Mannréttindaprútt

Þegar þetta er skrifað stefnir allt í að breytingar á lögum um fjarskipti fljúgi lítið breyttar í gegnum þingið með öllum þeim skerðingum á grundvallarréttindum borgaranna sem í þeim felast. Afgreiðsla málsins vekur hins vegar upp áleitnar spurningar um þennan málaflokk hér á landi en við erum ítrekað farin að sjá sömu rútínu í mannréttindamálum hjá framkvæmdarvaldinu og á Alþingi.

Þegar þetta er skrifað stefnir allt í að breytingar á lögum um fjarskipti fljúgi lítið breyttar í gegnum þingið með öllum þeim skerðingum á grundvallarréttindum borgaranna sem í þeim felast. Því miður þá hafa þeir stjórnarliðar sem á tyllidögum hreykja sér af því að standa vörð um frelsi einstaklingsins gegn ríkisvaldinu þagað þunnu hljóði í þessu máli. Stjórnarandstaðan bregst aftur á móti ekki hentistefnunni frekar en fyrri daginn og virðast hafa ákveðið að nota þessa skerðingu á mannréttindum sem skiptimynt til að fresta afgreiðslu á Vatnalögum og lögum um Ríkisútvarpið fram á næsta þing. Verði þeim að góðu.

Afgreiðsla málsins vekur hins vegar upp áleitnar spurningar um þennan málaflokk hér á landi en við erum ítrekað farin að sjá sömu rútínu í mannréttindamálum hjá framkvæmdarvaldinu og á Alþingi. Líkist afgreiðslan, oft á tíðum, frekar prútti á útimarkaði í Suður Frakklandi heldur en vandaðri lagasetningu. Höfundar og hvatamenn frumvarpanna virðast vera farnir að gera ráð fyrir að vera prúttaðir eitthvað niður í mannréttindabrotunum af gagnrýnendum, á Alþingi og út í þjóðfélaginu, og er því fyrsta boð þeirra ávallt mjög hátt. Felur fyrsta boð því iðulega í sér einhverja brjálaða skerðingu á réttindum almennings. Skiptir því litlu máli þótt eitthvað sé dregið úr tillögum þeirra í meðferð þingsins því þær eru svo brjálaðar að hagsmunaaðilar standa iðulega eftir með nógu mikla skerðingu á réttindum borgaranna til að geta verið sáttir við sitt. Eru til mörg dæmi um þetta fjarstæðukennda fyrirkomulag.

Í fyrra lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga. Þar voru réttindi þeirra skert verulega á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum. Var t.d. gert ráð fyrir að heimilt væri að taka lífsýni af þeim, vafi var um það hvort lögreglan þyrfti dómsúrskurð til að leita á heimilum þeirra, furðuleg aldurstakmörk voru sett í tengslum við dvalarleyfi á aldur þeirra útlendinga sem máttu möglunarlaust giftast Íslendingum og svo framvegis. Þetta frumvarp vakti gífurlega hörð viðbrögð í þjóðfélaginu. Leiddi þessi gagnrýni til þess að örlitlar breytingar voru gerðar á frumvarpinu sem gengu aðallega út á að staðfesta að lögregla þyrfti dómsúrskurð til að leita á heimilum útlendinga. Eftir stóð frumvarp og síðar lög sem gerðu útlendinga nánast að annars flokks íbúum í landinu. Hefur þessi lagabreyting þegar leitt til þess að hið opinbera er farið að koma fram við flesta útlendinga sem vilja koma hingað til lands eins og þeir séu grunaðir um einhvern skelfilegan glæp. Svona erum við fordómalaus gagnvart þeim sem eru af erlendu bergi brotnir.

En dómsmálaráðherra var ekki af baki dottinn. Í fyrra lagði hann einnig fram frumvarp til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála. Þar var lagt til lögreglu væri heimilt að hefja hleranir án dómsúrskurðar. Einnig að lögreglu væri heimilt að neita verjendum sakborninga um gögn mála í ótiltekinn tíma. Eins og gefur að skilja þá vakti þetta frumvarp einnig hörð viðbrögð út í þjóðfélaginu, m.a. frá Persónuvernd og Mannréttindastofu. Þessi gagnrýni leiddi til þess að allar heimildir lögreglu til að hlera án dómsúrskurðar var hent út og var lögreglu eingöngu heimilað að neita sakborningi og verjanda hans um gögn máls í þrjár vikur. Eftir stóð frumvarp og síðar lög sem veittu lögreglunni aukna heimild til að meina sakborningi og verjanda hans tímabundið að sjá þau gögn sem var verið að nota gegn honum. Hefur þessi lagabreyting þegar leitt til þess að sakborningar hafa verið hnepptir í nokkra vikna gæsluvarðhald og einangrun án þess að geta varið sig efnislega þar sem þeir hafa ekki haft aðgang að gögnum máls og einfaldlega ekki vitað hvað þeir voru grunaðir um. Svona er þetta glæsilegt réttarríki sem við búum í.

Nýjasta dæmið er síðan náttúrlega frumvarp Samgöngumálaráðherra til breytinga á fjarskiptalögum sem eins og allir vita felur í sér geigvænlegar skerðingar á friðhelgi einkalífs. Að vanda þá vakti þetta hörð viðbrögð út í þjóðfélaginu og skilaði Persónuvernd m.a. áliti þar sem verulegar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið. Gagnrýnin leiddi til þess að gerðar voru nokkrar breytingar á frumvarpinu í nefnd og aðeins dregið úr mannréttindabrotunum. Er núna gert ráð fyrir að viðkvæmar persónuupplýsingar um almenning verði ekki geymdar í eitt ár heldur einungis sex mánuði! Eftir stendur frumvarp sem felur í sér geigvænlega skráningu á persónuupplýsingum og veitir lögreglunni afslátt frá meginreglu laga um meðferð opinberra mála um dómsúrskurð.

Þessi rútína við afgreiðslu mannréttindamála verður að teljast verulega ámælisverð. Hún lýsir hugsunarhætti sem ætti ekki að líðast í vestrænu þjóðfélagi. Stjórnmálamenn eru kosnir til að gæta hagsmuna almennings en ekki prútta með mannréttindi þeirra til að þóknast hagsmunaaðilum. Þrátt fyrir að gagnrýni og mótmæli gegn þessum mannréttindabrotum skili alltaf einhverjum árangri og brotin prúttuð eitthvað niður þá endum við alltaf með einhverja skerðingu á mannréttindum. Prúttið gerir það að verkum að hægt og bítandi er gengið á þessi réttindi okkar en við sjáum svona frumvörp núna á hverju einasta ári.

Útlitið er ekki bjart.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.