Versta frumvarp ársins II

Í pistli gærdagsins var fjallað um þann hluta frumvarps samgönguráðherra til breytinga á fjarskiptalögum sem gerir ráð fyrir að fjarskiptafyrirtæki skrái og geymi upplýsingar um alla Internetnotkun landsmanna og samskipti. Í dag verður fjallað um fleiri fjarstæðukenndar hugmyndir sem er að finna í frumvarpinu. Af nógu er að taka.

Í pistli sem birtist á Deiglunni í gær var fjallað um frumvarp samgönguráðherra til breytinga á fjarskiptalögum nr. 81/2003. Var þar rætt um þann hluta frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að fjarskiptafyrirtæki skrái og geymi upplýsingar um alla Internetnotkun landsmanna og samskipti. Er þessi atlaga að réttindum almennings ein og sér alveg nægjanleg til að fullyrða að þetta sé eitt versta frumvarp sem hefur sést lengi. En það er ekki svo gott. Það er nefnilega af nógu að taka í þessu örstutta þrettán greina frumvarpi sem rúmast á ríflega einni blaðsíðu.

Í dag getum við keypt okkur svokölluð frelsiskort fyrir farsíma frá fjarskiptafyrirtækjum án þess að þau haldi skrá yfir kaupanda eða væntanlega notendur kortsins. Hafa það verið talin sjálfsögð réttindi að einstaklingar geti átt og notað farsíma í friði, svo framarlega sem þeir greiði fyrir það. Þetta hefur haft töluverð þægindi í för með sér fyrir notendur sem hafa ekki þurft að ganga í gegnum tímafreka skráningu hjá fjarskiptafyrirtækjum og getað verið með sín númer algjörlega í friði frá öllum.

Nú á frelsið að fara fyrir lítið. Í frumvarpinu er fjarskiptafyrirtækjum gert skylt að halda skrá yfir alla notendur á kerfum sínum og getur engin fjárfest í frelsiskorti lengur án þess að vera rækilega skráður. Er þetta réttlætt með því að lögreglan telji að kort án skráðra notenda séu skálkaskjól fíkniefnasala og annara misindismanna. Það sé t.d. hægt að hóta mönnum í skjóli slíkra korta án þess að lögreglan geti gert nokkurn skapaðan hlut.

Og hvað kemur næst? Með þeim röksemdum sem koma fram í lögskýringargögnum má réttlæta ýmislegt annað. Það væri til dæmis hægt að leiða af þeim röksemdum sem koma frá samgönguráðuneytinu að við þyrftum nauðsynlega að skylda fólk til að sýna skilríki við póstkassa og símaklefa. Illu heilli þá senda fíkniefnasalar líka bréf með póstinum og nota símaklefa. Það er hægt að hóta mönnum með bréfi eða með símtali úr símaklefa. Er það ekki lögreglunni algjörlega lífsnauðsynlegt að vita hverjir séu að nota þessi samskiptatæki?

Í frumvarpinu er lagt til að þær þúsundir einstaklinga sem nota frelsiskort verði sviptar hluta af því frelsi og þægindum sem þeim fylgja til að gera örfáum glæpamönnum erfitt fyrir. Gera menn virkilega ráð fyrir að glæpamennirnir hætti að tala saman í gegnum síma í kjölfarið? Í því samhengi verður að benda á að glæpamenn erlendis, í löndum þar sem frelsiskort eru ekki á boðstólnum, hafa fundið aðrar aðferðir til að halda nafnleysi. Þeir hafa stolið símakortum og fjölfaldað þau í stórum stíl með alveg prýðilegum árangri.

Þeim frumvörpum sem virðast hafa verið samin af lögreglu hefur fjölgað umtalsvert á liðnum árum. Virðast menn vera farnir að gleyma því að lögreglan er fyrir borgarana en ekki öfugt. Það er hins vegar skondið að í hverju frumvarpinu á fætur öðru kemur fram að lögreglunni sé alveg lífsnauðsynlegt að fá verulega auknar heimildir, á kostnað réttinda borgaranna, til að geta starfað. Þetta mætti kalla aumingjavæðingu stjórnmálamannanna á lögreglunni því af frumvörpunum mætti ráða að lögreglan gæti ekki gert nokkurn skapaðan hlut sjálf heldur þyrfti alltaf að fá allt lagt upp í hendurnar.

Hvað þarf íslenska lögreglan næst til að geta sinnt skyldu sinni?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.