Álæði

Það er slæmt að hugsa til þess að við Íslendingar búum í því landi Evrópu þar sem mestu umhverfisspjöll af manna völdum hafa átt sér stað. Nú stafar ógn af álæði og áformum að reisa ný álver áður en lokið er við fyrirhugað álver á Austurlandi.

Það er slæmt að hugsa til þess að við Íslendingar búum í því landi Evrópu þar sem mestu umhverfisspjöll af manna völdum hafa átt sér stað. Ísland var til forna skógi vaxið en nú er skógurinn horfinn að mestu. Ég tilheyri þeim hópi manna sem telur að stærð þess landsvæðis sem var skógi vaxið við landnám sé stórlega ofmetið. Engu að síður er það óumdeilt að víða þar sem áður var gróður er nú einungis svartur sandur.

Forfeður okkar hafa sér nokkuð til málsbóta. Engum dettur í hug að það hafi verið ætlun þeirra að breyta ásjónu landsins með þeim hætti sem raun ber vitni. Þekkingarskortur þeirra á viðkvæmri náttúru landsins ásamt sérstökum skilyrðum hér á landi, varð þess valdandi að skógurinn hvarf. Lagskiptur jarðvegur með veikum öskulögum var óþekktur í beitarlöndum Noregs og því fór sem fór.

Mörgum koma þau áform sem kynnt hafa verið um að reisa nú enn eitt álverið, á Norðurlandi, sennilega Húsavík í kjördæmi iðnaðaráðherra, einkennilega fyrir sjónir. Og þar er ekki látið við sitja, heldur stendur vilji sumra einnig til þess að reisa álver á Suðurnesjum. Þessi áform eru uppi áður en lokið er við byggingu þess álvers sem verið er að reisa á Austurlandi.

Nú er það þannig að álver þurfa raforku. Þetta veit þjóðin, enda ekki í fyrsta sinn sem álver er reist hérlendis. Því þarf að velta fyrir sér þeim virkjunarkostum sem í boði eru. Í Þingeyjarsýslum eru tvær stórar ár sem mögulega geta staðið undir raforkuþörf álvers á Húsavík, Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót. Báðir kostirnir eru afleitir. Virkjun í Jökulsá á Fjöllum eyðileggur Dettifoss sem er stærsti foss í Evrópu. Virkjun í Skjálfandafljóti eyðileggur Goðafoss sem margir dást að og Aldeyjarfoss sem er einn ef ekki sá allra fegursti foss landsins.

Staðreyndin er sú að þetta álæði mun auðvitað taka enda. Það mun koma að því, ef umrædd áform ná fram að ganga, að engir álitlegir virkjunarkostir munu verða eftir. Þá er bara eitt til ráða til að mæta raforkuþörf okkar í framtíðinni, það að reisa kjarnorkuver. Menn verða að hafa það hugfast að þegar þeir samþykkja að enn eitt álverið verði reist, þá eru þeir að leggja blessun sína yfir byggingu kjarnorkuvers. Kjarnorkuver er eini raunhæfi kosturinn þegar búið er að virkja það sem virkjað verður á Íslandi.

Reyndar tel ég að skynsamlegasti kosturinn sé að ráðast strax í að reisa kjarnorkuver ef menn á annað borð ákveða að þörf sé á að reisa álver á Húsavík. En það verður að teljast afar ólíkleg lending. Mun líklegra er að Skjálfandafljót verði virkjað og málamiðlunin verði að hlífa Jökulsá á Fjöllum, í bili að minnsta kosti.

Sú kynslóð manna sem nú fer með völd ber ábyrgð á stórfelldustu náttúruspjöllum á Íslandi síðan landnámi lauk. Kárahnjúkavirkjun er óumdeilanlega mesta vísvitandi röskun á náttúru landsins sem sögur fara af. Á þá frekju núverandi ráðamanna, að ráðstafa allri nýtilegri orku á landinu og binda á sama tíma hendur komandi kynslóða, verður ekki litið sömu augum og á náttúruspjöll forfeðra okkar sem eyddu skógunum.

Með því að selja alla raforkumöguleika okkar í dag á lágmarksverði til hráefnisvinnslu á áli erum við að takmarka möguleika okkar í framtíðinni til að grípa þau tækifæri sem þá munu bjóðast. Til að mynda krefst sú vetnisframleiðsla sem bundin er von við aðallega raforku enda er ekkert óbundið vetni að finna á jörðinni. Afoxun vetnis úr vatni í vetnisveri er á margan hátt svipuð og afoxun áls úr súráli í álveri.

Tilgangsleysi þess að reisa fleiri álver blasir við. Hér er ekkert atvinnuleysi og ólíklegt að núverandi íbúar þessa lands hafi áhuga á að vinna í þessum álverum. Engin þörf er á að ráðast í þessar framkvæmdir vegna efnahagslegra aðstæðna enda erum við mjög rík þjóð. Og það er nú ekki þannig að það sé skortur á góðum tækifærum til atvinnuuppbyggingar. Almenn velmegun ber þess vitni. Ef af þessum glórulausu áformum verður munu menn í framtíðinni spyrja sig hvers vegna í ósköpunum þetta hafi verið gert. Af hverju allt þetta ál? Ekki verður hægt að bera við þekkingarskorti eða því að menn hafi ekki vitað hvaða afleiðingar þetta brölt myndi hafa í för með sér, því það liggur alveg ljóst fyrir.

Á tímum ógnarstjórnar Nasista í Þýskalandi þótti það góð aðferðafræði að benda á að á ákveðnu svæði væri fjöldi gyðinga þessi og atvinnuleysi þetta en á öðru svæði væru fleiri gyðingar og atvinnuleysi meira. Engu máli skipti þó að ekkert orsakasamband væri þarna á milli enda helgaði tilgangurinn meðalið. Í dag tökum við skrefið lengra og látum okkur nægja meðalið. Staðreyndir og tilgangur skipta engu máli og meðalið sem á að leysa allan vanda, jafnvel þann sem ekki er til staðar, er ál.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)