Gíslataka á Vesturlandsvegi

Mótmæli virðast vera í tísku um þessar mundir. Grænt skyr flýgur manna á milli, tjaldbúðir reistar á Kárahnjúkum og nú virðast atvinnubílstjórar ætla að feta fótspor starfsbræðra sinna í Frakklandi og loka vegum út úr Reykjavík um Verslunarmannahelgina.

Mótmæli virðast vera í tísku um þessar mundir. Grænt skyr flýgur manna á milli, tjaldbúðir reistar á Kárahnjúkum og nú virðast atvinnubílstjórar ætla að feta fótspor starfsbræðra sinna í Frakklandi og loka vegum út úr Reykjavík um Verslunarmannahelgina.

Segja má að það sé réttur okkar allra að mótmæla enda er mál- og fundafrelsið hluti af undirstöðum allra lýðræðisríkja. En þeim rétti fylgir jafnframt ábyrgð og auðvelt er að misnota þessi réttindi sem leiðir oftar en ekki til gjaldfellingar á þeim málstað sem barist er fyrir. Mótmæli sem eru til þess fallinn að þriðji, og óviðkomandi aðili, hlýtur óþægindi eða skaða af, er uppskrift að misheppnuðum mótmælum.

Í fyrstu sýn virðast fyrirhuguð mótmæli atvinnubílstjóra nú um næstu helgi, Verslunarmannahelgina, vera dæmi um slík mótmæli. Ef af þeim verður munu þau fyrst og fremst bitna á fólki á leið út úr bænum sem ber takmarkaða ábyrgð á gjaldinu. Slíkar aðgerðir eru ekkert annað en gíslataka einstaks hóps á saklausum ferðalöngum sem í raun er óþolandi og varla líklegt til árangurs. Ekki er hægt að ímyndað sér að bílstjórar fastir í umferð í allt að þrjá tíma vegna slíkra aðgerða, eigi eftir að kenna Alþingismönnum um aðstæðurnar. Hitt er þó líklegra að ferðalangarnir hugsi mótmælendum þegjandi þörfina og „mótmælavopnið“ snúist í höndum atvinnubílstjóra.

Vel getur verið að bílstjórar hafi nokkuð til sín máls þó að við fyrstu sýn virðist breytingin á olíugjaldinu vera eðlileg. Gjöld hækka á eyðslufrekari bílum og þungaskatturinn er lagður af. Gjöldin eru í betri tenslum við notkun og í flestum tilfellum geta menn nýtt sér frádráttarheimildir vegna virðisaukaskatts sem nú er lagður á. Því virðist nýtt kerfi hvetja til umhverfisvænni notkunar en áður. Þeir sem koma líklega einna verst út úr breytingunni eru þeir sem ekki eru í virðisaukaskattskerfinu, s.s. leigu- og rútubílar, sem reyndar getur valdið minni notkunar almennings á slíkri þjónustu vegna verðhækkana.

Áður en bílstjórar grípa til vopna um Verslunarmannahelgina og leggja stein í götu saklausra ferðalanga á þessari mestu ferðahelgi ársins ættu þeir anda rólega og huga að afleiðingum aðgerðanna. Umræða um afleiðingar olíugjaldsins er á frumstígi og ekki eru allir innan raða bílstjóra ósáttir. En ef brotið er á rétti einhverra með þessum breytingum verða bílstjórar að upplýsa almenning um það og vinna á sitt band. Ef þeim tekst vel til, er hugsanlegt að friðsamleg mótmæli geti skilað árangri.

Illa hugsaðar aðgerðir með óljósan tilgang, eins og þær sem fyrirhugaðar eru um næstu helgi, eigi að öllum líkindum eftir að gera meira ógagn en gagn.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.