Gíslatakan í Teheran 1979

Þann 4. nóvember 1979 réðust íranskir námsmenn inn í bandaríska sendiráðið í Teheran höfuðborg Írans og náðu því á sitt vald. Þeir tóku sendiráðsstarfsmennina sem gísla og héldu þeim föngnum í 444 daga með stuðningi nýju stjórnarinnar sem íranska byltingin hafði alið af sér fyrr á árinu.

Þann 4. nóvember 1979 réðust íranskir námsmenn inn í bandaríska sendiráðið í Teheran höfuðborg Írans og náðu því á sitt vald. Þeir tóku sendiráðsstarfsmennina sem gísla og héldu þeim föngnum í 444 daga með stuðningi nýju stjórnarinnar sem íranska byltingin hafði alið af sér fyrr á árinu. Á seinni árum hefur þessi gísladeila komist aftur í fjölmiðla vegna málssóknar fórnarlambanna gegn írönskum stjórnvöldum og núna síðast vegna ásakanna á hendur nýkjörnum forseta Íran um að hann hafi verið einn af þeim sem lögðu undir sig bandaríska sendiráðið.

Forsaga

Fyrir byltinguna höfðu Bandaríkin stutt fyrri valdhafa, keisarann Mohammad Reza Pahlavi. Hafði CIA raunar aðstoðað hann við að komast til valda í valdaráni 1953. Í þeirri aðgerð sem nefndist ,,Ajax” var leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA í fyrsta skipti að standa fyrir aðgerð þar sem lýðræðislega kjörnum valdhafa var steypt af stóli. Góður árangur og lítill tilkostnaður varð CIA ennfremur hvatning til að endurtaka leikinn ári seinna í Guatemala.

Samskipti keisarans við Bandaríkjastjórn voru andstæðingum hans þyrnir í augum og vestrænir lifnaðarhættir sem urðu sífellt meira áberandi ollu ólgu meðal heittrúaðra múslima. Þessi atriði, ásamt einræðistilburðum keisarans, leiddu að lokum til byltingar. Ayatollah Khomeini var trúarlegur leiðtogi andstöðunnar og hafði verið sendur í útlegð 1964. Í kjölfar byltingarinnar kom hann heim og tók við völdum í landinu.

Gíslatakan

Bandaríkin reyndu að byggja upp samband við hina nýju stjórn en það var mikil andúð í þeirra garð og samskiptin versnuðu stöðugt. Um koll keyrði þegar keisarinn útlægi fékk hæli í Bandaríkjunum þar sem hann gekk undir læknismeðferð við eitilfrumukrabbameini. Khomeini kynnti undir ólgunni með því að lýsa bandarísk stjórnvöld óvini Íslam og hvatti fólk til mótmælaaðgerða.

Þann 4. nóvember 1979 þustu um 500 námsmenn sem kölluðu sig Imam´s Disciples, inn í aðalbyggingu sendiráðs Bandaríkjanna og náðu henni á sitt vald. Námsmennirnir réttlættu gíslatökuna með því að segja hana hefnd fyrir áralangan stuðning Bandaríkjanna við einræðisstjórn keisarans, sem og fyrir að veita honum hæli. Þeir kröfðust þess að keisarinn yrði framseldur til Íran svo hægt yrði að rétta yfir honum.

Seinna sagði einn af forsprökkum hópsins að þeir hefðu ekki haft neinar úthugsaðar áætlanir varðandi yfirtökuna og að það hefði ekki verið ætlunin að taka gísla. Upphaflega markmiðið hafi verið að vekja athygli á málstað þeirra. En þegar þeir voru búnir að leggja undir sig sendiráðið og taka gíslana lýsti leiðtogi byltingarinnar yfir stuðningi við þá og eftir það höfðu þeir engra annarra kosta völ en að halda kyrru fyrir. Stjórnin var þar með úr þeirra höndum.

Samningaviðræður

Í fyrstu neituðu írönsk stjórnvöld að yfirtaka sendiráðsins hefði verið opinber aðgerð, en þegar tíminn leið án þess að nokkuð væri gert til þess að frelsa gíslana varð sú yfirlýsing ótrúverðug.

Jimmy Carter, þáverandi forseti Bandaríkjanna, beitti diplómatískum þrýstingi og efnahagslegum þvingunum. Olíuinnflutningur frá Íran var stöðvaður, mörgum Írönum var vikið úr landi og íranskar eignir í Bandaríkjunum voru frystar.

Helsta krafan sem Íran setti gegn því að sleppa gíslunum var að fá keisarann framseldan. Einnig kröfðust þeir afsökunarbeiðni frá Bandaríkjunum fyrir afskipti þeirra að innanríkismálum í Íran, svosem aðstoðina sem þeir veittu keisaranum við valdaránið 1953, og loforð um að skipta sér ekki af innanlandsmálum í framtíðinni.

Carter átti í stökustu vandræðum með þessar aðstæður og á meðan hann var að reyna að ná sáttum með viðræðum var gerð leynileg björgunartilraun, “Eagle Claw”, sem misheppnaðist algjörlega. Þrjár af átta þyrlum skemmdust í sandstormi og þegar búið var að stöðva aðgerðina hrapaði ein þyrlan á heimleið og átta menn fórust. Þegar Íranir fundu brak þyrlunnar og lík áhafnarinnar komst upp um björgunartilraunina og voru líkin borin um götur Teheran í miklum götumótmælum sem var sjónvarpað um allan heim.

Lausn

Árið 1980 urðu írönsk stjórnvöld viljugri til að leysa gísladeiluna vegna nýlegs fráfalls keisarans og innrásar Íraks í Íran. Sama ár tapaði Carter fyrir Reagan í forsetakosningunum og vilja margir meina að gísladeilan hafi átt mikinn þátt í því.

Eftir kosningarnar áttu sér stað árangursríkar viðræður milli íranskra og bandarískra stjórnvalda. Íranir féllust á að sleppa gíslunum og í staðinn voru íranskar eignir að andvirði átta milljarða affrystar og Íran fékk friðhelgi gegn öllum hugsanlegum lögsóknum vegna gíslatökunnar. Þann 20. janúar var gíslunum svo sleppt, nokkrum mínútum eftir innsetningarathöfn Reagans.

Umdeild og ósönnuð tilgáta hefur verið sett fram þess efnis að lausn gíslanna hafi verið dregin þangað til eftir kosningarnar vegna samkomulags milli stjórnar Íran og skuggaráðs (e. kitchen cabinet) Reagans, sem var mikið í mun að koma í veg fyrir lausn gíslatökumálsins rétt fyrir kosningar, sem hefði hugsanlega stuðlað að sigri Carters.

Eftirmál

Árið 2000 reyndu gíslarnir fyrrverandi og fjölskyldur þeirra að fara í mál við írönsk stjórnvöld á grundvelli Antiterrorist Act en það eru lög frá 1996 sem heimila bandarískum þegnum að fara í mál við erlendar ríkisstjórnir vegna hryðjuverka sem eru framin í skjóli þeirra. Þau unnu málið upphaflega og allt útlit var fyrir að þeim yrðu dæmdar bætur af írönsku reikningum sem voru enn frystir frá 1979. Bandarísk stjórnvöld gripu þá í taumana, á þeim grundvelli að þetta mál myndi skaða möguleika þeirra til að semja á alþjóðavettvangi, og úr varð að alríkisdómari kvað upp þann dóm að fórnarlömbin fengju engar bætur vegna þess samkomulags sem Bandaríkin gerðu við Íran við lausn gíslanna.

Þetta mál er enn á ný komið í fjölmiðla vegna nýkjörins forseta Írans, harðlínumannsins Mahmoud Ahmadinejad, en nokkrir af þeim sem teknir voru í gíslingu telja hann vera einn höfuðpaura gíslatökunnar. Bandarísk stjórnvöld hafa gripið þetta á lofti sem kemur ekki á óvart í ljósi þess að Ahmadinejad gefur lítið fyrir samskipti við Bandaríkin og leggur áherslu á að halda áfram með kjarnorkuáætlun Íran. Bandarísk stjórnvöld segjast vel geta trúað þessu upp á hinn nýkjörna forseta Íran, þrátt fyrir að engar sannanir liggi fyrir. Þau eru nú að kanna hvort þessar ásakanir eigi við rök að styðjast.

Einnig hafa austurrísk stjórnvöld lýst því yfir að þau hafi skjöl undir höndum þar sem fram koma sterkar vísbendingar um að Ahmadinejad hafi átt aðild að morði á leiðtoga stjórnarandstöðuflokks Kúrda í Vín árið 1989, en það mál er sömuleiðis í rannsókn. Írönsk stjórnvöld segja allar þessar ásakanir úr lausu lofti gripnar og kalla þetta áróðursgildru sem sé runnin undan rifjum Bandaríkjanna og Ísrael.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.