Eigum við að erfa mömmu og pabba?

Eitt má telja að öruggt sé í lífi sérhvers manns-og það er að einhvern tímann á lífsleiðinni mun hann deyja. Hafi viðkomandi ekki ráðstafað eigum sínum fyrir andlátið með einhverjum hætti þarf einhverjar reglur eða leiðbeiningar um hver eigi þá að fá reitur þess látna og með hvaða hætti.

Eitt má telja að öruggt sé í lífi sérhvers manns-og það er að einhvern tímann á lífsleiðinni mun hann deyja. Hafi viðkomandi ekki ráðstafað eigum sínum fyrir andlátið með einhverjum hætti þarf einhverjar reglur eða leiðbeiningar um hver eigi þá að fá reitur þess látna og með hvaða hætti.

Um þetta gilda erfðalög sem samþykkt voru sem lög frá Alþingi 1962 með síðari breytingum. Meginreglur laganna eru öðrum þræði byggðar á því sem kalla má framfærslusjónarmið innan fjölskyldunnar, eða sjónarmiðum um að eignir hins látna skulu að jafnaði haldast í ætt hans.

Einstaklingi sem er ókvæntur og barnlaus er frjálst að ráðstafa eignum sínum að vild eftir sinn dag geri hann slíkt með erfðaskrá. Hafi sá hinn sami ekki gert erfðaskrá mæla erfðalögin fyrir um hvernig eigum viðkomandi skuli skipt, en ekki er unnt að fara nánar út í þá sálma hér.

Sé einstaklingur í hjúskap mæla erfðalögin fyrir að maki hans skuli erfa 1/3 af eignum hans en börn eða kjörbörn hans 2/3 eignanna. Þó er einstaklingi heimilt að ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá, þrátt fyrir ofangreint en þeir 2/3 hlutar eigna hans sem eftir standa skiptast þá á milli maka og barna skv. ofangreindri reglu.

Einstaklingur getur því hvorki ráðstafað eignum sínum með öðrum hætti sé hann í hjúskap eða eigi börn eða kjörbörn sem hann hefur ættleitt. Hins vegar getur einstaklingur aukið hlut eins eða fleiri barna eða maka síns með erfðaskrá og ráðstafað 1/3 til þeirra.

Meðalaldur hefur stórhækkað á þeim 43 árum sem liðin eru frá því að erfðalögin tóku gildi. Ekki er óalgengt að börnum tæmist arfur eftir foreldra sína á sextugs-eða jafnvel sjötugsaldri. Með efnahagslegum framförum sem orðið hafa frá upphafi Viðreisnar má einnig vera ljóst að almennt eiga einstaklingar meira af eignum nú en gerðist og því eru eignir hlutfallslega meiri en gerðust þá og því meira til skiptanna.

Framfærslusjónarmið sem grundvöllur þess að einstaklingur geti ekki ráðstafað eignum sínum eiga því aðeins við í dag í undantekningatilfellum, enda lýkur framfærsluskyldu foreldra við börn sín við 18 ára aldur lögum samkvæmt og fáir foreldrar sem deyja frá börnum sínum svo ungum.

Einstaklingur sem á vel stæð börn á sextugsaldri getur því ekki ákveðið að ráðstafa eigum sínum til góðgerðarmála, einstaklingur, sem á barn sem hann hefur ekki séð eða talað við í 30 ár getur ekki ráðstafað eigum sínum öðruvísi og svo má lengi telja.

Burtséð frá því sem margir halda er ekkert sjálfgefið að börn eigi að erfa eignir foreldra sinna að þeim látnum.

Ofangreind regla erfðalaganna er úr takti við samtímann og úr takti við það grunnréttindi sérhvers manns að geta ráðstafað eigum sínum. Nokkuð merkilegt er að löggjafinn hafi ekki fyrir löngu tekið erfðalögin til gagngerrar endurskoðunar hvað þetta varðar. Og þó má telja það enn furðulegra hversu mikil þögn hefur ríkt um þessa tilhögun erfðalaganna!

Erfðalöggjöfin er því marki brennd að vera saminn í allt öðru þjóðfélagi; þjófélagi sem var upptekið af Stóra-Bróður komplex í lagasetningu. Löggjafinn hefur ekkert með það að gera að vera með puttana í því hvernig menn ráðstafa eigum sínum eftir sinn dag, standi ekki gild rök til annars. Og það gera þau aðeins í undantekningatilfellum.

Eðlileg málamiðlun á milli framfærslusjónarmiðs sem nú er ráðandi í erfðalögum og frelsis til ráðstöfunar, er að heimila borgurunum að gera erfðaskrár sem mæla fyrir um hvernig eigum þeirra skuli ráðstafað eftir þeirra dag, séu þeir ekki með börn á framfæri eða aðra sem staðið gætu í vegið fyrir slíkri ráðstöfun.

Nýti menn sér ekki heimild til þess að kveða öðruvísi á með erfðaskrá, gæti hins vegar núgildandi regla gilt, enda er ekkert athugavert við það að börn erfi foreldra sína.

í lokin er rétt að minnast á að erfðalögin banna einstaklingi ekki að ráðstafa eigum sínum í lifanda lífi, siti hann ekki í ósiptu búi eftir maka sinn. Kjósi einstaklingur í dag að gera börn sín arflaus er því ekkert annað að gera en að gefa allar eigur sínar….og segja sig síðan til sveitarfélagsins.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.