Veruleikafirrt lög

Síðastliðinn föstudag tóku gildi lög um breytingu á lögum nr. 81/2003 um fjarskipti en frumvarpið var samþykkt af Alþingi 11. maí síðastliðinn. Með gildistökunni verður að veruleika ein versta hugmynd sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fyrir Alþingi.

Síðastliðinn föstudag tóku gildi lög um breytingu á lögum nr. 81/2003 um fjarskipti en frumvarpið var samþykkt af Alþingi 11. maí síðastliðinn. Með gildistökunni verður að veruleika ein versta hugmynd sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fyrir Alþingi. En eins og var fjallað ítarlega um hér á Deiglunni í apríl þá fela þessar lagabreytingarnar í sér mikla skerðingu á réttindum almennings.

Er lögreglu meðal annars heimilt að fá aðgang að símanúmerum og IP-tölum frá fjarskiptafyrirtækjum án dómsúrskurðar. Hefur þetta verið gagnrýnt harðlega þar sem það er grundvallarregla í íslensku réttarfari að lögreglan þurfi dómsúrskurð áður en hún getur ruðst inn í einkalíf borgaranna. Markmið reglunnar er að vernda almenning fyrir ágangi lögreglu. Af þeim sökum er það algjörlega ólíðandi að veita lögreglu afslátt frá þessari mikilvægu reglu réttarríkisins.

Jafnframt eru fjarskiptafyrirtæki nú skyldug til að skrá viðkvæmar persónuupplýsingar um viðskiptavini sína. Verða þau þannig að varðveita ákveðna “lágmarksskráningu” gagna um fjarskiptaumferð og fjarskiptanotkun. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notendanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar notanda, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda.

Hefur þessi nýja skráning verið harðlega gagnrýnd af ýmsum ástæðum. Hún er gerð í krafti undanþáguheimildar í tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/58/EB. Sú undanþága miðast aðallega við baráttuna gegn hryðjuverkum og var það klárlega ekki markmiðið að hún yrði eingöngu notuð til að hjálpa almennri löggæslu. Einnig hafa komið upp miklar efasemdir við þessa undanþágu og hefur Evrópuráðið lýst yfir miklum efasemdum um það hvort hún samræmist Mannréttindasáttmála Evrópu.

Deiglan vakti athygli á því að tillögurnar ættu uppruna sinn hjá lögreglu og var þýlyndi stjórnmálamanna gagnvart henni gagnrýnt harðlega á þessum vettvangi. Var vakin athygli á því að þeim lagafrumvörpum sem virðast hafa verið samin af lögreglu hefur fjölgað umtalsvert á liðnum árum. Virðast stjórnmálamenn vera farnir að gleyma því að lögreglan er fyrir borgarana en ekki öfugt. Benti Deiglan einnig á að í hverju frumvarpinu á fætur öðru kemur fram að lögreglunni sé alveg bráðnauðsynlegt að fá verulega auknar heimildir, á kostnað réttinda borgaranna, til að geta starfað. Mætti kalla þetta aumingjavæðingu lögreglunnar því af frumvörpunum mætti ráða að lögreglan gæti ekki gert nokkurn skapaðan hlut sjálf heldur þyrfti alltaf að fá allt lagt upp í hendurnar.

Hin nýju fjarskiptalög, breytingar á lögum um útlendinga og tillögur um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála sýna að ákveðnir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins upplifa ekki íslenskan veruleika eins og við hin. Virðast ráðherrarnir halda að á Íslandi sé gífurleg skipulögð glæpastarfsemi, stór hluti þjóðarinnar sé glæpamenn og að útlenskir hryðjuverkamenn leynist bak við hvert horn. Gera verður verulegan fyrirvara á þessar sýn sumra ráðamanna á íslenskan raunveruleika.

Það er ótrúlegt að íslenskir stjórnmálamenn komist upp með að nota hræðsluáróður sem þennan til að grafa undan frelsi einstaklinga hér á landi. Ætíð eru til stjórnmálamenn sem vilja treysta á hræðslu og ótta borgaranna til að skerða réttindi fólks. Sagan ætti að kenna okkur að ekki er heilladrjúgt að samfélag lúti vilja slíkra manna.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)