Leiga eða að eiga

Yfirleitt er talað um að það sé dýrara að leigja en kaupa, hins vegar hefur íbúðaverð þotið upp að undanförnu og þegar það gerist á svo skömmum tíma nær leiguverð oft ekki að fylgja með.

Yfirleitt er talað um að það sé dýrara að leigja en kaupa, hins vegar hefur íbúðaverð þotið upp að undanförnu og þegar það gerist á svo skömmum tíma nær leiguverð oft ekki að fylgja með og líklega er það raunin þessa dagana. Leiga hefur oft verið litin hornauga þar sem fólk er ekki að “eignast” neitt og jafnvel hefur verið talað um að eyða peningunum í óþarfa.

Víða í nágrannalöndunum er mun meiri menning fyrir leiguhúsnæði. Þannig eiga byggingarfélögin Skanska og NCC heilu blokkirnar sem þeir leigja út. Á Íslandi hefur það helst verið Búseti sem hefur leigt einstaklingum. Leiguverð hefur alltaf þótt vera hátt, en hins vegar hefur íbúðarverð hækkað mjög hratt undanfarið og leiguverð virðist ekki hafa fylgt jafn hratt á eftir.

Sé verð skoðað á leigumörkuðum má gera ráð fyrir að meðal leiguverð á 85 fm þriggja herbergja íbúð sé i kringum 900 krónur á fm, heildarverð er þá 76500 kr á mánuði, innifalið í því er helsti kostnaður svo sem rafmagn, sameign og hiti. Sé hins vegar skoðuð kaup á sambærilegri íbúð má gera ráð fyrir að íbúðin kosti 15 milljónir, miðað við 100% lán hjá kb banka (skv. Reiknivélinni þeirra) myndi afborgun af slíkri íbúð með 40 ára láni vera 51 þúsund á mánuði. Þá á hins vegar eftir að reikna með hita, rafmagni, hússjóð, fasteignagjöldum. Samtals má því gera ráð fyrir að greitt sé tæplega 66 þúsund á mánuði af slíkri íbúð.

Þegar um er að ræða lán til 40 ára er ljóst að eignamyndunin er mjög hæg á lánum sem eru 100%. Munurinn á milli leigu er því 10 þúsund á mánuði sé einungis horft bara á þann kostnað. Ef kostnaði vegna viðhalds er svo bætt við, t.d. málningar á íbúð, reglulega skipti gólfefna, svo og stærra viðhald sem hússjóður dekkar ekki minnkar þessi munur töluvert. Að lokum er kostnaður við kaup og sölu svo sem þónknanir og lántökugjöld ef bætt er við lánin. Aðilar með lágar tekjur fá auk þess húsaleigubætur, fá t.d. hjón með eitt barn og 3 milljónir í árstekjur 10 þúsund í bætur miðað við þessa íbúð (reiknivél er að finna hér).

Að sjálfsögðu eru ýmsar aðrir þættir sem hafa að hafa í huga, þannig hefur fjárfesting í íbúðum verið mjög góð fjárfesting undanfarin ár og skilað af sér mjög góðri ávöxtun. Hins vegar er óljóst hvernig þróunin mun halda áfram, viðkomandi er því ekki að taka neina áhættu að eignir muni falla í verði eða að ekki verði hægt að selja eignina sína, ef hann leigir. Hins vegar mun viðkomandi heldur ekki njóta ávaxta af fjárfestingunni ef íbúðarverð heldur áfram að hækka. Leigu fylgir visst óöryggi en samningur um leigu er oft uppsegjanlegur með 3 mánaða fyrirvara og þá tekur við leit að nýjum samastað og í kjölfarið fyrirhöfn við að flytja. Gagnvart íbúðareigendum fellur oft töluverður kostnaður t.d. vegna viðgerða á viðkomandi íbúð.

Þetta er bara lítið dæmi en ekki nákvæmir útreikningar og miðað er við meðalverð og því þarf að skoða þetta í hvert tilfelli fyrir sig. Hins vegar sýnir þetta að leiga er kostur sem fólk ætti að íhuga, sérstaklega þegar fólk gerir ráð fyrir að þurfa að stækka við sig á næstu árum t.d. vegna fjölgunar í fjölskyldunni.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.