Viva Las Vegas

Borg ljósanna, Las Vegas, fagnaði 100 ára afmæli í síðasta mánuði. Borgin, sem rís upp úr miðri eyðimörk, hefur löngum laðað til sín fólk í gróðavon, annálaða svindlara, frægt fólk, að ógleymdum þeim milljónum ferðamanna sem sækja hana heim árlega.

Borg ljósanna, Las Vegas, fagnaði 100 ára afmæli í síðasta mánuði. Borgin, sem rís upp úr miðri eyðimörk, hefur löngum laðað til sín fólk í gróðavon, annálaða svindlara, frægt fólk, að ógleymdum þeim milljónum ferðamanna sem sækja hana heim árlega. Íbúafjöldi Las Vegas eykst gífurlega á hverju ári og stefnir nú hratt í þrjár milljónir.

Það var árið 1905 að lögð var járnbraut að staðnum og strax ári síðar voru fyrstu spilaborðin sett upp á Golden Gate Hotel & Casino. Þá var þó enn áratugur í að borgin fengi rafmagn og stöðugur straumur gesta, og vatns ef því er að skipta, hófst ekki af alvöru fyrr mörgum árum seinna. Ný lög voru sett í Nevada 19. mars 1931 sem lögleiddu fjárhættuspil og á stuttum tíma reis upp fjöldinn allur af spilavítum og eigendur þeirra sem fyrir voru urðu fegnir að þurfa ekki lengur að borga lögreglunni til þess að líta framhjá þeirri starfsemi sem þegar hafði skotið rótum. Sama ár voru ennfremur sett lög sem heimiluðu fljótasta lögskilnað í Bandaríkjunum, en þar með tók það aðeins sex vikur í stað þriggja mánaða eins og áður hafði verið. Þar með fór að bera á nýju fólki í bænum – fólk kom til Las Vegas til að giftast, verða ríkt og skilja – allt næstum einni nóttu. Íbúafjöldinn var skyndilega kominn upp í 7500 manns.

Mitt inni í mestu kreppunni lauk gerð Hooverstíflunnar sem var opnuð formlega við 20 þúsund manna athöfn 30. september 1935. Meðal viðstaddra var Franklin D. Roosevelt þáverandi Bandaríkjaforseti. Stíflan var stærsta sinnar tegundar í heimi enda fóru næstum 7 þúsund tonn af steinsteypu í gerð hennar. Þetta stóra mannvirki hleypti nýju lífi í Las Vegas.

Framsýnn maður að nafni Tom Hull opnaði fyrsta hótelið fjarri miðbænum við þjóðveg 91. Það var fyrsti vísir af því sem í dag kallast the Las Vegas Strip og er lífæð Las Vegas. Á hótelinu voru 63 herbergi, sundlaug, fáein spilaborð og loftkæling – sem var mesti munaður í eyðimörkinni. Hótelið, El Rancho Vegas, var byggt með ákveðið þema fyrir augum – villta vestrið – eins og nafnið gefur til kynna. Tom Hull þessi gaf því tóninn með það sem á eftir fylgdi því í dag er vandfundið hótel á the Strip sem ekki er eftirlíking af einhverju markverðu annars staðar úr heiminum. Á götunni má finna fremur nákvæma eftirlíkingu af Markúsartorginu í Feneyjum, aðra örlítið verri af New York, Effelturninn trónir hátt yfir Hótel París og svona mætti lengi telja.

Benjamin ,,Bugsy” Siegel átti þó heiðurinn af fyrsta lúxushótelinu á the Strip, Flamingo. Lukkan fylgdi víst ekki hinum fræga mafíósa því á opnunardegi Flamingo 26. desember 1946 hellirigndi, en slíkt gerist ekki oft í Las Vegas. Flugi til Vegas var því að mestu aflýst og opnunin var það sem á slæmri íslensku kallast ,,flopp”. Tveimur vikum síðar var hótelinu lokað og Bugsy dó hálfu ári síðar. Nýir eigendur tóku við hótelinu sem varð gullnáma nokkru síðar. Á árunum 1950 til 1958 spruttu upp 11 stór hótel-spilvíti á the Strip og Las Vegas fór að líkast því sem borgin er í dag.

Fátt virðist slá á fólksstrauminn til borgarinnar. Þegar fyrsta kjarnorkusprengjan var þróuð og síðar sprengd í nágrenninu urðu afleiðingarnar fremur óeðlileg ský á lofti og var svo í fáein ár. Yfirvöld í Las Vegas óttuðust að þetta hefði slæm áhrif á ferðamannaiðnaðinn, en allt er hægt með réttri markaðssetningu. Ferðamenn flykktust sem aldrei fyrr til borgarinnar og drukku atómkokkteila, sem ungfrú atóm færði þeim. Ennfremur varð það afar vinsælt að fara í lautarferð aðeins út fyrir borgarmörkin til að geta séð skýin sem best.

Hundrað ára blómstrar Las Vegas sem aldrei fyrr. Eitthvað aðdráttarafl virðist borgin hafa, þótt hún skilji eftir fleiri spurningar í huga venjulegs Íslendings en svör. En kannski þarf maður einfaldlega að vinna og tapa fúlgum, gifta sig og skilja til þess að upplifa borgina á réttan hátt.

Heimild:

Southwest Airlines Spirit

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)