Innflytjendur sem aldrei hafa flutt

Allt útlit er fyrir að Bretar hafi framið árásirnar í Lundúnum fyrir tæpum tveimur vikum. Öruggt má telja að árásirnar séu sprottnar af misskilningi á íslömskum trúarbrögðum og hópar á slíkum villigötum eru sannarlega áhyggjuefni. Það er hins vegar furðulegt að talað sé um Breta sem hafa alla ævi alið í landinu sem innflytjendur.

Ekki er víst að þessir Bandaríkjamenn telji sig vera innflytjendur, en kannski er ekki búið að segja þeim frá hugtakinu þriðju kynslóðar innflytjandi.

Umræða um fólk sem ekki getur rakið ættir sínar til Jóns Arasonar biskups getur oft og tíðum verið furðuleg. Nú í kjölfar vangaveltna um að árásarmennirnir í Lundúnum hafi verið Bretar hefur enn eitt nýtt hugtak skotið upp kollinum til þess að lýsa því hvernig hryðjuverkamenn eru öðruvísi en hvíta fólkið. Grunur leikur á um að hryðjverkamennirnir hafi verið annarrar eða jafnvel þriðju kynslóðar innflytjendur.

Hugtakið innflytjandi felur í sér að fólk hafi flutt og það er því ekkert að því að nota það hugtak um fólk sem hefur haft vistaskipti. Hugtakið sjálft er skýrt og klárt og öll feimni við notkun þess er óþörf. Það er hins vegar hæpið að kalla menn innflytjendur sem aldrei hafa flutt eitt eða neitt. Það er varla nóg að afi og amma einhvers hafi flutt til þess að hann sé innflytjandi. Hugtakið þriðju kynslóðar innflytjendur er því rökleysa. Með sömu aðferð mætti kalla annálaðan bindindismann fjórðu kynslóðar fyllibyttu af því langamma hans datt einu sinni í það á þorrablóti í sveitinni.

Þar sem mörgum er tamt að trúa flestu illu upp á aðkomufólk frekar en bæjarbúa er frjór jarðvegur fyrir pólitík sem byggist á ótta við útlendinga og innflytjendur. Alltaf eru til menn sem kenna innflytjendum og aðkomupakki um flest sem aflaga fer í samfélögum. Mikilvægur grundvöllur slíkrar pólitíkur er að stimpla fólk í slíka hópa og þar með grafa undan tækifæri þeirra til þess að verða dæmdir af eigin verðleikum. Það hlýtur því að vera hugsunarleysi hjá íslenskum fjölmiðla- og fræðimönnum að tyggja upp hugtökin „annarrar og þriðju kynslóðar innflytjendur.“

Margt bendir til þess að Bretar hafi framið árásirnar í Lundúnum á fimmtudaginn fyrir rúmri viku. Það kemur málinu við að glæpamennirnir séu öfgafullir múslimar sem ekki trúa á lög og reglur samfélagsins. Það er raunverulegt vandamál að mannfjandsamleg hugmyndafræði jaðarhóps innan þeirra trúarbragða sé að ná sífellt meiri fótfestu. En því má heldur ekki gleyma að líka eru til kristnir menn og trúlausir sem ekki telja sig þurfa að fylgja reglum samfélagsins og vilja valda öðrum skaða. Yfir þetta er til ágætt samheiti sem er glæpamenn.

Ofstopamenn og glæpamenn fyrirfinnast í öllum trúarbragðahópum og heittrúaðir telja sig oft hafa rétt og skyldu til þess að fylgja frekar kennisetningum presta og rangtúlkunum á ritningu heldur en lögum mannanna. Slíkt getur leitt menn á svig við samfélagið og bitni slíkt á saklausum borgurum ber að refsa þeim.

Útskýringa á hegðun glæpamanna ber hins vegar helst að leita í þeim sjálfum en ekki í því hvort afar þeirra og ömmur fæddust í Pakistan eða á Paterksfirði.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.