Áhættufjárfestingar á elliheimili

Nú á síðustu dögum hefur George Bush, forseti Bandaríkjanna, eytt miklum tíma í að sannfæra jafnt kjósendur sem þingmenn um ágæti nýrrar áætlunar sem á að koma í veg fyrir vanda bandaríska ellilífeyriskerfisins.

Fólk eldist.

Það er víst eitt af því fáu sem virkilega hægt er að treysta á, þ.e. að við erum eldri í dag en í gær og einhvern tíman í framtíðinni ferðumst við yfir móðuna miklu. Þó að þetta sé óumflýjanlegur sannleikur þýðir það samt ekki að mannskepnan reyni ekki með öllum ráðum að snúa þessari þróun og með framförum í læknavísindum eru lífslíkur okkar betri en foreldra okkar.

Hljómar vel og er náttúrulega bara hið besta mál.

En þessari framtíðarsýn fylgja þó nokkur vandamál. Samhliða því að fólk er lengur á eftirlaunum og ungt fólk virðist eignast færri börn en áður sjá menn fram á að vinnuafl framtíðarinnar eigi eftir að lenda í miklum erfiðleikum með að sjá eldri borgurum fyrir áhyggjulausum ævidögum.

Á þetta sérstaklega við í mörgum af stærstu þjóðum Evrópusambandsins og Bandaríkjunum þar sem heyrst hafa hugmyndir um að styrkja lífeyrissjóði með aukinni skattheimtu og jafnvel hækkun eftirlaunaaldurs.

Nú á síðustu dögum hefur George Bush, forseti Bandaríkjanna, eytt miklum tíma í að sannfæra jafnt kjósendur sem þingmenn um ágæti áætlunar sem á að koma í veg fyrir þennan vanda. Samkvæmt útreikningum Bandaríkjastjórnar mun aðgerðarleysi kosta Bandaríkjamenn framtíðarinnar um 10.400 milljarða bandaríkjadali sem að óbreyttu yrðu innheimtir í gegn um skattkerfið. Samkvæmt heimasíðu Hvíta hússins er þessi upphæð um tvöfaldar árstekjur allra Bandaríkjamanna á árinu 2004. Áætla þeir jafnframt að ekki sé lengra að bíða en til 2018 þangað til að ójafnvægi sé komið í bandaríska lífeyriskerfið, þ.e. að greitt sé meira til lífeyrisþega en aflað er með greiðslum í lífeyrissjóði. Á árinu 2042 sé það komið á hausinn.

Því hefur ríkisstjórn Bush kynnt áætlun sem á að snúa þessari þróun við og ferðast forsetinn vítt og breitt um Bandaríkin til að afla áætluninni stuðning í bandaríska þinginu.

Í stórum dráttum ganga fyrstu drög hugmyndarinnar út á að þeir sem eru fæddir eftir 1950 fá val um hvort þeir greiði í almenna tryggingakerfið, eins og þeir hafa gert áður, eða greiði inn á einkareikninga sem launþegar sjá sjálfir um að ávaxta. Þegar ellilífeyrisaldri er náð er reiknað hversu mikið var greitt inn á reikninginn, gert ráð fyrir 3% ávöxtun og dregið frá almennum réttindum.

Því gefst þeim sem treysta sér til að ná betra ávöxtun en 3% umfram verðbólgu, sem er ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa, að bæta lífeyrisréttindi sín.

Margir hafa þó gagnrýnt þessar hugmyndir, jafnt repúblikanar sem demókratar, og talið of áhættusamt að fara út í slíka tilraunastarsemi með fjárhagslegt öryggi eldri borgara. Hættulegt sé fyrir fólk að tefla lífeyrisréttindum sínum í tvísýnu því að öllum fjárfestingum umfram þessi 3% fylgi áhætta. Benda þeir á að ef ellilífeyrisþegar tapi öllu lendi það á þjóðfélaginu að halda þeim uppi og ekki sé alveg gefið að ná þessari ávöxtun.

Jafnframt eru margir þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að tryggja lífeyrisréttindi framtíðarinnar án þess að hækka skatta eða draga úr greiðslum og tillögur Bush geri því lítið gagn.

Hvernig sem Bush gengur að safna því fylgi sem nauðsynlegt er til að fá slíkar breytingar samþykktar í bandaríska þinginu er ljóst að þessu framtaki fylgir nokkur pólitísk áhætta – áhætta sem margir vilja meina að forseti á leið í kosningar tæki aldrei. Stuðningsmenn Bush benda hins vegar á að hægur leikur væri fyrir hann að velta vandamálum bandaríska lífeyrissjóðakerfisins á næstu ríkisstjórn í stað þess að reyna leysa málið.

Við fyrstu sýn virðast margir kostir fylgja þessari tillögu bandarísku ríkisstjórnarinnar því að eðlilegt er að treysta fólki fyrir ávöxtun sinna peninga. Hins vegar er ekki víst að alltaf fari vel í áhættusömum fjárfestingum og er varla til verri tími til að tapa stórum fjárhæðum en á eldri árum. Hvernig hefði t.d. ástandið verið ef stór hluti Íslendinga hefði veðjað lífeyri sínum í hlutabréf í DeCode þegar verð þeirra stóð sem hæst?

Þó er alltaf gaman að heyra nýjar hugmyndir um hvernig megi laga erfiðleika sem tengjast velferðarkerfinu án þess að hækka skatta. Hvort að hugmyndir Bandaríkjastjórnar séu líklegar til árangurs veltur hins vegar mikið á því hvernig nákvæmlega þær verða útfærðar sem í augnablikinu er ekki enn orðið ljóst.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.