Dúfulögmálin og dúfuþversögnin

Nú fer senn í hönd sá tími sem margir Íslendingar leggja land undir fót. Eins og flestir þeirra sem ferðast hafa um stórborgir Evrópu má þar finna gnótt dúfna sem virðast hafa þann eina tilgang að þvælast sem mest fyrir ferðamönnum.

Nú fer senn í hönd sá tími sem margir Íslendingar leggja land undir fót. Eins og flestir þeirra sem ferðast hafa um stórborgir Evrópu má þar finna gnótt dúfna sem virðast hafa þann eina tilgang að þvælast sem mest fyrir ferðamönnum. Á stöðum eins og Markúsartorginu í Feneyjum, Placa de Catalunia í Barcelona og við bakka Signu í París er ekki þverfótað fyrir þessum fiðruðu skepnum sem trufla ferðamenn, vaggandi hausnum fram og til baka eins og þær séu stórhissa á háttalagi þessa furðulega mannfólks . Ekki er ljóst hvað vakir fyrir dúfunum en athugulir ferðamenn hafa eflaust tekið eftir nokkrum lögmálum sem gilda um þær og jafnframt einni allsérstakri þversögn – dúfuþversögninni.

Fyrsta dúfulögmálið

Það er ekki hægt að labba á dúfu!

Athugasemd: Allir sem hafa labbað í gegnum dúfuhafið á Placa de Catalunia í Barcelona eða á öðrum sambærilegum “hang-out” stöðum dúfna geta staðfest að það er ekki hægt að labba á dúfur. Á einhvern undraverðan hátt tekst þeim alltaf að víkja sér undan ferðamönnum sem eru að elta þær uppi. Þó svo að menn komi þeim að óvörum, jafnvel hópar úr mismunandi áttum, þá láta þær ekki labba á sig. Hvers vegna þeim tekst þetta er ekki vitað. Hugsanlega tengist það þessu vaggi þeirra með hausinn en margir fræðimenn telja að það geri þeim kleift að sjá inn í fjórðu víddina og þar með varast atburði áður en þeir eiga sér stað.

Annað dúfulögmálið

Ef til er sá blettur á torginu sem er ekki þakinn dúfnaskít þá má bóka það að næst þegar dúfu verður mál mun úrgangurinn lenda nákvæmlega á þeim bletti!

Athugasemd: Það er bein afleiðing af öðru dúfulögmálinu að með tímanum mun hver einasti blettur á torgum heims, sem dúfur halda til á, verða þakinn dúfnaskít. Þetta er öllum ljóst sem t.a.m. hafa komið á Markúsartorgið í Feneyjum en pistlahöfundur var einmitt staddur þar nýlega við rannsóknir á dúfum.

Þriðja og fjórða dúfulögmálið

Það eru ekki til dúfuhreiður og það eru ekki til dúfuungar

Athugasemd: Þrátt fyrir að hafa ferðast víða hefur pistlahöfundur hvergi rekist á dúfuhreiður eða dúfuunga. Allar þær dúfur sem ferðamenn geta augum litið eru fullvaxnar. Það er því ekki nema von að menn spyrji: hvar eru dúfuungarnir? Að vel athuguðu máli gat enginn, sem pistlahöfundur náði tali af, svarið fyrir að hafa séð dúfuunga eða dúfuhreiður. Það er því stór spurning hvar ungar dúfur alast upp eða öllu heldur hvort þær séu yfirhöfuð til fyrst enginn hefur séð þær.

Eru dúfur kannski greindari en okkur órar fyrir? Eru þær hugsanlega svarið við vangaveltum okkar um alheiminn og tilgang lífsins?

Saman mynda því þriðja og fjórða lögmálið eina skemmtilegustu þversögn náttúrunnar – dúfuþversögnina. Dúfuþversögnin er skyld þversögninni um hænuna og eggið að því leyti að hún snýst um uppruna dúfnanna. Með einfaldri rökleiðslu má sjá að þar sem enginn hefur svo vitað sé séð dúfuhreiður eða dúfuunga þá kemur aðeins tvennt til greina:

i) dúfur hafa verið til óendanlega lengi og eru þar af leiðandi samofnar tíma og rúmi

ii) dúfur verða til úr engu á einu augnabliki

Líklega verður að útiloka atriði i) hér að ofan því að við vitum það að heimurinn hefur ekki verið til óendanlega lengi, hann er einungis um 15 milljarða ára gamall.

Skammtafræðin hefur hins vegar lýst samskonar atburðum og liður ii) hér að ofan gerir. Samkvæmt skammtafræðinni eru ákveðnar líkur á því að í tómarúmi myndist eind og andeind sem annað hvort hverfa samstundis aftur rekist þær á, eða fyrir algera tilviljun aðskiljast.

Út frá þessu hljótum við að álykta sem svo, ef við göngum út frá því að dúfur verði til úr engu, að á einhverjum öðrum stað í alheiminum, í vetrarbraut langt, langt í burtu, sé heimur af anddúfum. Þessar anddúfur búa þá yfir neikvæðri jarðlegri orku því annars hefði orðið til orka úr engu sem er ekki hægt samkvæmt eðlisfræðinni. Glöggir lesendur átta sig strax á hættunni sem er til staðar sé þetta rétt. Ef anddúfur af einhverjum ástæðum myndu rata til jarðarinnar gætu átt sér stað stórkostlegar hamfarir þegar þær hitta fyrir dúfur en við kynni þeirra leysist sú orka út sem er bundinn í massa þeirra beggja í einu vetfangi. Þetta myndi orsaka sprengingu miklu kraftmeiri en kjarnorkusprengjur jarðarbúa geta framkallað. Dúfuþversögnin er þó langt í frá að vera svona einföld og hafa margir fræðimenn deilt lengi um uppruna dúfnanna þó án þess að komast að einhlítri niðurstöðu.

Pistlahöfundur hvetur alla sem hyggjast ferðast út fyrir landsteinana í sumar á fjölfarna dúfustaði að hafa þessi lögmál og þversögnina í huga. Enn fremur ef einhver getur fært óyggjandi sönnur á að þriðja og fjórða lögmálið séu fásinna skal hinn sami senda mynd af dúfuhreiðri og dúfuunga til ritstjórnar Deiglunnar. Takist einhverjum þetta, sem verður að teljast afar ólíklegt, þá er ljóst að búið er að kollvarpa einni elstu þversögn náttúrunnar og leysa vandamál sem lengi hafa vafist fyrir mörgum vísindamönnum. Nú ef ekki, þá hvet ég alla til að glíma við dúfuþversögnina, hún er nefnilega margslungnari en virðist í fyrstu.

Góða ferð!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)