T1000 á næsta leiti?

Löng hefð er fyrir því að líta til náttúrunnar í leit að innblæstri þegar verið er að hanna nýja tækni. Nýjar uppgötvanir hafa nú vakið vonir manna um að hægt verði í framtíðinni að smíða vélmenni sem minnir meira á T1000 vélmennið en fyrirrennara þess, T101 (sem Arnold Schwarzenegger lék). Innblásturinn er sóttur í hafdjúpin.

Vélmenni hafa í talsverðan tíma verið notuð til að létta mönnum einhæf störf en fjölbreytnin í hönnun þeirra er stöðugt að aukast og eru nú til vélmenni sem geta gengið og líkjast mönnum meira og meira. Þau vélmenni sem hingað til hafa verið smíðuð hafa notast við fasta stoðgrind sem þjónar sama tilgangi og beinagrind manna og annarra hryggdýra.

Nú hafa nýjar uppgötvanir tveggja sjávarlíffræðinga vakið vonir um að hægt verði í framtíðinni að hanna vélmenni sem ekki þurfa miðlæga stoðgrind. Nýverið birtust í tímaritinu Science Magazine niðurstöður rannsókna sem sýna að a.m.k. tvær tegundir kolkrabba geta gengið á tveimur fótum, þrátt fyrir að þeir hafi enga slíka stoðgrind.

Þegar menn hreyfa sig, til dæmis þegar rétt er úr fæti, eru það vöðvasamdrættir sem knýja hreyfinguna áfram. Vöðvinn er festur við tvö bein og liggur framhjá liðamótunum. Þegar vöðvinn dregst saman eru það beinin og liðamótin sem valda því að réttist úr fætinum í stað þess að hann styttist einfaldlega með vöðvanum.

Kolkrabbar og aðrir hryggleysingjar búa ekki svo vel, enda hafa þeir enga miðlæga stoðgrind. Armar þeirra eru beinlausir með öllu svo þeir þurfa að notast við aðrar aðferðir til að geta hreyft armana. Lausn þeirra er sú að þeir hafa vökvafylltar blöðrur innan um vöðvaþræðina sem koma í veg fyrir að armarnir styttist. Í staðinn geta þeir strekkt vöðvaþræðina í kringum blöðrurnar og þannig beygt sig í allar áttir.

Engu að síður eru ákveðin vandkvæði við að nota mjúk liðamót í stað harðra og hingað til hefur verið talið að kolkrabbar hafi aðallega notað armana til að toga sig áfram eftir hafsbotninum. Sú uppgötvun að til séu kolkrabbar sem geta gengið á tveimur fótum (að vísu neðansjávar), vekur vonir um að hægt sé að nota mjúk liðamót í meira mæli en menn hafa gert ráð fyrir hingað til.

Vissulega væri áhugavert að nota þessa aðferð til að smíða silfurlitaða drápsvél líkt og T1000 vélmennið úr kvikmyndinni Terminator. Líklegra er þó að vélmenni sem þessi verði notuð í uppbyggilegri verkefni. Meðal annars eru bundnar vonir við að þessi tækni geti nýst við smíði björgunarvélmenna, þar sem mjúk vélmenni gætu betur komist leiðar sinnar í þröngum rústum en þau hörðu vélmenni sem notuð eru í dag. Sennilega mun líða talsverður tími þar til vélmenni byggð á þessari tækni verða komin í útbreidda notkun, en rannsóknir á mjúkum liðamótum munu að öllum líkindum geta af sér ýmsar áhugaverðar nýjungar.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)