Misskilningur borgarbarna

Þrátt fyrir að nú sé árið 2005 og að við lifum öll á þessari svokölluðu upplýsingaöld finn ég mig knúna til að koma á framfæri nokkrum atriðum sem borgarbörn þessa lands virðast ekki hafa alveg á hreinu varðandi landsbyggðina.

Einhvern vegin upplifir maður oft að borgarbörnin sum hver í það minnsta séu haldin miklum ranghugmyndum um byggðir landsins, og svokallaða dreifara sem þaðan koma. Þessi börn hafa mörg hver ekki farið lengra en uppfyrir Geitháls á ævi sinni en telja sig þó vita heilmikið um þessa dreifara og staðina sem að þeir koma frá. Þetta er oftast hinn allra mesti misskilningur. Því er svo komið að ég neyðist til að koma nokkrum atriðum á framfæri varðandi lífið á þessari blessuðu landsbyggð.

Rafmagn. Jú viti menn það er rafmagn á landsbyggðinni. Mín heimabyggð státar meira að segja af fyrstu riðstraumsvikjun landsins. Frá henni var einnig lögð fyrsta háspennulínan og þar að auki var hún aflstöð fyrstu bæjarveitunnar á Íslandi. Þessi virkjun markaði svo sannarlega tímamót í tæknilegu tiliti og þá meina ég ekki einungis fyrir okkur landsbyggðarbörnin heldur fyrir landið allt. Þá hefur þessari algengu spurningu um hvort að það sé virkilega rafmagn á landsbyggðinni verið svarað og greinilegt að mikils misskilnings hefur gætt á meðað borgarbarna varðandi það atriði.

Það er líka sjónvarp út á landi, meira að segja litasjónvarp! Útsendingar í mínum heimabæ hófust reyndar ekki fyrr en 3 árum eftir að þær fóru í gang hér í borginni eða 1. desember 1969. Það virðast þó allir hafa komist bærilega af þessi ár og ekki að sjá á fólksfjöldatölum að mikill brottflutningur hafi átt sér stað á þessum 3 árum. Stöð 2, Sýn og Skjár einn hafa hafið útsendingar þó að sá síðast nefndi sé rétt skriðinn niður á fjörð til okkar.

Internettengingar ná líka út fyrir borgarmörkin. Við tengjumst því líka daglega auk þess sem við vitum hvað tölvupóstsendingar eru og notum ekki bréfdúfur til að senda bréf. Höfum allavega minnkað það mikið í seinni tíð! Reyndar þurftum við að þrauka heillengi án adsl og lúxus af því tagi en þetta kom allt saman á endanum og nú getum við vafrað um netið allan sólarhringinn á háhraða alveg hreint eins og okkur lystir.

Sunnudagsrúntur fjölskyldunnar er yfirleitt ekki farin á traktor,flestir brúka bara heimilisbílinn. Raunar hafa allir á mínum heimaslóðum hætt dráttarvélaakstri. Fyrir alllöngu.

Þá sofum við flest hver ekki í tjöldum. Nema þá bara yfir heitustu sumarmánuðina og þá í svonefndum útilegum, en slíkar legur tíðkast einnig meðal þeirra borgarbúa sem leggja land undir fót og heimsækja hinar dreifðari byggðir. Meira að segja búum við við þann munað að hafa rennandi heitt og kalt vatn. Eitt af fyrstu vatnsklósettum landsins var einmitt í títtumræddri heimabyggð minni fyrir austan. Útikamra höfum við ekki notað síðan snemma á síðastliðinni öld, þó margir vilji meina annað.

Þá hef ég komið á framfæri nokkrum leiðréttingum, týnt til það helsta í þessum efnum, en samt aldrei að vita nema ég komi fleirum slíkum að í nánustu framtíð Það virðist nefnilega vera endalaus misskilningur í gangi varðandi mína heitt elskuðu landsbyggð og oft finnst mér jafnvel jaðra við kaldhæðni svo ótrúlegar eru hugmyndir hins almenna borgarbarns oft og tíðum um okkur dreifarana.

Líf okkar þarna úti í víðáttunni, bak við fjöllin bláu er í raun ekki svo frábrugðið því sem lifað er innan borgarmarkanna. Það er hægt að fara í leikfimi á flestum stöðum. Líka að panta pítsu með pepperoni. Minna samt um þaulsetur á kaffihúsum. Við erum svo mikið í því að bjarga verðmætum. Fiskurinn þið vitið. Það að veið’ann og vinna.

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)