust í sundur.

Eftir upplausn Sovétríkjanna hefur almenningur í Rússlandi mátt þola ýmsar hremmingar sem fylgja breytingarskeiðinu frá kommúnískum áætlunarbúskap yfir í vestræn markaðshagkerfi. Í kjölfarið hefur tiltrú rússnesk almennings á „móðurlandið mikla” farið þverrandi og þjóðernisstoltið fallið á sama hraða og gengi rúblunnar á alþjóðamörkuðum. En Kremlverjar deyja ekki ráðalausir og hefur Vladimir Pútín, forseti Rússland, ákveðið að snúa vörn í sókn.

Í sumar samþykti rússneska þingið tillögur Pútins sem kveður á um hvernig auka eigi tiltrú almennings á móðurlandinu í þeirri vona að endurvekja gamla sovét-stoltið. Kostnaðurinn er áætlaður um 17 milljónir dollara og rennur til ýmissa verkefna á vegum ríkisins. Þannig á að hvetja ungt fólk til að minnast gamalla hersigra og verður kennsla í leikjum með hernaðarlegu ívafi hafin aftur í grunnskólum landsins. Einnig verður kennsla hafin í svokallaðri kynferðislegri þjóðhyggu (e. correct reproductive behavior) sem verður hluti af námsefni í kynfræðslu ungmenna.

Þjóðfánar verða prentaðir og gefnir almenningi. Geisladiskar með þjóðsöngvum gefnir út sem og tölvuleikir þar sem rússneski herinn vinnur glæsta sigra á óvinum sínum. Einnig er ráðgert að halda söngvakeppnir með þjóðernislegu sniði og þjóðvinur ársins (e. patriot of the year) verður kosinn af stjórnvöldum.

Nú er spurning hvort íslensk stjórnvöld ættum ekki að taka Kremlverja sér til fyrirmyndar og endurvekja þjóðarstoltið hjá yngri kynslóðinni sem gegnsýrð er orðinn af Amerískum áhrifum. Þannig væri tilvalið að senda Steingrím J. Sigfússon um landið og kenna ungviðinu þjóðhollustu. Endurútgefa Sturlungaspilið og gefa Íslendingasögurnar út í teiknimyndaformi.

Latest posts by Ýmir Örn Finnbogason (see all)