Er sniðugt að hafa starfandi stjórnarformenn?

Eitt mikilvægasta og jafnframt erfiðasta verkefni stjórna fyrirtækja er að ráða forstjóra og fylgjast með því að hann stjórni fyrirtækinu eins og best verður á kosið. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að verkefni forstjóra heyra meira og meira undir stjórnarformenn sem eru komnir í fulla vinnu hjá fyrirtækjum. Er þetta góð hugmynd?

Ken Lay, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Enron

Innan viðskiptafræðinnar er kenning sem gengur undir nafninu principal-agent theory. Hún fjallar um vandræðin sem aðili á við að stríða þegar hann (principalinn) ræður annan aðila (agent) til þess að leysa ákveðið verk af hendi fyrir sig.

Grunnvandamálið er eftirfarandi: hvernig tryggir þessi aðili (principal) að starfsmaðurinn (agent) geri alltaf það sem er honum (principal) fyrir bestu?

Samkvæmt fræðunum er yfirleitt best að hanna samninga þannig að hagsmunir fyrsta aðilans liggi sem best saman með hagsmunum starfsmannsins og þannig er tryggt að ef starfsmaðurinn leggur ofuráherslu á að bæta sína hagsmuni þá batna hagsmunir þess sem réði hann á sama tíma.

Samband stjórnar fyrirtækis og yfirmanna fyrirtækis má einmitt skoða í þessu ljósi. Eitt af verkefnum stjórnar fyrirtækis er að gera samninga við yfirmenn sem tryggja það að þeir séu umfram allt annað að reyna að auka virði hluthafa.

Ágætt dæmi er til dæmis ef forstjóri fyrirtækis stæði í kaupum á öðru fyrirtæki einungis til þess að hann sjálfur stjórnaði stærra fyrirtæki (egó rök frekar en fjárhagsleg). Í þessu dæmi þá væri það hlutverk stjórnarinnar að taka fram í fyrir þessum forstjóra og minna hann á að gæta hags hluthafa.

Hugtakið starfandi stjórnarformaður vinnur nákvæmlega gegn þessum grundvallarrökum. Formaður stjórnarinnar sem á að hafa eftirlit með stjórnendum, er í þessu tilviki sjálfur orðinn stjórnandi.

Formaður stjórnar er þannig orðinn e.k. yfirforstjóri fyrirtækisins og er á sama tíma æðsti eftirlitsmaðurinn með sjálfum sér!

Hver ver hagsmuni smærri hluthafa gagnvart þessum aðila?

Hver á að reka hann ef hann stendur sig illa?

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.