Klíkan í Reykjavík

Allir flokkanir sem standa að R-listanum bera ábyrgð á klúðrum og svikum síðustu ára, hvort sem boðin verði fram sameiginlegur listi eða ekki.

Árið er 1994, Blur og Oases glymja í útvarpinu, bandarískir gamanþættir um þumban Ross Geller og vini hans hefur göngu sína í bandarísku sjónvarpi og Björk kemur fram í bleikum kjól á Glastonbury, og vekur víst nokkra lukku.

Þetta sama ár er er Sjálfstæðisfólk í Reykjavík að vandræðast forystu sína í borgarstjórn og eru skoðanakannanir flokknum ekki í vil. Andstæðingar hans hafa ákveðið að sameinast og mynda Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Kvennalistinn saman kosningabandalag, svokallaðan Reykavíkurlista. Líkt og bleiki kjóllinn í Glastonbury þá vekur þetta bandalag nokkra lukku og svo fer að það sigrar Sjálfstæðisflokkinn í sveitarstjórnakosningunum.

En hver var ásetningur þeirra sem stóðu að stofnun R-listans? Líklegast hefur það forystufólk sem stóðu að að þessum flokkum einfaldlega ætlað sér að mynda bandalag flokka, sem halda samt sem áður sjálfstæði sínu, en slíkt er þekkt fyrirbæri í mörgum löndum. Aðrir hafa litið á þetta sem mikilvægt skref í sameiningu vinstrimanna, (sem en hefur ekki tekist) og vilja jafnvel meina að R-listinn hafi sjálfstætt líf, umfram þessa flokka.

Borgarfulltrúar og varamenn þeirra tilheyra flestir síðarnefnda hópnum, en það er nú svo sem eðlilegt þar sem það viðheldur sínum eigin völdum með því að viðhalda bandalaginu. En einnig eru innan þessa hóps fólk sem þekkir ekkert annað en R-listan. Það fólk hefur hafið pólitíska þátttöku sína innan R-listans og hefur jafnvel aldrei gengið í þá stjórnmálaflokka sem standa að honum, hvorki fyrverandi né núverandi (Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og VG)

Samt sem áður á þetta sama fólk, sem vill halda bandalaginu hvað sem það kostar, nokkuð undir því að ákveðnir flokkadrættir séu fyrir hendi. Ástæðan er auðvitað aukin völd í smákóngakerfi þegar það þarf að semja og miðla málu milli flokka. Þetta fólk er í raun klíka sem stjórnar Reykjavík og virðist vera nokkuð óháð því hvað almennir félagsmenn flokkana vilja – laus við grasrótina. Það hefur nokkrum sinnum reynt á ítök þessarar klíku en þó sennilega aldrei eins og þegar finna þurfti nýjan borgarstjóra – tvisvar. Aldrei var leitað eftir raunverulegu umboði frá flokksmönnum þeirra flokka sem standa að R-listanum, enda nauðsynlegt fyrir borgarfulltrúana að ráða þessu sjálfir. Finna þurfti hentugt fólk sem þvældist ekki fyrir smákóngaveldinu.

Eftir þessar hræringar sem urðu í kringum valið á nýju borgarstjórunum, þá losnaði lítillega um þessi tök borgarfulltrúana, og nógu mikið til þess að gagnrýnisraddir komust upp á yfirborðið. Síðan hafa þessar gagnrýnisraddir aukist í öllum flokkunum og jafnframt lítur út fyrir að pirringur út í samstarfsflokkana hafa aukist.

Nú á síðustu dögum hefur allt stefn í að R-lista samstarfinu verði slitið, en því uppgjöri hefur nú verið frestað í einhvern tíma þar sem skoðanakannanir voru ekki heppilegar. En hvort sem flokkanir bjóða sig fram í bandalagi eða ekki þá þurfa kjósendur að muna það að allir bera þessir flokkar ábyrgð á klúðrum og sviknum loforðum R-listans. Saman hafa þeir staðið að hækkun skattta og gjalda á borgarbúa, þvert gegn gefnum loforðum. Þeir hafa staðið saman að skipulagsklúðrum borgarinnar, og síðast en ekki síst þá hafa allir flokkanir sóað fjármunum borgarbúa í endalausu sukki Orkuveitunar í Reykjavík

Sameinuð eða sundruð þá ber öll klíkan ábyrgð á fortíð R-listans.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.