Alvarlegir brestir í framkvæmd fjárlaga

Ríkisendurskoðun hefur komist að þeirri niðurstöðu að alvarlegir brestir séu á framkvæmd fjárlaga. 120 af 560 fjáralagaliðir fóru meira en 4% fram úr fjárlögum árið 2004 og 60 fóru meira en 10% fram úr. Í stað þess að setja útgjöldum fastar skorður virðast fjárlög eingöngu vera lausleg áætlanagerð af hálfu stjórnvalda. Slík meðferð fjárlaga er ávísun á bruðl með almannafé.

Síðastliðinn miðvikudag birti Ríkisendurskoðun opinberlega skýrslu um framkvæmd fjárlaga árið 2004. Í skýrslunni segir Ríkisendurskoðun að “samanburður á útgjöldum ríkisstofnana á árinu 2004 við fjárheimildir bendir til þess að alvarlegir misbrestir séu við framkvæmd fjárlaga.” Stofnunin bendir á að um 120 af 560 fjárlagaliðir fóru 4% eða meira fram úr fjárlögum og þar af fóru 60 fjárlagaliðir meira en 10% fram úr fjárlögum. Samt sem áður var enginn forstöðumaður ríkisstofnunar áminntur eins og skylt er samkvæmt reglugerð um framkvæmd fjárlaga.

Stofnunin bendir á að í mörgum tilfellum fari stofnanir langt fram úr fjárlögum ár eftir ár án þess að nokkuð sé að gert. Umframútgjöldin eru þá sýnd sem neikvæður höfuðstóll í reikningi þeirra, þær halda ótrauðar áfram að eyða og fjármálaráðuneytið fjármagnar hallann þrátt fyrir að heimildir vanti í fjárlögum. Stofnunin bendir einnig á að aðrar stofnanir eyði mun minna en þeim er heimilt í fjárlögum og að ónýttar fjárheimildir flytjist nánast sjálfkrafa yfir á næsta ár. Í árslok 2004 áttu um 200 stofnanir ónýttar fjárheimildir umfram 4% af fjárheimildum ársins og alls voru ónýttar heimildir 19,5 ma.kr.

Það er ljóst að þessi framkvæmd fjárlaga brýtur með alvarlegum hætti gegn 41. grein stjórnarskrárinnar sem segir að “ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.” Þar að auki er ljóst að þessi tilhögun mála dregur mjög úr því kostnaðaraðhaldi sem fjárlög eiga að veita framkvæmdavaldinu og einstökum stofnunum ríkisins. Í stað þess að setja útgjöldum skorður virðast fjárlög eingöngu vera lausleg áætlanagerð af hálfu stjórnvalda. Slík meðferð fjárlaga er ávísun á bruðl með almannafé.

Það er vitaskuld fjármálaráðherra sem á að hafa það hlutverk innan framkvæmdavaldsins að gæta hagsmuna skattgreiðenda og passa að framkvæmda- og eyðslugleði annarra ráðherra og undirmanna þeirra séu settar skorður. Það er ljóst að hann hefur ekki staðið sig sem skyldi hvað þetta varðar. En Alþingi og þá sérstaklega fjárlaganefnd Alþingis hefur einnig sofið á verðinum í þessu máli. Skattgreiðendur eiga skýlausa kröfu á þessa aðila að þeir taki þessi mál föstum tökum og bæti til muna framkvæmd fjárlaga hið fyrsta.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.