Er NATO friðarbandalag?

Deilur um NATO hafa staðið alla tíð og eiga eflaust aldrei eftir að hætta. En þróun þess á síðustu árum hefur þaggað niður í mörgum gagnrýnisröddum sem sjá nú mikilvægi þess.

Þann 13. til 15. maí munu utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna koma saman til skrafs og ráðagerða í Reykjavík. Að öllum líkindum verður mest rætt um aukið samstarf við Rússland, enda hafa þessir fyrrverandi erkióvinir bætt samskipti sín til muna á síðustu árum. Sem dæmi um það má nefna umræðu um inngöngu Eystrasaltsríkjanna í NATO en það myndi þýða að bandalagið deildi landamærum sínum með þessum fyrrverandi óvini. Fyrir nokkrum árum hefði þetta verið fráleit hugmynd en með nýjum áherslum NATO hefur andstaða Rússa við þetta atriði minnkað.

Þá er líklegt að stríðið fyrir botni miðjarðarhafs verði til umræðu ásamt baráttunni gegn hryðjuverkum og mögulegri innrás í Írak. 5. grein NATO-sáttmálans verður ef til vill rædd í hálfum hljóðum enda sýndi 11. september hversu víðtækar afleiðingar þessi grein getur haft. Þjóðir heims sýndu ótrúlega samstöðu í þessum aðgerðum en margir óttast fleiri árásir hryðjuverkamanna á hinn vestræna heim og frekari styrjaldir í kjölfarið.

Um næstu helgi munu Samtök herstöðvarandstæðinga halda friðarráðstefnu á Hótel Loftleiðum þar sem NATO-fundurinn verður eflaust gagnrýndur. Á Rás 2 sögðu tveir meðlimir samtakanna að NATO væri fyrst og fremst hernaðarbandalag sem ætti ekkert skilt við frið. Raunverulegur friður næðist ekki fyrr en allir leggðu niður vopn og lifðu í sátt og samlyndi.

Þessi afstaða er auðvitað skiljanleg enda er leitin að öryggi einn af frumþáttum mannsins. Það má hins vegar deila um það hvort friður náist með því að allir leggi niður vopn og treysti á það að enginn taki þau upp aftur. Slíkt samkomulag virkar ekki nema báðir aðilar standi við það og því miður hefur sagan kennt okkur að það eru alltaf til einstaklingar eða hópar sem misnota friðarvilja annarra. Þar fyrir utan er alltaf hægt að finna leiðir til að valda skaða þótt enginn vopn séu notuð, til dæmis með farþegaflugvélum.

Það er auðvitað ekki falleg hugsun að gera ráð fyrir því að það sé alltaf einhver tilbúinn til að valda þér skaða en hún er engu að síður rétt. Að leggja niður öll vopn að fyrra bragði er ekki aðeins heimskulegt heldur hreint og beint hættulegt. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan NATO að öryggi okkar á Íslandi er borgið og vonandi munu Íslendingar njóta þeirrar gæfu það sem eftir er að vera meðlimir bandalagsins. Hins vegar má taka undir það að NATO er í eðli sínu ekki friðarbandalag heldur varnarbandalag. Munurinn á þessu tvennu fellst fyrst og fremst í gagnseminni því þeim mun seint takast ætlunarverk sitt sem vilja fjarlægja einræðisherra með kröfuspjöldum og bréfasendingum.

Vonandi misskilur enginn þennan pistil og heldur að höfundur hans sé á móti frið eða umræðum um frið. Þvert á móti er sjálfsagt og eðlilegt að halda uppi gagnrýni á þá sem fara með yfirráð yfir vopnum og hafa því í hendi sér möguleika á því að koma okkur út í stríð. Hins vegar er sú leið sem til að mynda herstöðvarandstæðingar vilja fara mörgum á móti skapi þótt það séu nú ekki ný sannindi að deilt sé um þessi mál.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)