Brenglaður raunveruleiki sápuóperanna

Um árabil hef ég verið háð hvers konar sápuóperum í sjónvarpinu. Það er varla til sú sápa sem ég hef ekki sokkið mér í og fylgst með í a.m.k. nokkurn tíma. Að undanförnu hef ég þó mikið velt fyrir mér muninum á lífinu í minni götu og spennandi lífi Aðþrengdu eiginkvennanna við Bláregnsslóð, sígildu Nágrannanna í Ástralíu eða ríka og fallega fólksins í Glæstum Vonum.

Ég er nokkuð viss um að væri gerð þáttaröð um lífið í götunni minni yrði hún fljótt tekin af dagskrá. Lífið hér í götunni er nefnilega engan veginn eins spennandi og í fyrrnefndum þáttum. Oft hef ég raunar velt því fyrir mér hvers vegna aldrei neitt svona spennandi gerist hér í götunni.

Af hverju verður enginn ástfanginn af tengdapabba sínum eða mági? Hvernig stendur á því að hlutfall minnisleysis er svona mikið lægra í þessari götu? Og hvers vegna í ósköpunum heldur enginn við garðyrkjumanninn? Það síðast nefnda stafar reyndar sennilega af því að enginn í götunni hefur garðyrkjumann á sínum snærum.

Ég veit auðvitað ekki nákvæmlega hvað gerist innan veggja hvers heimilis hér í götunni. Í þessi 15 ár sem ég hef búið hérna, hefur ekki nokkur yfirgefið maka sinn fyrir tengdamóður eða tengdaföður hvað þá mág sinn eða mágkonu. Ekki spennandi gata það.

Mannshvörf í minni götu eru afar sjaldgjæft fyirbæri. Veit ekki til þess að nokkur hafi horfið sporlaust s.l. 15 ár. Langtíma minnisleysi hefur að mínu viti heldur ekki gert vart við sig hér í götunni. Þó viðurkenni ég fúslega að hafa stundum neyðst til að gera mér upp skammtíma minnisleysi og þykist vita að hið sama gildi um nágranna mína.

Sápuópera verður þó aldrei alvöru sápa nema nokkur mannshvörf komi upp. Nágrannarnir í Ástralíu hafa þurft að kljást við ófá þeirra. Einnig kemur það reglulega fyrir að manneskja „deyi“ í hrakningum á borð við siglingu í Bermúda þríhyrningnum. Það er þó óþarfi að gráta, engin jarðarför merkir nefnilega nánast undantekningalaust að manneskjan birtist á ný innan nokkurra mánaða eða ára, sprellifandi en þó líklega minnislaus.

Eins og sjá má er lítill samhljómur með minni götu og götum sápuóperanna. Lífið er hvergi nærri eins spennandi. Ég kvarta þó ekki enda myndi ég síður vilja vera stjúpdóttir og systir sama mannsins. Eins þætti mér frekar vandræðalegt ef vinkona mömmu héldi við kærastann minn.

Ætli ástæðan fyrir því að ég hef gaman að sápuóperum sé ekki sú að söguþráður þeirra er svo skemmtilega ótrúlegur. Hvernig öðruvísi væri hægt að lokka mann að skjánum í hverri viku.

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)