Versta frumvarp ársins I

Nú á vordögum er fullt tilefni til að fagna hækkandi sól. Því miður virðast vorfrumvörpin þó ætla að reyna að skyggja á gleði okkar eins og oft áður. Í ár koma köldu kveðjurnar frá samgönguráðherra.

Nú á vordögum er fullt tilefni til að fagna hækkandi sól. Því miður virðast vorfrumvörpin þó ætla að skyggja á gleði okkar eins og oft áður. Rétt fyrir þinglok virðast stjórnmálamenn nefnilega gjarnan fá þá stórsnjöllu hugmynd að gera meiriháttar atlögu að grundvallarréttindum okkar. Í fyrra fór dómsmálaráðherra fram með umdeilt mál gegn réttindum útlendinga og sakborninga í opinberum málum, með misjöfnum árangri. Í ár koma köldu kveðjurnar frá samgönguráðherra.

Þannig er mál með vexti að netsamskipti okkar eru núna vernduð vegna grundvallarsjónarmiða um friðhelgi einkalífs. Er fjarskiptafyrirtækjum óheimilt að halda skrá yfir nethegðun okkar, svo sem hvaða síður við skoðum og hverjum við sendum tölvupóst. Er þeim eingöngu heimilt að geyma gögn sem eru nauðsynleg til reikningsgerðar og uppgjörs. Ástæðan fyrir þessu er einföld, upplýsingar um nethegðun eru meðal viðkvæmnustu persónuupplýsinga sem hægt er að komast yfir því þær gefa upp áhugamál, skoðanir og samskipti einstaklinga í þjóðfélaginu.

Var einhver ástæða til að skerða þessi grundvallarréttindi? Samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum nr. 81/2003. Í því er gert ráð fyrir að í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, séu fjarskiptafyrirtæki skyldug til að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í eitt ár. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst lögreglu og ákæruvald um það hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notendanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, tímasetningar þeirra, tímalengd, hverjum var tengst, magn gagnaflutnings hvort sem er til eða frá viðkomandi notanda.

Þessi breyting er gerð í krafti undanþágu sem er að finna í tilskipun ESB nr. 2002/58/EB um friðhelgi einkalífs og rafræn fjarskipti. Var þessi undanþága sett í kjölfar hryðjuverkanna 11. september og miðast aðallega við baráttuna gegn hryðjuverkum. Höfðu löndin sem komu fram með tillöguna öll þurft að berjast gegn hryðjuverkum, annað hvort í formi beinna hryðjuverka á eigin grund eða þess að hryðjuverkamenn störfuðu og skipulögðu aðgerðir í öðrum löndum í viðkomandi landi. Var undanþágan því ætluð til að bregðast við mjög alvarlegu ástandi í löndunum í kringum okkur og alveg með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli ákveða að misnota hana með þessum hætti. Undirritaður fjallaði um þessa undanþágu í grein sem birtist í Stefni í fyrra (1. tbl. 54. árg. 2004) þar sem eindregið var varað við nýtingu hennar.

Eins og með sum frumvörp sem koma úr dómsmálaráðuneytinu þá virðist frumvarp samgöngumálaráðherra vera skrifað af lögreglunni, fyrir hana sjálfa en gegn almenningi í landinu. Innan lögreglunnar virðist það viðhorf nefnilega ríkja að ef tæknin býður upp á möguleika til að fylgast með einkalífi borgaranna þá eigi að nýta hana. Ekkert er henni heilagt í þeim efnum.

Við hin verðum hins vegar að gera það upp við okkur hvort þetta sé eðlilegt. Er í lagi að skrá netsamskipti allra í þjóðfélaginu og geyma í eitt ár til að hugsanlega klófesta örfáa glæpamenn? Hvenær förum við að gera þá kröfu að lögreglan fari einfaldlega að rannsaka mál í stað þess að þurfa alltaf að vera í persónunjósnum og óþarfa innrásum í einkalíf borgaranna? Lögreglan myndi örugglega upplýsa fleiri glæpi ef hún fengi að fylgjast með okkur öllum stundum sólarhringsins. Sem dæmi má nefna að eftir nokkur ár verða öll símtöl líklega stafræn sem gerir mögulegt að geyma þau í óendanlegan langan tíma. Hvað ætlum við að gera þegar lögregla lýsir því yfir að það sé þeim alveg lífsnauðsynlegt að geyma öll símtöl í þjóðfélaginu í eitt ár í þágu rannsóknar opinberra mála og almannaöryggis? Þeir þurfi nauðsynlega á aðgangi að öllum símtölum okkar að halda til að berjast við t.d. dópsala og barnaníðinga. Ætlum við fyrst þá að berja í borðið og segja lögreglunni að hætta þessu djöfulsins væli?

Eða er ekki bara kominn tími til að stöðva þessa vitleysu núna?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.