Forgangur á villigötum

Við vorum nokkrir félagar á stuttu ferðalagi um Vesturland til að berja marga af fallegustu stöðum Íslands augum og ekki skemmdi fyrir að sólin skein og veðurguðirnir voru á sparibuxunum. Meðal þess sem við tókum okkur fyrir hendur á þessu stutta ferðalagi okkar var heimsókn í sundlaug Suðureyrar.

Ég átti leið um Vestfirðina um síðustu helgi og ók þá um Vestfjarðagöng en þau liggja undir Breiðadals- og Botnsheiði milli Ísafjarðar, Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Þessi göng eru sérstök að því leyti að inni í þeim eru gatnamót sem tengja Suðureyri við leiðina á milli Flateyrar og Ísafjarðar. Við vorum nokkrir félagar á stuttu ferðalagi um Vestfirðina til að berja marga af fallegustu stöðum Íslands augum og ekki skemmdi fyrir að sólin skein og veðurguðirnir voru á sparibuxunum. Meðal þess sem við tókum okkur fyrir hendur á þessu stutta ferðalagi okkar var heimsókn í sundlaug Suðureyrar. Hún er, eins og svo margar íslenskar laugar úti á landi, lítil en búin góðum heitum pottum þar sem menn geta gleymt sér í samræðum um heima og geima – ekki síst þegar sólin skín.

Við félagarnir ræddum um fyrrnefnd göng og íbúafjölda á Ísafirði og Suðureyri. Við vorum reyndar ekki nógu vel að okkur um byggðakjarna Íslands til þess að hafa þessar upplýsingar á hraðbergi en góðviljaður sundlaugarvörður sagði okkur að á Suðureyri byggju um 310 manns en var ekki viss um hversu margir byggju á Ísafirði. Sagði félagi minn í hálfkæringi að þar sem um 310 manns byggju á Suðureyri og þar sem byggð hefðu verið einbreið göng að bænum hlytu 3010 manns að búa á Ísafirði þar sem tvíbreið göng væri að þeim byggðarkjarna. Ekki veit ég hvaðan hann fékk þessa reglu enda kannski sagt meira í gríni en alvöru en hún kom honum þó nokkuð nálægt réttri tölu.

Þessi litla ferðasaga kemur málefni pistilsins svo sem lítið við, nema að því leyti að nú er ráðgert að byggja viðlíka göng á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem oftast eru kölluð Héðinsfjarðargöng. Munu þau göng tengja tvo byggðarkjarna, Ólafsfjörður með 979 íbúa og Siglufjörð með 1392 íbúa. Þess má geta að á Siglufirði búa 392 fjölskyldur en í Ólafsfirði 265.

En fleiri voru á ferðalagi en við félagarnir. Í öðrum byggðarkjarna hérna á Íslandi, þar sem búa um 184.244 manns eða um 45.000 fjölskyldur, nýttu margir sér langa helgi til að ferðast um Ísland og því miður ekki slysalaust. Að minnsta kosti þrír létust í umferðinni um helgina, einn á höfuborgarsvæðinu og tveir fyrir norðan.

Hver er tengingin á milli ferðalaga, umferðarmannvirkja og dauðaslysa? Jú, það er sú staðreynd að stór hluti dauðslysa verða á svokölluðum ferðahelgum s.s. um Verslunarmannahelgi, Hvítasunnuna eða þegar 17.júní lendir á föstudegi, og mörgum þeirra hefði verið hægt að afstýra með t.d. breikkun vega eða útrýmingu einbreiðra brúa. Því er ekki óeðlilegt að fólk spyrji sig að því hvað ráði mest um forgangsröðun í samgöngubótum. Varla eru það arðsemissjónarmið því ekki hefur fjármunum, innheimtum í gegn um skattkerfið, verið dreift miðað við íbúafjölda í þéttbýli. Gert er ráð fyrir að t.d. Héðinsfjarðargöng muni kosta um 7 milljarða sem eru rúmar 10 milljónir á hverja fjölskyldu á Siglufirði og Ólafsfirði. Þó að vissulega eigi þessar peningar eftir að nýtast fleirum en íbúum þessara tveggja staða hefur lítið verið rætt um þann möguleika að bjóða hreinlega fólki að sameinast um einn stað gegn einni vænni greiðslu. Er til dæmis möguleiki að fjölskyldur í Ólafsvík séu tilbúnir til að flytjast til Siglufjarðar fyrir sautján milljóna eingreiðslu í stað þess að byggja göng. Líklegt er að margir myndu taka slíku tilboði sem hefði án efa mun sterkari og betri áhrif á allar forsendur fyrir líflegri byggð en göng .

Og því miður virðast öryggissjónarmiðin einnig láta í minni pokann fyrir kjördæmapoti þingmanna því nóg er af brýnum verkefnum um allt land sem myndu hafa góð áhrif á tíðni slysa í umferðinni.

Svo er ekki að skilja að allar samgöngubætur úti á landi séu óþarfar. Auðvitað er bara hið besta mál ef reynt er að byggja upp öfluga byggðakjarna með bættum samgöngum en skynsemin verður að ráða för. Dreifð byggð um Ísland hefur sína kosti og engin ástæða til að vanmeta þá. Þó er kominn tími til að horfast í augu við það að blómlegt atvinnulíf þrífst ekki nema með sterkum byggðakjörnum, einbeita sér að því að byggja þá upp og sætta sig við óumflýjanlegan fólksflótta í minni plássum í stað þess að tryggja næstu kosningar með illa rökstuddum kosningaloforðum.

Ég eins og margir aðrir Íslendingar nýt þess að ferðast um landið og vissulega er þægilegt að stytta ferðalögin með jarðgöngum sem í sumum tilfellum geta verið mjög vænlegur kostur. Og jafnvel þó að sum þeirra bæti samgöngur og lífskilyrði margra Íslendinga mjög mikið verður skynsemin að ráða för og forgangsmál, eins og útrýming augljósra dauðagildra, að ganga fyrir.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.