Passar maðurinn þinn fyrir þig?

Staða fjölskyldunnar hefur verið mjög til umræðu að undanförnu og sitt sýnist hverjum um hver beri ábyrgðina á því að koma þeim börnum sem alast upp í hraða nútímans til manns.

Nýbakaðir foreldrar í fæðingarorlofi upplifa marga nýstárlega hluti það hefur undirrituð fengið að upplifa síðustu vikurnar. Ég hitti ágætan eldri félaga minn í gær, sem er ekki í frásögur færandi, nema vegna þess að hann spurði mig eftirfarandi spurningar með undrun í rómnum: Er það satt að maðurinn þinn passi fyrir þig einn dag í viku meðan þú ferð út að vinna?

Í þessari spurningu endurspeglast hið aldagamla viðhorf að ábyrgðin á fjölskyldunni hvíli á herðum móðurinnar. Þetta viðhorf er úrelt og í dag er sjálfsagður hlutur að feður axli fjölskylduábyrgð með því að vera heima og sjá um börnin sín. Miðað við spurningu félaga míns virðast þessi sannindi ekki hafa skilað sér til allra. Vinnuveitendur hafa einnig kvartað yfir því að eina fólkið sem hægt sé að ráða í vinnu þessa dagana séu konur sem komnar eru úr barneign. Ungt fólk sé alltof upptekið af því að sinna fjölskyldunni og nenni ekki að vinna lengur en til fimm á daginn.

Með setningu fæðingarorlofslaganna var tekið stærsta skref sem hingað til hefur verið tekið í átt til jafnréttis kynjanna á Íslandi. Löggjafinn hefur þar með skapað tæki til að rétta mun kynjanna. En hvað er þá eftir að gera til að stuðla að frekara jafnrétti? Nú er komið að okkur borgurunum að innleiða þá hugsun hjá okkur sjálfum að fjölskylduábyrgðin hvíli jafnt á konum sem körlum. Jafnframt er krafan sú að atvinnurekendur taki mið af þessum nýju viðhorfum í þjóðfélaginu og veiti starfsmönnum sínum svigrúm til að sinna fjölskyldunni með því að gera ekki ótakmarkaðar kröfur til starfsmanna sinna um yfirvinnu og opna á þann möguleika að karlar jafnt sem konur eigi kost á því að minnka starfshlutfall sitt meðan börnin eru að vaxa úr grasi.

Forsætisráðherra hefur skipað nefnd sem ætlað er að meta stöðu fjölskyldunnar á Íslandi. Það er allt gott og blessað, rannsóknir geta hjálpað okkur að koma auga á vandann. En í þessu efni mun ríkið ekki leysa nein vandamál, það verða íbúarnir og atvinnulífið að gera í sameiningu.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.