Tilræði við valfrelsi og fjölbreytni

Forræðishyggja vinstrimanna í borgarstjórn er að ganga af einkareknum grunnskólunum í Reykjavík dauðum. Slys er ekki rétta orðið, kaldrifjað og úthugsað banatilræði er meira við hæfi.

Börn í Ísaksskóla, myndin er tekin af vef skólans.

Stríð vinstrimeirihlutans í Reykjavík gegn nokkrum af bestu menntastofnunum þessa lands er smám saman að vinnast. Einkareknir grunnskólar í Reykjavík, sem áratugum saman hafa alið af sér nemendur í allra fremstu röð, heyra brátt sögunni til. Forræðishyggja vinstrimanna í borgarstjórn er að ganga af skólunum dauðum. Slys er ekki rétta orðið, kaldrifjað og úthugsað banatilræði er meira við hæfi.

Og R-listinn er ekki einn að verki. Sósíalísk systursamtök R-listans, forysta Félags grunnskólakennara og forysta Kennarasamband Íslands, hafa gengið í lið með honum í herförinni. Þessir aðilar hafa ekki að markmiði að efla menntun grunnskólabarna.

Barátta þeirra gegn einkareknum grunnskólum er barátta gegn fjölbreytni í skólastarfi, hún er barátta gegn valddreifingu og nýsköpun í skólastarfi. Barátta þessara aðila er auðvitað ekkert annað en varðstaða um kerfið – kerfi sem einungis þjónar þröngum stéttahagsmunum og er stutt af fólki sem fyrir löngu hefur misst sjónar á hið raunverulega hlutverk kennara við menntun og uppfræðslu.

Gegn þessum systursamtökum standa einkareknu grunnskólarnir í Reykjavík í raun berskjaldaðir. Börn sem þar stunda nám eru minna metin af borgarfulltrúum R-listans en önnur reykvísk börn, þau eru sett skör lægra. Tilgangurinn með þessu framferði gagnvart börnunum er að neyða skólana til uppgjafar og fella þá inn í „almenna skólakerfið“ í Reykjavík.

Tilgangurinn er skiljanlegur. Það hlýtur að stinga mjög í augu allra forræðishyggjumanna að sjá einkarekna skóla skila af sér bestu nemendunum ár eftir ár. Árangur einkareknu grunnskólanna er eins og gapandi op í þeirri stíflu framþróunar í menntamálum, sem niðurnjörvað og miðstýrt grunnskólakerfið er í raun.

Og ætlunarverkið er að takast. Valfrelsi og fjölbreytni heyrir brátt sögunni til. Einsleitni, fjöldahyggja og miðstýring – „Draumalandið“ er innan seilingar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.