Arftakinn í Alþjóðabankanum

George W. Bush Bandaríkjaforseti tilnefndi nýlega Paul D. Wolfowitz til að taka við af James Wolfensohn sem forseti Alþjóðabankans. Hörður Ægisson skrifaði nýlega hér á Deigluna um forsetatíð Wolfensohn. Það er því kannski við hæfi að skoða hvað væntalegur arftaki hans tekur með sér í nýja starfið.

George W. Bush Bandaríkjaforseti tilnefndi nýlega Paul D. Wolfowitz til að taka við af James Wolfensohn sem forseti Alþjóðabankans. Hörður Ægisson skrifaði nýlega hér á Deigluna um forsetatíð Wolfensohn. Það er því kannski við hæfi að skoða hvað væntalegur arftaki hans tekur með sér í nýja starfið.

Wolfowitz er 61 árs og hefur starfað mestan sinn starfsaldur í opinberri þjónustu fyrir Bandaríkin. Meðal annars hefur hann unnið í utanríkisráðuneytinu, sem sendiherra í Indónesíu og í varnarmálaráðuneytinu þar sem hann hefur verið aðstoðarvarnarmálaráðherra síðan 2001. Hann hefur líka starfað í akademíu en hann lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Chicago 1972. Hann kenndi við Yale og var í 6 ár rektor og prófessor í alþjóðatengslum við Paul H. Nitze School of Advanced International Studies við Johns Hopkins University.

Það er alveg ljóst að tilnefningin er umdeild enda finnst mörgum ferill hans og sú staðreynd að hann var einn helsti arkitekt Íraksstríðsins gefa tilefni til að hafa áhyggjur af því hvernig hann muni stjórna Alþjóðabankanum. Áhyggjurnar liggja helst í því að hann geri bankann að tæki til að framfylgja bandarískri utanríkisstefnu í stað þess að einbeita sér að tilgangi bankans sem er að berjast gegn fátækt í heiminum. Hér er helst átt við þá stefnu að breiða út lýðræði með góðu eða illu, en fyrir því hefur Wolfowitz verið ötull baráttumaður. Einnig má nefna stefnu Bandaríkjanna í samfélagslegum málum svo sem að tala fyrir hreinlífi í stað notkunar getnaðarvarna enda er Alþjóðabankinn t.a.m. stærsti utanaðkomandi aðilinn í fjármögnun baráttunnar gegn eiðnismitum í Afríku.

Það má þó einnig sjá ýmsa jákvæða fleti á þessari útnefningu. Wolfowitz þykir hafa nauðsynlega hæfni í starfið enda býr hann yfir bæði menntun og víðtækri reynslu auk þess að hafa sannað hæfni sína til að stjórna stórri stofnun á borð við Alþjóðabankann. Hann hefur sýnt að hann er agaður stjórnandi sem þykir líklegur til að geta tekið stjórnkerfi Bankans í gegn. Hann hefur líka þann kost að geta orðið sterkur baráttumaður fyrir auknum útgjöldum til þróunarmála í gegnum góðan aðgang að stjórnvöldum í Washington og áhrif á auðugt fólk meðal íhaldsamra Repúblikana.

Wolfowitz hefur á undanförnum dögum rætt við fulltrúa þeirra þjóða sem standa að Alþjóðabankanum og gefið út yfirlýsingar þar sem hann hefur haldið fram að hann muni ekki yfirfæra bandaríska utanríkisstefnu yfir í stefnu bankans. Hann segir einnig að hann geri sér grein fyrir þeim mun sem er á pólitískri og efnahagslegri þróun og að hann muni einbeita sér að þeim hluta sem fellur undir markmið bankans. Útnefning Wolfowitz þarfnast staðfestingar hinna hluthafa bankans en hefð er fyrir því að Bandaríkinn velji forsetann sem stærsti kostunaraðili bankans. Verði hann staðfestur í embættið er vonandi að Wolfowitz standi við þessi orð, einbeiti sér að baráttunni við fátækt og verði þannig fengur fyrir Alþjóðabankann og fátækari hluta heimsins.

worldbank.org

wikipedia.org

washingtonpost.com

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)