Að deila (um) forræði

Það virðist orðið óhætt að gefa sér, ef marka má tölfræðina, að taki maður uppá því sem snöggvast að giftast eða hefja sambúð og eignast börn séu þriðjungslíkur á því að sú ákvörðun endi í forræðisumræðum innan 10 ára. Ætli sameiginlegt forræði verði orðið að meginreglu þá?

Það virðist orðið óhætt að gefa sér, ef marka má tölfræðina, að taki maður uppá því að giftast eða hefja sambúð og eignast börn séu þriðjungslíkur á því að sú ákvörðun endi í umræðum um forræði innan u.þ.b. 10 ára. Á síðasta ári gengu 1473 pör í hjónaband, en lögskilnaðir í fyrra voru alls 531. Alls hafði þriðjihluti þeirra sem skildu verið gift í minna en 6 ár, og helmingur í minna en 10 ár. Að þessu gefnu er óhætt að gera ráð fyrir að í flestum tilvika skilnaða séu börn undir 18 ára aldri í spilinu, enda kemur fram í riti Hagtíðinda sem kom út fyrr í mánuðinum að svo sé. Þar segir t.d. að á árinu 2003 hafi foreldarar 593 barna skilið að lögum, og foreldarar annarra 680 hafi slitið samvistum.

Sem betur fer hefur á undanförnum árum mikið breyst til batnaðar í þessum viðkvæmu málum. Það er sem betur af sem áður var, að í langflestum tilvikum fékk móðirin fullt forræði við skilnað, og samband barns við föður dvínaði oft til muna og varð jafnvel að engu. Þjóðin hefur smám saman verið að fikra sig útúr þeim fortíðarhugsunarhætti er varðar jafnrétti kynjanna. Bæði þátttaka mæðra á vinnumarkaði og þátttaka feðra í heimilishaldi og uppeldi þykir eðlileg og hefur lagaumhverfið í takt breyst til batnaðar. Feður eru alveg jafn hæfir uppalendur og mæður; þeir höfðu vegna hlutverkaskiptinga fortíðarinnar einfaldlega ekki fengið tækifæri til að sanna það – eða læra það.

Það er því auðvitað ánægjulegt að sjá hversu miklu mun algengari sameiginleg forsjá er orðin en hún var fyrir réttum áratug. Sameiginleg forsjá var nýmæli í barnalögunum nr. 20/1992. Foreldrar voru fljótir að nýta sér þennan möguleika, en þegar árið 1994 var sameiginleg forsjá valin í 22.8% skilnaðartilvika. Árið 2004 hafði talan svo hækkað í um 73.4% tilvika. Þannig hefur sameiginlegt forræði verið algengasta val foreldra í forsjármálum síðustu þrjú árin.

Í bókinni Áfram foreldrar sem kom út árið 2000 var greint frá niðurstöðum rannsóknar á sameiginlegri forsjá. Þar kom fram að almennt þætti foreldrum reynslan af sameiginlegu forræði góð, eða í 75% tilvika. Einnig var forvitnilegt að þeir foreldrar sem kysu þetta fyrirkomulag ættu frekar að baki sambúðarslit en lögskilnað. Jafnframt voru þeir yngri og meira menntaðir. Sameiginleg forsjá virtist, skv. því sem bókin sagði, einnig leiða af sér betra foreldrasamstarf, minni togstreitu á milli fjölskyldna og líkurnar á því að börn héldu sambandi við upprunafjölskyldur sínar voru auknar til muna.

Það er í þessu ljósi ekki annað hægt en að taka undir þau sjónarmið að sameiginlegt forræði eigi að verða meginregla sem almennt verður gengið út frá, nema sérstakt tilefni sé til annars. En hvað felst í sameiginlegri forsjá?

Margir halda e.t.v. að réttarstaða foreldra í sameiginlegri forsjá sé jöfn. Að foreldrar í sameiginlegri forsjá standi jafnfætis skv. lögum, bæði gagnvart hinu opinbera og gagnvart barni sínu. En eins og kemur fram á vefi Félags einstæðra foreldra er sameiginleg forsjá ekki það sem flestir telja í raun. Á vefnum kemur fram að tvær helstu ástæður þess að foreldrar velji sameiginlegt forræði séu eftirfarandi:

i) að falli það foreldri sem barnið á lögheimili hjá frá, fer eftirlifandi foreldri sjálfkrafa með forræði-en þannig væri það ekki hefði lögheimilisforeldrið haft fullt forræði.

ii) að það foreldri sem barnið á lögheimili hjá hefur ekki rétt til þess að flytjast úr landi nema með skriflegu samþykki hins foreldrisins.

Þá felst í sameiginlegri forsjá að allar stærri ákvarðanir varðandi hagi barnsins skuli vera sameiginlegar.

Sameiginleg forsjá hefur skv. fyrrnefndri rannsókn, ekki falið í sér neina eiginlega breytingu á lengd eða tíðni samskipta við það foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá, frá því sem tíðkast hefur þegar það foreldri er einnig forsjárlaust. Sameiginleg forsjá felur heldur ekki í sér að réttur þess foreldris sem barnið á lögheimili hjá til meðlags falli niður og öll útgjöld vegna barnsins verði sameiginleg. Hinsvegar virðist sem að sameiginleg forsjá hafi frekar kallað á viðhorfsbreytingu – eða andrúmsloftsbreytingu. Augljós aukin ánægja feðra með hlutdeild sína í áframhaldandi uppeldi barna sinna þykir sýna það best, og það að samstarf milli foreldra virðist mun betra.En lengi má gott bæta.

Árið 1997 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að kanna ýmis atriði varðandi sameiginlega forsjá og umgengni barna og foreldra, Forsjárnefnd. Nefndin skilaði áfangaskýrslu til dómsmálaráðherra árið 1999 og var ýmsum tillögum hennar hrundið í framkvæmd við samþykkt barnalaga nr. 76/2003. Forsjárnefnd afhenti nýverið dómsmálaráðherra lokaskýrslu sína. Félag ábyrgra feðra bendir í tillögum sínum til Forsjárnefndar á margt sem snýr að sameiginlegu forræði og að réttarstöðu forræðislausra foreldra almennt sem betur mætti fara. Virðast ábendingar þeirra bæði skynsamlegar og réttlátar.

Í tillögum Félags ábyrgra feðra er að finna efsta á blaði þá tillögu að sameiginleg forsjá verði meginregla við skilnað. Yrði þá jafnframt að gera inntak hennar skýrt og ákvarða nánar þátttöku beggja foreldra, þannig að komist geti á eiginlegt sameiginlegt forræði. Slíkt myndi t.d. fela það í sér að framfærsla og ábyrgð yrði sameiginleg og að barn geti átt sér tvö heimili.

Það er afar mikilvægt fyrir andlegan og tilfinningalegan þroska barna að þau eigi náið og gott samband við báða foreldra sína. Þetta viðhorf hefur síðustu ár verið að ryðja sér rúms í samfélaginu og endurspeglast það í tilgangi og markmiðum barnalaganna. Það að barnið geti litið heimili beggja foreldra sem sitt eigið heimili, þar sem þörfum þess er sinnt og þær uppfylltar, sem og að umgengni við báða foreldra sé tíð og regluleg, er nauðsynleg forsenda þess að náin tengslamyndun geti átt sér stað milli foreldris og barns. Svo virðist sem hugmynd löggjafans með setningu ákvæða um sameiginlega forsjá hafi verið sú að barnið gæti litið svo á að það ætti heimili og öruggt skjól hjá báðum foreldrum sínum. Má m.a. sjá þetta af ummælum í 773. nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar um frumvarp til barnalaga nr. 20/1992, á 115. löggjafarþingi. Þar koma fram eftirfarandi ummæli: „Ljóst er að barn, sem er í sameiginlegri forsjá foreldra sinna sem ekki eru samvistum, getur ekki verið bundið af því að hafa fasta búsetu hjá því foreldri sem það á lögheimili hjá. Dvöl barnsins hlýtur að ráðast af samkomulagi foreldra og eftir atvikum í samráði við barnið.“

Þrátt fyrir þetta er raunin hins vegar sú að þeim foreldrum sem barnið á ekki lögheimili hjá hefur oft verið gert erfitt fyrir við að sinna lögbundnum foreldra- og forsjárskyldum sínum og uppfylla þetta markmið sameiginlegrar forsjár, vegna lakrar réttarstöðu sinnar, í samanburði við það barn sem barnið á lögheimili hjá. Til dæmis má nefna að nái foreldrar við skilnað ekki samkomulagi um umgengni barns við það foreldri sem það á ekki lögheimili hjá getur tekið langan tíma og kostað mikla baráttu að fá úrskurð um umgengni. Slíkur úrskurður er þá sjaldnast upp á meiri en 30% umgengni í stað þess að umgengnin skiptist til helminga í sameiginlegri forsjá, eins og svo margir myndu vilja sjá. Skv. ábyrgum feðrum virðist það sem svo að það taki styttri tíma taki að úrskurða um meðlag heldur en umgengni. Sumir hafa jafnvel viljað halda því fram að að mati yfirvalda sé eina forsjárskylda þess foreldris sem er meðlagsskylt, einmitt að greiða meðlagið.

Það er ljóst að ein af aðalskyldum foreldris gagnvart barni sínu er að framfæra það. Í sameiginlegri forsjá, þrátt fyrir að umgengni sé rík, er það foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá, meðlagsskylt gagnvart hinu. Á lögheimili barnsins rennur því meðlag vegna barnsins auk þess sem öll sú félagslega og fjárhagslega aðstoð er rennur til foreldra vegna barnauppeldis, beint eða óbeint, rennur á lögheimilið, svo sem ýmsar skattaívilnanir, barnabætur, vaxtabætur o.s.fv. Þetta getur orðið til þess að sú hugmynd löggjafans, sem fram kom hér að ofan, um að barnið geti átt heimili á tveimur stöðum og fengið réttindum sínum fullnægt hjá báðum foreldrum sínum, er erfið í framkvæmd. Það foreldri sem barnið hefur ekki skráð lögheimili á, getur einfaldlega verið mun verr í stakk búið til að sinna þeim skyldum sem á því hvíla.

Það verður spennandi að fylgjast með hvernig unnið verður úr skýrslu Forsjárnefndar, bæði niðurstöðum rannsókna sem og athugasemdum hagsmunaaðila. Þetta kemur okkur jú öllum við. Enda þriðjungslíkur á reynslu af forræðismálum frá fyrstu hendi. Í málefnum sem varða forsjá ber að hafa í huga það sem barni er fyrir bestu. Í ljósi þess hversu stór hluti barna á landinu býr við það að njóta ekki að jafnaði daglegra samvista við báða foreldra sína, hlýtur að vera hagsmunamál allra að búa til þannig lagaumhverfi að barnið geti notið alls þess sem það á rétt á, úr hendi beggja foreldra sinna til jafns. Slíkt myndi þá jafnframt ýta undir og stuðla að ríkari og dýpri tengslamyndun við báða foreldra. Það er óskandi að sameiginleg forsjá verði betur skilgreind og geti orðið kostur sem leiðir til þess að fulls jafnræðis gætir hjá móður og föður barns, þannig að orðið „sameiginlegur“ í þessu samhengi fái eiginlega merkingu. Þá færi vel að sameiginleg forsjá yrði meginregla.

Heimildir og ítarefni:

Lokaskýrsla Forsjárnefndar

Félag ábyrgra feðra

Félag einstæðra foreldra

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.