Mars búinn

Í dag er síðasti dagur mars mánaðar. Það þýðir að fyrsti fjórðungur ársins er í þann mund að klárast. Er ekki við hæfi í lok mánaðar að staldra aðeins við og skoða hvað er og hefur verið að gerast í þjóðfélaginu?

Í dag er síðasti dagur mars mánaðar. Það þýðir að fyrsti fjórðungur ársins er í þann mund að klárast. Hvernig getur tíminn liðið svona hratt? Mér finnst eins og ég hafi sporðrennt jólasteikinni í gærkveldi! Það er þó ekki ætlunin að tala um tímann og vatnið eða afstæði tímans í þessum pistli enda við hæfi í lok mánaðar að staldra aðeins við og skoða hvað er og hefur verið að gerast í þjóðfélaginu.

Í mars var hægt að kaup mjólkurpott á minna en krónu, tvo rúmdesimetra af kóladrykk á fimmtíukall og ýmislegt fleira á fáránlegu verði vegna verðstríðs Krónunnar og Bónuss. Nýtt frumvarp um Rúv var kynnt til sögunnar sem gerir ráð fyrir að þegnar landsins, eldri en átján vetra, greiði skatt fyrir að vera með nef, óháð stærð að vísu. Svo kom auðvitað Bobby til landsins og varð samstundis hrókur alls fagnaðar.

Nýjasti Íslendingurinn, allavega einn af þeim nýrri, mun því þurfa að greiða nefskatt sem rennur í digra vasa Auðuns Georgs og Markúsar. Talandi um Auðun Georg. Hann var víst ráðinn fréttastjóri útvarpsins, eða var það sjónvarpsins eða kannski textavarpsins? Mál sem fór ákaflega hljóðlega og tekið var á af mikilli festu og skilningi á öllum sviðum – eða þannig. Skrýtið samt að í allri þessari umræðu um fréttastjóra á Rúv að enginn hafi minnst á það hvers vegna þeir séu svona margir? Það er einn fyrir útvarpið, einn fyrir sjónvarpið og svo er yfirmaður fréttasviðs og ég veit ekki hvað og hvað. Líklega einn fyrir textavarpið, annar fyrir hljóðvarpið og sá þriðji fyrir svæðisútvarpið. Af hverju geta ekki Bogi eða Elín bara gert þetta allt? Talandi um gapandi tækifæri til að spara í rekstri hins opinbera.

Á Alþingi sitja flestir við sinn keip. Þó voru í mars keyrð í gegn mörg brýn lagafrumvörp eins og um stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur, sölu á kristfjárjörðinni Utanverðunesi og um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns. Geti einhver lesandi sagt mér hvað keipur[1], kristfjárjörð og löggiltur niðurjöfnunarmaður sjótjóns er fær sá hinn sami vegleg verðlaun – kók og prins.

Á Alþingi er einnig verið að ræða mörg misáhugaverð mál. Landbúnaðarráðherra vill setja lög um gæðamat á íslenskum æðardúni. Í frumvarpi því segir meðal annars:

“Allur æðardúnn, hvort sem er til dreifingar á innanlandsmarkaði eða til útflutnings, skal metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun.”

Flottur titill: lögskipaður dúnmatsmaður, ekki ónýtt að hafa þetta fyrir aftan nafnið sitt í símaskránni. Að vísu segir ekkert í frumvarpinu hvaða eiginleikum þessir ágætu menn, eða konur, skulu vera gæddir. Líklega er nauðsynlegt að hafa tilfinningu í fingrunum fyrir mýkt, svo iðnaðarmenn með sigg koma ekki til greina. Svo er eflaust ekki verra að hafa prófað margar sængur um ævina og geta metið á fljótvirkan máta varmastuðul dúnsins. Líklega er þetta því tilvalið fyrir svefnpurrkur sem forðast hafa alla vinnu með höndunum. Þess ber þó að geta að þeir hinir útvöldu þurfa að undirrita eiðstaf. Þar fór í verra, tekur allan ljómann af þessu annars spennandi starfi.

bjor3.jpgÞar sem gamall félagi átti afmæli í mánuðinum er að lokum rétt að geta annars frumvarps sem er til umræðu á Alþingi þessa dagana. Ungliðar flestra stjórnmálaflokka hafa myndað þverpólitíska samstöðu um afnám einkaleyfis ríkisins á sölu létt víns og bjórs (gamli félaginn). Ekki rættust því draumar mínir um að geta skálað fyrir félaganum á sextánda afmælisdegi hans með kippu úr 10-11. Vonandi þarf þó ekki að bíða lengur en til hins seytjánda enda kominn tími til, félaginn kominn á bílprófsaldurinn!

Skál!

[1] Samkvæmt Vísindavefnum merkir orðið keipur í samhenginu, að sitja við sinn keip, áraþollur. Er einhver einhverju nær eftir þessa vitneskju?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)