Afbrotahagfræði

sdfdÁ undanförnum árum hefur kastljós hagfræðinga í auknum mæli beinst að þeim hvötum sem liggja að baki afbrotum.

Glæpur eða refsing – þar liggur efinn!

Innan hagfræði er jafnan gert ráð fyrir að sérhver einstaklingur hagi sér á skynsaman máta með það að augnamiði að hámarka nytjar sínar og er í því tillit rætt um hinn hagsýna mann. Reyndar koma vöflur á marga þegar þeir heyra af þessum hagsýna manni — því ef marka má tölur frá útlánastofnunum virðist hann vera í bráðri útrýmingahættu — auk þess sem erfitt er að ímynda sér að sá hinn sami maður geti verið sérstaklega hændur að raðgreiðslum. Til einföldunar er það hins vegar grunnhugsun innan hagfræði að menn reyni undir öllum kringumstæðum að ná sem hagstæðastri stöðu, m.a. með tilliti til auðssöfnunar á hverjum tíma.

Í þessu samhengi er athyglisvert að velta fyrir sér hagfræðilegri nálgun á glæpi og refsingu en finnski hagfræðingurinn Anssi Keinänen hefur einmitt gaumgæft málið í talsverðan tíma. Eins og sakir standa virðast íslenskir glæpamenn vera lítt versaðir í fræðum Keinänen enda heyrir það til undantekninga að maður nái að bæla niður hláturskrampa þegar maður heyrir af aðförum íslenskra stórkrimma.

Þannig tók steininn úr þegar ógrímuklæddur ungur maður framdi rán á Hótel Örk fyrir ári síðan um hábjartan dag og gleymdi Vísa-kortinu sínu á vettvangi glæpsins! Þið skiljið hvað ég er að fara…

Í stað þess að líta að glæpahneigð sem einhvers konar sálfræðilega bjögun leitast Keinänen við að skýra hvatann með tilliti til ábata glæpamanna. Slík nálgun er forvitnileg fyrir margar sakir, enda geta glæpir sannanlega verið afar ábatasamir eins og nýlegt bankarán í Dyflinni á Írlandi sannar.

Hins vegar er þjóðfélagslegur vandi sem fylgir aukinni glæpatíðni ærinn. Þannig hafa glæpir áhrif á lífsgæði okkar allra — öryggi okkar, eignarétt, einkalíf — og nýlegar rannsóknir benda til að samfélagslegur kostnaður vegna glæpa í OECD-löndunum nemi á bilinu 3-13% af vergri landsframleiðslu.

Það væri kannski fulllangt seilst að gera því skóna að íslenskir glæpamenn muni fjölmenna á fyrirlestur Keinänen hér á landi en hins vegar er efnið áhugavert og vonandi að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Annað væri glæpur.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)