Króna hér og króna þar

Flestir kannast við það hafa borgað auka krónur fyrir hluti eða þjónustu sem eftir á að hyggja þeir hefðu geta sloppið við. Yfirleitt er um að ræða smáar upphæðir sem fæstir hafa fyrir að amast yfir og oft er það svo að við tökum ekki einu sinni eftir því að verið er að rukka okkur hærri upphæð en við þurfum að borga.

Gott dæmi um óþarfa fjárútlát eru seðilgjöldin sem innheimt eru af fyrirtækjum og stofnunum fyrir þá “þjónustu” að senda þér heim gíróseðil. Fyrir nokkrum árum spunnust umræður um þessi mál í þjóðfélaginu, sérstaklega þegar heimabankarnir fóru að ryðja sér til rúms og fleiri tóku að setja reikninga sína í sjálfvirka skuldfærslu. Á ársgrundvelli getur verið um að ræða umtalsverðan sparnað fyrir heimili að sleppa því að fá greiðsluseðla senda til sín og láta skuldfæra greiðslur sjálfvirkt.

Það sem veldur hins vegar heilabrotum hjá undirrituðum er hversu mishá þessi seðilgjöld eru. Kostnaður fyrirtækja er trauðla svo mismunandi við það að prenta út og vinna greiðsluseðla og því freistast maður til að álykta að þau sum hver séu að drýgja tekjurnar með þessum gjöldum. Hér að neðan er að finna töflu sem sýnir mismun á þessum gjöldum milli nokkurra fjármálastofnanna þegar húsnæðislán eiga í hlut (upplýsingar teknar úr reiknivélum þessara fyrirtækja á heimasíðum þeirra).

Stofnun (Greiðsluseðill/Rafræn skuldfærsla)

Íslandsbanki(450 kr / 150 kr)

KB Banki (470 kr / 195 kr)

Landsbankinn (150 kr /100 kr)

Sparisjóður Hafnarfjarðar (450 kr /160 kr )

Frjálsi Fjárfestingarbankinn (690 kr / 160 kr)

Flest fyrirtæki hafa lagt mikið upp úr því við sína viðskiptavini að minnka pappírsflóðið og lækka þannig kostnað. Það sem skýtur kannnski skökku við í þessu öllu saman er að gjöldin fyrir rafræna skuldfærslu virðast hafa verið að hækka hægt og rólega í gegnum árin. Það er einkennilegt á vissan hátt að rafræna skuldfærslan sé að hækka jafnhliða því sem fleiri afþakka greiðsluseðla. Sum fyrirtæki eru hins vegar trú þeirri stefnu að umbuna sínum viðskiptavinum í formi afslátta fyrir að afþakka pappírsreikninga í stað þess að refsa þeim sem kjósa að fá gluggabréf inn um lúguna með síhækkandi seðilgjöldum. Það eru nefnilega tvær leiðir til að minnka pappírsflóðið; hækka gjöldin á þá sem skipta ekki yfir í rafrænt from og umbunana þeim sem svo gera.

Það er því rétt að benda þeim sem enn fá þorra sinna reikninga á pappírsformi heim til sín á að leggja saman þau seðilgjöld sem falla til á hverjum mánuði og reikna út á ársgrundvelli hversu miklir peningar fara í þessi gjöld. Sömuleiðis er rétt að benda fólki á að vera á varðbergi og fylgjast með þróun þessara innheimtugjalda og láta í sér heyra þegar þau hækka og kalla eftir skýringum hlutaðeigandi aðila.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)