Að velta sér upp úr dögginni

Annað kvöld, aðfaranótt 24 júní er hin merka Jónsmessunótt sem er ein af mögnuðustu nóttum ársins.

Annað kvöld, aðfaranótt 24 júní er hin merka Jónsmessunótt. Nóttin er ein af mögnuðustu nóttum ársins og fylgja henni margar þjóðsögur. Selir missa ham sinn og taka á sig mannsmynd og kýr geta tekið upp á því að tala en hver sá sem verður vitni af því getur sturlast. Á Jónsmessunótt fara álfar og huldufólk á stjá og náttúran tekur hamförum. Einnig er hægt að finna óskasteina fljótandi á vötnum og ýmiss grös með lækningarmætti. Jónsmessunótt á einnig að vera ein af tveimur nóttum ársins sem foreldrar geta haft samband við börn sín sem numin hafa verið á brott af huldufólki.

Allir Íslendingar hafa heyrt um lækningarmátt daggarinnar sem myndast á grösum Jónsmessunætur. Fjölmargir hafa þá venju að velta sér upp úr dögginni naktir og trúa því jafnvel að þá megi óska sér.

Upphaflega var 24 júní heiðin sumarsólstöðuhátíð þar sem lengsta degi ársins var fagnað. Síðar ákvað Rómverskakirkjan að afmæli Jesú og Jóhannesar skírara skyldu vera haldin á fornum sólstöðuhátíðum og þar með varð 24. júní að fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Kirkjunnar menn áttuðu sig ekki á því að sumarsólstöður höfðu færst fram um þrjá daga, til 21. júní, og því ber Jónsmessu ekki upp á lengsta degi ársins. Ástæðan fyrir því að hátíðin heitir ekki Jóhannesarmessa eða Jóhannesarmessunótt er sú að Jóhannes er oft nefndur Jón eða Jóan í fornum ritum.

Jónsmessunótt er haldin hátíðleg víðsvegar um Evrópu með tilheyrandi veisluhöldum, brennum og dansleikjum. Á Íslandi hefur ekki skapast hefð fyrir því að halda daginn hátíðlegan. Ein ástæða gæti verið sú að á þjóveldisöld lenti dagurinn í miðjum alþingistíma þannig ekki gafst tími fyrir hátíðarhöld um landið. Einnig getur strjálbýli landsmanna haft áhrif á að minna var um hátíðarhöld á þessum tíma vegna erfiðra samganga. Í dag er engin ástæða fyrir því að halda Jónsmessunótt ekki hátíðlega. Hér fyrir neðan er listi yfir nokkra af fjölmörgum atburðum sem verða annað kvöld.

* Fjölskylduhátíð í húsdýragarðinum

* Miðnætur- og Ólympíufjölskylduhlaup

* Ferðafélag Íslands stendur fyrir göngu á Heklu

* Útivist er með ferð yfir Fimmvörðuháls

* Bláa lónið er með næturopnun

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.