Fleiri lögmenn = minni hagvöxtur

Því fleiri lögfræðingar, þeim mun minni hagvöxtur. Þessi tölfræði hefur hvað eftir annað verið staðfest í hagfræðilegum rannsóknum. En hver skyldi ástæða þessa vera?

Hlutverk lögfræðinga og lögmanna er vitaskuld mjög merkilegt en þegar á öllu er á botninn hvolft þá koma þeir bara til gagns þegar eitt af þremur skilyrðum er uppfyllt. Í fyrsta lagi þegar maður hefur gert eitthvað á hlut einhvers annars. Í öðru lagi þegar einhver annar hefur gert eitthvað á manns eigin hlut. Í þriðja lagi þegar maður þarf að eiga viðskipti við aðila sem maður treystir ekki fullkomlega. Lögfræðingar skapa því ekki verðmæti – en geta komið í veg fyrir að verðmæti sóist.

Eitt af því sem rannsóknir á hagvexti hafa leitt í ljós er að mjög mikilvæg forsenda efnahagslegra framfara er að traust ríki. Til þess að fólk ómaki sig við að leggja hart að sér í vinnu og námi, reyni að koma nýjungum á framfæri eða stundi verðmætasköpun af einhverju tagi er mikilvægt að fólk trúi því að það muni uppskera árangur erfiðisins. Ef fólk trúir því að uppskerunni verði rænt er til lítils að rækta garðinn sinn.

Í fátækustu ríkjum heims er nánast undantekningarlaust mikill skortur á trausti. Stjórnvöld eru gjörspillt, stríð eru algeng og hnefarétturinn er æðri eignarréttindum og öðrum mannréttindum. Þetta er rót þeirrar fátæktar sem ríkir svo víða í heiminum. Tilraunir Vesturlandanna til að bæta stöðu fátækustu ríkjanna hafa því miður gjarnan einkennst af lélegum ráðleggingum hagfræðinga sem hafa lesið vitlaust út úr aðhvarfsgreiningum eða stærðfræðiformúlum. Þannig hefur þúsundum milljarða verið dælt í þróunaraðstoð til fjárfestingar sem virðast engu hafa skilað nema tímabundnu innflæði peninga inn á svissneska bankareikninga í eigu misandstyggilegra einvalda.

William Easterly, hagfræðiprófessor við New York University, skrifaði fyrir nokkrum árum bók um hagvöxt og hélt því fram að í allri aðstoðinni hefði gleymst að líta til þeirra grundvallarþátta mannlegs eðlis sem þarf að fóstra til þess að efnahagur blómstri. Trú á framtíðina og traust á samfélaginu er það eina sem getur fengið einstaklinga til þess að einbeita sér að verðmætasköpun. Í heimi þar sem öllu er stolið er óþarfi að eiga nokkurn hlut.

Á Vesturlöndum hafa samfélög víðast komið sér upp vörnum gegn þrjótum og misyndisfólki með því að byggja upp traust á dómskerfi og öðrum stofnunum ríkisvaldsins. Lögfræðingar gegna þar veigamiklu hlutverki en augljóst er að þörfin á lögmönnum vex eftir því sem erfiðara verður fyrir fólk að treysta hvert öðru.

Með þessu skal þó ekki fullyrt að lögfræðingar séu tómar afætur á samfélaginu. Það eru þeir ekki. Sumir þeirra gera jafnvel töluvert gagn – til dæmis með því að ritstýra vönduðum vefritum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.