Staðin að verki?

Í október á síðasta ári var hin 27 ára ástralska Schapelle Corby á leið í frí til Balí ásamt nokkrum vinum og vandamönnum. Hún var full tilhlökkunar þegar hún yfirgaf heimabæ sinn á Gold Coast því hún var ekki einungis á leið í skemmtilegt frí heldur líka að heimsækja systur sína. Gleðin tók snöggan endi á flugvellinum á Balí þegar Schapelle var stöðvuð með 4.1 kíló af maríjúana.

Ekki nota eiturlyf! Ekki smygla þeim! Alls ekki smygla þeim í Indónesíu! Í október á síðasta ári var hin 27 ára ástralska Schapelle Corby á leið í frí til Balí ásamt nokkrum vinum og vandamönnum. Hún var full tilhlökkunar þegar hún yfirgaf heimabæ sinn á Gold Coast því hún var ekki einungis á leið í skemmtilegt frí heldur líka að heimsækja systur sína sem er búsett á eyjunni ásamt þarlendum eiginmanni sínum. Gleðin tók snöggan endi á flugvellinum á Balí þegar Schapelle var stöðvuð með 4.1 kíló af maríjúana í “bodyboard” töskunni sinni.

Nú ætlar undirrituð hvorki að dæma Schapelle seka né saklausa í þessum pistli en það verður þó að teljast undarlegt að einhver smygli eiturlyfjum frá Ástralíu til Indónesíu. Hún varð mjög undrandi þegar tollverðir opnuðu töskuna fyrir framan hana og sýndu henni mariíjúanað og sagðist ekki hafa séð það áður, hvað þá pakkað því í töskuna sína. Henni var þó að sjálfsögðu stungið í steininn sem ku vera afar ógeðfelldur á Balí. Schapelle hafði flogið frá Brisbane í gegnum Sydney og fljótlega kom upp sú umræða að líklegast hefðu hlaðmenn í Brisbane komið eiturlyfjunum fyrir í tösku Schapelle og hlaðmenn í Sydney átt að taka á móti því. Það hafi hins vegar mistekist.

Ýmsir gallar á rannsókninni hafa komið í ljós, meðal annars var farangur hennar ekki vigtaður við komuna til Balí til samanburðar við þyngd farangursins við brottför í Brisbane. Schapelle var reyndar gripin glóðvolg með fíkniefni í töskunni sinni, hvort sem hún eða hlaðmenn áttu þau. Hvorki hafa fundist fyrri eigendur að fíkniefnunum, né verðandi kaupendur, engir höfuðpaurar, Schapelle er ekki á sakaskrá, hún hefur ekki komið nálægt fíkniefnum (nema kannski hún hafi reykt eina og eina jónu á sínum yngri árum), sekt hennar hefur ekki verið sönnuð, en ekki heldur sakleysi. Því mátti Schapelle eiga von á því að vera dæmd til dauða, hún skyldi verða skotin af aftökusveit fyrir brot sitt.

Í Indónesíu er ekki kviðdómur heldur þrír dómarar (sem tala takmarkaða ensku) en Schapelle hefur fengið fjárstuðning frá áströlskum auðkífingi sem trúir, eins og flestir landar þeirra, á sakleysi hennar. Í lok mars bar ástralskur fangi vitni í máli hennar en hann sagðist hafa heyrt samtal tveggja manna í fangelsinu þar sem þeir töluðu um hver ætti í raun fíkniefnin sem fundust í tösku Schapelle. Hann ákvað að stefna lífi sínu í hættu og segja frá samtalinu í von um að það gæti hjálpað Schapelle en dómararnir sögðu síðar að vitnisburður hans hefði ekki breytt neinu. Hún hefur allan tímann haldið fram sakleysi sínu og segist eiga bágt með að skilja hvernig hún gat lent í þessari aðstöðu. Undirritaðri finnst bágt að trúa því að einhver, sekur eða saklaus, þurfi að gjalda fyrir með lífi sínu fyrir að hafa smyglað rúmum fjórum kílóum af marijúana. Að burðardýr séu skotin af aftökusveit á meðan höfuðpaurarnir halda sælir áfram sinni iðju og finna sér ný burðardýr, svo ekki sé minnst á alla þá glæpamenn sem sleppa með væga dóma fyrir líkamsárásir og morð, en það er nú önnur saga.

Ástralskir túristar á eyjunni sem og fjölskyldan heimsækja hana daglega og færa henni skyndibitamat þar sem fangelsismaturinn er óætur og virðist vera nokkuð mikill samhugur meðal Ástrala í þessu máli. Hún hefur grátbeðið um miskunn og segir sín einu mistök hafa verið að læsa ekki töskunni sinni, og að hún sé svo sannarlega búin að gjalda þess nú þegar. Tvívegis þurftu dómarar að fresta rétti þar sem hún var of veik til að vera viðstödd þegar tilkynna átti hvort hún hlyti dauðadóm yrði hún fundin sek. Refsing við eiturlyfjasmygli í Indónesíu er að öllu jöfnu dauðadómur eða lífstíðarfangelsi og skiptir magnið þá ekki miklu máli, glæpurinn þykir alltaf jafnalvarlegur. Þrátt fyrir að hafa verið gripin glóðvolg með fíkniefnin á flugevellinum mun Schapelle ekki þurfa að horfast í augu við aftökusveitina, hún fær “einungis” lífstíðardóm. Hún var þó að sjálfsögðu langt frá því að vera sátt við það, og segir lífi sínu vera lokið.

27.maí næstkomandi fær Schapelle Corby svo loks að vita hvort hún sé fundin sek eða saklaus. Flest bendir til að hún sé saklaus en það skiptir víst engu máli hvað okkur áhorfendum finnst. Framtíð hennar er í höndum þriggja indónesískra dómara. Ástralir eru hins vegar farnir að vefja töskunum sínum inn í plastfilmu áður en haldið er á flugvöllinn og ekki að ástæðulausu þar sem þetta virðst ekki vera einsdæmi. Eftir að Schapelle komst í fréttirnar kom einn Ástrali fram með sína sögu en hann lenti í því fyrir nokkrum árum að finna heróín í farangri sínum þegar á indónesískt hótel var komið. Hann ráðfærði sig við ástralska sendiráðið þar í landi sem ráðlagði honum að sturta því niður og láta sem ekkert væri. Því miður komst Schapelle ekki alla leið upp á hótelherbergi til að finna óvænta pakkann í sínum farangri.

Latest posts by Þórhildur Birgisdóttir (see all)