Valið er augljóst

Í dag og á morgun fara fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Kosningarnar snúast um hvort Vaka fái að halda áfram á réttri braut í hagsmunabaráttu fyrir stúdenta eða hvort gamlar og úreltar baráttuaðferðir verði teknar upp á nýjan leik.

Í dag og á morgun fara fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Kosningarnar snúast um hvort Vaka fái að halda áfram á réttri braut í hagsmunabaráttu fyrir stúdenta eða hvort gamlar og úreltar baráttuaðferðir verði teknar upp á nýjan leik.

Fyrir réttum þremur árum vann Vaka tímamótasigur í kosningum til Stúdentaráðs og batt þar með enda á 11 ára valdaskeið Röskvu. Á þessum þremur árum hefur hagsmunabarátta stúdentaforystunnar tekið algjörum stakkaskiptum og hafa stúdentar við Háskóla Íslands notið góðs af því.

Vaka hefur í sínum störfum fyrir stúdenta lagt áherslu á að finna lausnir á vandamálum í stað þess að leggjast niður og væla yfir óréttlæti heimsins. Á þremur árum hefur þessi aðferðafræði skilað stúdentum meiri ávinningi en þeim hlotnaðist á ellefu ára valdatíma Röskvu.

Allir þeir sem leggja krafta sína í að berjast fyrir hagsmunum stúdenta vilja vel. Það á jafnt við um Vöku, Röskvu, Háskólalistann og Alþýðulistann, sem nú er í framboði í fyrsta sinn. Munurinn liggur fyrst og fremst í þeim aðferðum sem beitt er. Ef aðferðirnar eru rangar, dugar góður tilgangur ekki til.

Röskva hefur fullreynt baráttuaðferðir sínar og ef marka má málflutning félagsins í nýafstaðinni kosningabaráttu er ólíklegt að þar standi til að breyta um aðferðir. Óumdeildur árangur af þriggja ára forystu Vöku í Stúdentaráði sýnir hins vegar að aðferðir Vöku er miklu líklegri til að ná þeim sameiginlega tilgangi sem öll framboðin stefna að.

Kosningarnar í dag og á morgun snúast um hvort áfram eigi að viðhafa þær aðferðir sem skila árangri í hagsmunabaráttu stúdenta eða hvort hverfa eigi aftur í tímann. Valið er augljóst.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)