Með kennitölur í handfarangri

Þegar hinn dæmigerði Íslendingur hefur gert góð kaup í útlöndum – hvort sem það er dönsk skinka eða bandarískur iPod – þá eru fastir liðir eins og venjulega að púlsinn hækkar aðeins þegar komið er í Leifsstöð. Skyldi tollurinn vera með einhver leiðindi? Þegar auðjöfrar fara í sínar verslunarferðir eru slíkar áhyggjur óþarfar. Því kennitölur eru nefnilega tollfrjálsar.

Skyldi hann luma á skinku eða verslunarkeðju?

Við litla fólkið erum vanalega ánægð með lífið þegar við komum heim eftir að hafa fjárfest í ódýrum varningi erlendis. Hvort sem um er að ræða bandarískan iPod eða danska skinku er gaman að spjalla um góðu kaupin sem maður er búinn að gera þegar mætt er til vinnu eftir vel heppnaða utanlandsferð.

En því er þó ekki að neita að þegar auðjöfrar Íslands mæta á skrifstofuna eftir sín ferðalög luma þeir oftar en ekki á talsvert meira spennandi góssi. Þeir kaupa breskar verslunarkeðjur, danska banka og bandarísk lyfjafyrirtæki í staðin fyrir kjöt og rafmagnsdót. Flestir ættu að kannast við kaup af þessu tagi, sem sumir vilja kalla útrás. En gárungar innan bankakerfisins eru einfaldlega farnir að tala um kennitöluinnflutning.

Rétt eins og við hin njóta þeir sem kaupa fyrirtæki í útlöndum góðs af háu gengi krónunnar. Þar sem krónan er mjög sterk um þessar mundir, meðal annars vegna þess mikla innflæðis fjármagns sem nota þarf í virkjunarframkvæmdir, er þetta heppilegur tími til að selja krónur fyrir erlendan gjaldeyri sem notaður er til fyrirtækjakaupa.

En gengi krónunnar er ekki það eina sem er kennitöluinnflytjendur njóta góðs af. Jafnvel að teknu tilliti til gengisins er einfaldlega tilfellið að íslenskir fjárfestar virðast vera tilbúnir til að borga meira fyrir tiltekinn rekstur en erlendir. Þetta þýðir ósköp einfaldlega að það er heppileg gróðaleið að kaupa fyrirtæki í útlöndum og selja þau hér.

Bankarnir hafa stundað þessa aðferð með því að kaupa erlenda banka í stríðum straumum. Jafnskjótt og erlendi bankinn er kominn í íslenska eigu hækkar gengið á honum. Sú hækkun kemur fram sem hagnaður hjá íslenska bankanum, sem aftur hækkar gengi hans og styrkir hann enn í frekari yfirtökum.

Með skráningu Mosaic Fashions í Kauphöll Íslands var stigið nýtt skref í þessum innflutningi. Baugur – langstærsti eigandi Mosaic Fashions – hafði ekki getað fjármagnað fyrirtækið á Bretlandsmarkaði svo fyrirtækið var einfaldlega flutt inn til Íslands og seldist hér eins og heitar lummur. Að sjálfsögðu reyndu forsvarsmenn fyrirtækisins að telja upp ýmsar ástæður fyrir því af hverju Kauphöll Íslands væri svona heppileg fyrir fyrirtækið. Sú upptalning hefði verið meira sannfærandi ef ekki væri fyrir þau orð sem stjórnendur Baugs viðhöfðu um árið þegar Baugur var afskráður, enda fundu þeir þá Kauphöllinni allt til foráttu.

Nýjasta innflutningsvaran er svo samheitalyfjafyrirtækið Amide, sem Actavis keypti nú fyrir skemmstu. Þar virðist reyndar um margt spennandi fyrirtæki og talsverðir möguleikar sem opnast fyrir Actavis í framhaldinu. En hið háa, íslenska, gengi bréfa Actavis hefur væntanlega ekki skemmt fyrir.

Sumir hafa fundið kennitöluinnflutningi allt til foráttu, en pistlahöfundur er ekki einn af þeim. Það eru einfaldlega rökrétt viðbrögð við of háu verði á einum markaði að kaupa vörur á öðrum markaði til að flytja inn. Það þýðir þó ekki að rétt sé að stökkva upp til handa og fóta þegar íslensk fyrirtæki kaupa erlend. Þessi stórfelldi innflutningur er nefnilega sterk vísbending um að fyrirtæki í Kauphöll Íslands séu of dýr og því síður en svo skynsamlegt að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í dag – hvað þá að fjárfesta í nýinnfluttum kennitölum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)