Dvínandi áhugi

Hefur ungt fólk almennt áhuga á stjórnmálum eða stendur minni kynslóð bara á sama? Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er að ég sá um daginn innskot hjá Íslandi í dag þar sem var tekin smá könnun á því hvort að unga fólkið þekkti ráðherrana í ríkisstjórninni.

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér mér ungu fólki og stjórnmálum. Hefur ungt fólk almennt áhuga á stjórnmálum eða stendur minni kynslóð bara á sama? Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er að ég sá um daginn innskot hjá Íslandi í dag þar sem var tekin smá könnun á því hvort að unga fólkið þekkti ráðherrana í ríkisstjórninni. Í huga mínum efaðist ég aldrei um að það myndu nú allir vita hverjir ráðherrarnir okkar væru en það var svo sannarlega ekki raunin. Ég komst að þeirri leiðinlegu staðreynd, fyrir framan sjónvarpið, að það vita bara ekki allir hver Halldór Ásgrímsson er þó svo hann sé forsætisráðherra okkar Íslendinga. Ungu viðmælendurnir vissu eiginlega ekki hver neinn ráðherrana var né hvað hann gerði. Ég var nú meira en lítið hneyksluð en róaðsist síðan og fór að hugsa um að ef ég hefði verið í þessu viðtali hefði ég nú kannski frosið og ekki munað allt. Hins vegar hefði ég a.m.k. alltaf munað hvað Halldór og Davíð gera í dag og umfram allt hverjir þeir eru.

Er ég of hörð? Er ekki sjálfsagt að vita hverjir þetta eru, hvað þeir gera og í hvaða flokk þeir eru? Nú verðið þið bara að dæma um það sjálf en að mínu mati held ég að það sé einhvers staðar, einhver ekki að standa sig. En eru það fjölmiðlarnir, stjórnmálamennirnir sjálfir eða ungliðahreyfingarnar? Eru menn að gera þetta vegna þess að þeir vita ekki betur eða er öllum einfaldlega sama?

Það sem var svo skemmtilegt við þetta allt saman var það að unga fólkið vissi ekki einu sinni í hvaða flokki Davíð var ( þ.e.a.s. þeir sem vissu hver hann var ) þannig að Sjálfstæðismenn ættu að geta náð upp fylginu hjá unga fólkinu því ef það er eitthvað sem fólk var ósátt við þá er bara hægt að segja við það ,,nei nei hann Davíð, hann er í Framsókn”.

Að öllu gríni slepptu þá var ég á Þingi Unga Fólksins um helgina þar sem voru saman komin 63 ungmenni sem hvert fyrir sig var að vinna samkvæmt sinni sannfæringu og fyrir þann flokk sem það styður. Þar á bæ vantaði ekki upp á skoðanir. Þvert á móti þá vantaði þar ekki neitt neitt því þar var rifist heiftarlega og sumir fóru í líki þess stjórnmálamanns sem þeir líta mest upp til. Síðan var klappað mikið þegar samstaða náðist um mikilvæg málefni og umfram allt var hlegið mikið.

Kannski eru það einmitt við sem eigum að vera að standa í því að upplýsa jafnaldra okkar. Ekki fjölmiðlarnir, ekki stjórnmálamennirnir heldur við hin sem höfum áhuga á þessu..

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.