Álæðið

Á undanförnum vikum hefur umræða um byggingu fleiri álvera á Íslandi ágerst mjög og virðast stjórnvöld hafa mikinn áhuga á frekari framkvæmdum. Hefur það leitt til eins konar kapphlaups hinna ýmsu sveitarfélaga um landið til að tryggja sér pólitískan stuðning fyrir álveri í sinni heimabyggð.

Á undanförnum vikum hefur umræða um byggingu fleiri álvera á Íslandi ágerst mjög og virðast stjórnvöld hafa mikinn áhuga á frekari framkvæmdum. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, hefur verið áberandi í þessari umræðu og hafa ummæli hennar ýtt undir vonir þeirra sem styðja frekari uppbyggingu stóriðju að slík uppbygging muni halda áfram þegar byggingu álvers í Reyðarfirði lýkur.

Nú er hafið eins konar kapphlaup hinna ýmsu sveitarfélaga um landið til að tryggja sér pólitískan stuðning fyrir álveri. Sveitarfélögin virðast skilja að ekki verður hægt að byggja „álver í hverri vík“, eins og Valgerður komst að orði, og að þetta geti því verið þeirra síðasta tækifæri til þess að láta drauminn rætast.

Það er sorglegt að horfa upp á það hvað ákvarðanir um álversframkvæmdir eru pólitískar. Á flestum öðrum sviðum íslensks efnahagslífs hefur ríkisvaldið dregið sig að mestu til hliðar og látið arðsemissjónarmið ráða ferðinni. Þegar kemur að álversframkvæmdum eru það hins vegar enn byggðapólitísk sjónarmið sem virðast vega þyngst.

Margir eru skiljanlega andvígir frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi vegna þeirrar varanlegu röskunar sem slík starfsemi hefur á umhverfið. Vegna hinna miklu ríkisafskipta orkar hins vegar uppbygging áliðnaðar ekki síður tvímælis frá efnahagslegu sjónarmiði. Uppbyggingin veldur gríðarlegri röskun á samkeppnisstöðu annarra atvinnuvega á Íslandi, ekki síst vegna áhrifa hennar á gengi krónunnar. Fyrirtæki á frjálsum markaði eru því að gjalda fyrir byggðapólitískar ákvarðanir stjórnvalda.

Í þetta skiptið virðast ennfremur fleiri annarleg rök en eingöngu byggðapólitík koma við sögu. Nú virðast stjórnvöld einnig sjá byggingu enn eins álvers sem lausn á niðursveiflunni sem spáð hefur verið að fylgi í kjölfar þess að framkvæmdum ljúki fyrir austan land. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið bera afskaplega lítið traust til hins frjálsa markaðar þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Þeir virðast hafa gleymt því (eða aldrei trúað) að einkageirinn getur skapað störf og hagvöxt sjálfur án þess að ríkið hlutist þar til með tröllauknum handaflsaðgerðum. Hræðsla þeirra við að sleppa hendinni af hagkerfinu og leyfa því að þróast af sjálfu sér hefur leitt þá til þess að styðja stefnu sem líkist meira og meira 5 ára áætlunum Sovétríkjanna sálugu.

Nýjasta pólitíska hliðin á uppbyggingu stóriðju er krafa nokkurra sveitarfélaga þess efnis að sveitarfélög sem ekki fá stóriðju fái byggðakvóta í skaðabætur. Þessi krafa er að sumu leyti skiljanleg. Það sjá það allir að ákvarðanir um staðsetningu álvera er pólitísk. Með slíkum ákvörðunum eru stjórnvöld að hyggla sumum sveitarfélögum umfram önnur. Þau sem ekki fá álver og þurfa að búa við þrengingar vegna hás gengis krónunnar telja þessa skipan mála vitaskuld óréttláta og krefjast mótvægisaðgerða.

Ef ríkið fellst á þessi rök og ræðst í mótvægisaðgerðir er það í rauninni að rétta af skekkju (sem það á sjálft sök á) með því að skekkja hagkerfið ennþá meira. Eftir stendur helskakkt hagkerfi og enginn ábati. Þetta sýnir einmitt vel af hverju ríkið á ekki að stjórna atvinnuuppbyggingu með handafli. Ef ákvarðanir um byggingu álvera væru teknar af einkaaðilum með arðsemissjónarmið að leiðarljósi myndi enginn eiga kröfu á ríkið um eitt né neitt í því sambandi. Þegar kemur að uppbyggingu stóriðju á ríkið að gera eins og það hefur í auknum mæli gert annars staðar. Það á að halda sér til hlés og einbeita sér að því að búa til leikreglur sem tryggja samkeppni, jafnræði og hámarkshagkvæmni.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)