Minn tími mun koma!

sdfdPistlahöfundur hefur til þessa staðið í þeirri trú að tíminn fljúgi og var því talsvert brugðið við fréttir sem bárust nýlega frá MIT-háskólanum.

Reyndar er líklegra en ekki að Vala Matt fengi hjartaáfall yfir lúkkinu á klukkunni sem minnir einna helst á blautan Corn-Flakes vöndul!

Það stendur skrifað að tíminn fljúgi. Fyrir flestum eru þetta gömul sannindi enda öllum ljóst að sama hvað menn streytast á móti þá færist aldurinn óhjákvæmilega yfir þá. Fastur punktur í tilveru flestra er sú viðamikla athöfn að þurfa að drattast fram úr rúminu með herkjum í kolniðamyrkri á morgnanna. Hins vegar verður að teljast líklegt að þeir sem lesi þennan pistil eigi ekki við þetta vandamál að stríða, enda birtist þessi morgunpistill á ansi hreint ókristilegum tíma — fyrir hádegi! Athöfnin er þó ekki jafneinföld og margir ætla enda hafa margar góðar vekjaraklukkur þurft að lúta í gras fyrir spennandi draumförum þar sem ímyndunaraflið getur á stundum farið hamförum með svefndrukkna einstaklinga. Sem einhvers konar málamiðlun við þessari óheillaþróun datt einhver snjall vísindamaður niður á þá hugmynd að setja snooze-takka á vekjaraklukkur: BIG MISTAKE — enda heill flokkur manna sem sér ekkert óeðlilegt við það að snooze-a fram undir hádegi — nefni engin nöfn!

Vísindamenn við MIT-háskóla í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum eru meðvitaðir um þennan vanda og hafa í því augnamiði leitað dyrum og dyngjum að útfærslu á nýrri tegund vekjaraklukkna sem gerir svefndrukknum letingjum erfitt um vik að athafna sig í draumförum. Að grunni til er hugmyndin einföld — en undirliggjandi heimspekilegar pælingar hennar rista dýpra en nokkurn órar fyrir.

Má ég kynna: Clocky!

Clocky er ný og framandi kynslóð friðarbana sem er þeirrar náttúru gerður að hann skynjar þreifingar svefndrukkinna einstaklinga eftir snooze-takkanum og bregst við með því að vekjaraklukkan keyrir fram af náttborðinu og felur sig einhvers staðar í svefnherberginu. Þetta verður til þess að menn með einbeittan vilja til að sofa yfir sig verða að gjöra svo vel að fara fram úr rúminu, þurrka stýrurnar úr augunum og fálma eftir vekjaraklukkunni í myrkrinu.

Menn hafa nú hlotið Nóbelsverðlaun fyrir minna!

Heimspekilegar afleiðingar uppfinningarinnar eru að sama skapi síst ómerkilegri en þær praktísku enda nær uppfinningin — fyrst allra — að gera mönnum það ljóst að sama hvað menn streytast á móti þá verður tíminn aldrei höndlaður!

Fleira var það ekki að sinni, börnin góð!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)